19. apríl 2012. Sumardagurinn fyrsti.
Gleðilegt sumar og takk fyrir hinn brottkvadda vetur.
Það fór nú heldur lítið fyrir sumarhlýindunum í dag, var þó meinhægt veður en svalt.
Við vorum við okkar hefðbundna starf á þessum degi. Brennimerktum á annað hundrað tvævetlur. En það var nú ekki allt hefðbundið við þetta núna. Vegna þess að þau komu hér frá Sjónvarpinu, Þórhildur Ólafsdóttir og Björgvin Kolbeinsson að taka upp brennimerkingarnar, sem á svo að sýna í Landanum innan tíðar. Þau voru hress og skemmtileg og gaman að fá þau í heimsókn, þótt maður sé nú ekki vanur að vinna verkin undir vökulli linsu sjónvarpsmyndavélar. En við létum okkur hafa það og svo er bara að sjá hvernig þetta kemur út.
Þá er að taka af sér afrakstur vetrarins. Gengur ekki að vera með þetta í sumarhitunum. En ekki verður af skafið nema með nokkurri eftirsjá. Ojæja það kemur aftur haust með skegg á kinn. IMAGE_HTML
Horfa á myndband
18. apríl 2012
Það var heldur óvænt í morgun að vakna við hríðarfjúk og gráa jörð. En við vorum nú ekki komin langt austur fyrir Voga, þegar við vorum komin í glaða sólskin, sem entist heimferðina allt norður á Öxnadalsheiði. En þegar heim kom var norðaustan kalsi með hríðaréljum.
Við höfðum viðkomu hjá augnlækninum kl. 8 í morgun og fékk Sigrún góða skoðun þar.
17. apríl 2012
Við áttum ágætan dag. Mættum kl. 8 í skoðun hjá augnlækni og þar kom í ljós að hann vildi fá Sigrúnu aftur í fyrramálið til frekari skoðunar. Heimferð frestaðist því um einn dag af þeim sökum. Við notuðum því daginn til að skoða helstu staði borgarinnar í sól og blíðu, eins og ævinlega er þegar ég fer suður. Við settum okkur á bekk við Tjörnina og skoðuðum fugla- og mannlíf, fórum á pallana í Alþingishúsinu og hlustuðum um stund á rifrildi þar. Við skoðuðum Ráðhúsið og Dómkirkjuna og fórum í Iðnó til að hitta Hörpu vinkonu Sólveigar, sem var þar að undirbúa Barnamenningarhátíðina. Að þessu búnu fórum við í Norrænahúsið til að sjá Önnu vinkonu okkar sænsku, sem vinnur þar. Þar sáum við líka rithöfundinn Ara Behn, tengdason Ólafs Noregskonungs. Hann var að lesa upp úr bók sinni "Talent for lykke" sem er að koma út á íslensku. Eftir allt þetta var okkur svo boðið til kvöldverðar hjá þeim Guðmundi Franz og Ingileifu í Vogunum og var það ljómandi endir á þessum góða degi.
15. apríl 2012
Í dag fórum við í fermingarveislu Ívars Jarls Bergs, sem haldin var í safnaðarheimili Neskirkju.
Þetta var hin flottasta veisla. Á myndinni er fermingardrengurinn ásamt foreldrum sínum og bræðrum.
Eftir veisluna fórum við í heimsókn til Sigurjóns Antonssonar og Lilju konu hans. Sigrún og Sigurjón eru systkinabörn.
14. apríl 2012
Að loknum hátíðarkvöldverði á Heiðarbraut 1a í Keflavík.
Við áttum frábæran dag á Reykjanesinu í dag. Það var bjart og gott veður og sólin skein glatt seinnipartinn og í kvöld. Við fórum og skoðuðum Sandgerði og Garðinn, áður en við fórum í heimsókn til Jónasar Ragnars, bróður Sigrúnar og Guðrúnar Kolbrúnar konu hans. Þar dvöldum við svo fram á kvöld í góðu yfirlæti.
13. apríl 2012
Eftir að við Gestur höfðum verið að moka skít undan grindum í dag, skellti ég mér í bað og svo lögðum við Sigrún af stað í ferðalag rétt um kl. 17. Á áfangastað, sem var Hótel Best í Vogum á Vatnsleysuströnd, var svo komið rétt um kl. 23:30. Þetta var því nokkuð langur og strangur dagur og gott að getað hallað sér á koddann á þessum ágæta stað, sem Guðmundur Franz frændi Sigrúnar á og rekur með sinni ekta kvinnu henni Ingileif.
12. apríl 2012
Fjallskilanefndin auk sveitarstjóra kom saman til fundar hér í kvöld. Aðalefni fundarins var að ganga frá drögum að samþykkt um búfjárhald og lausagöngu þess í Hörgársveit. Þau verða nú send til frekari umfjöllunar hjá sveitarstjórn.
Þá var ákveðið að fyrstu göngur geti hafist í Hörgársveit föstudaginn 7. og laugardaginn 8. sept. í Arnarnesdeild og Auðbrekkufjalli. Víðast annars staðar verða þær frá miðvikudeginum 12. til sunnudagsins 16. sept.
11. apríl 2012
Í kvöld var aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, haldinn í Búðarnesi. Á fundinn mættu 9 félagar auk Sigurðar Þórs ráðunautar. Þetta var nú bara hefðbundinn aðalfundur, með skýrslu formanns, gjaldkeri lagði fram ársreikning félagsins og svo var kosið það sem þurfti að kjósa á þessu ári.
Sigurður Þór lagði fram niðurstöður úr skýrsluhaldi félagsmanna fyrir síðasta ár og sjálfur var ég með samantekt fyrir sæðingahrúta, hvernig þeir hafa komið út sem ærfeður. Þar mátti sjá ansi mismunandi útkomu hrúta.
Almennar umræður urðu um ýmislegt varandi sauðfjárræktina.
Á fundinum var að vanda veittur farandbikar félagsins og ágrafinn peningur til eignar, fyrir hæst stigaða lambhrútinn í félaginu á næstliðnu hausti.
Það erum við Sigrún sem eigum hann og heitir hann Freyr 11-215.
Í lok fundar buðu svo þau Doris og Gunnar upp á höfðinglegar veitingar.
8. apríl 2012
Gleðilega páskahátíð og minnumst upprisu Krists með gleði. Lífið sigraði dauðann og vonin sigraði vantrúna og óttann.
Hér er páskalambið komið á hátíðarborðið. Úrvals E læri, sem er nánast jafn þykkt og það er langt, enda afrakstur margra áratuga heimaræktunar hér á Staðarbakka.
7. apríl 2012
Í dag fórum við Sigrún í flotta fermingarveislu, sem haldin var í Hlíðarbæ.
Frændi minn Davíð Heiðmann Aðalsteinsson var fermdur í Bakkakirkju klukkan 11 í morgun og svo var hann og foreldrar hans með fjölmenna fermingarveislu í Hlíðarbæ klukkan 14.
Við óskum þér frændi gæfu Guðs á lífsins leið.
6. apríl 2012
Eins og venja hefur verið síðan séra Solveig Lára varð prestur á Möðruvöllum, voru Passíusálmarnir lesnir upp í Möðruvallakirkju í dag, föstudaginn langa. Það er Leikfélag Hörgdæla sem annast undirbúning lestursins og útvegar upplesarana og flytur hver þeirra 2 eða 3 sálma. Í dag voru það 22 sem önnuðust lesturinn. Séra Sólveig Lára hóf lesturinn klukkan 13 og sára Gylfi lauk honum þegar klukkan var farin að halla í sex.
Ég hef tekið þátt í að lesa Passíusálmana í allmörg ár, tók þó frí í fyrra. Oftast hef ég lesið 45. og 46. sálm. Mér finnst þetta alltaf góð stund í húsi Guðs, njóta friðarins og hlusta á aðra lesa. Ég hef þó aldrei setið allan lesturinn, enda búandkarl, sem þarf að sinna sinni ferfættu hjörð. En við Sigrún höfum oftast hlustað á 10 til 15 sálma og stundum hefur hún lesið líka, þótt hún gerði það ekki í dag.