27. mars 2012
Í dag fór ég á fundi hjá SAH Afurða og Sölufélagi Austur Húnvetninga svf. sem haldnir voru á veitingastaðnum Pottinum og pönnunni, (Eyvindarstofu) á Blönduósi.
Byrjað var á stjórnarfundi kl. 10 og svo hófst aðalfundurinn kl. 12 með léttum hádegisverði og að honum loknum var gengið til hefðbundinnar dagskrár.
Rekstur SAH Afurða var viðunandi á árinu 2011 og skilaði tæpum 12 milljónum í hagnað, þrátt fyrir miklar hækkanir á gjaldaliðum t.d. á flutningi og að losna við úrgang frá sláturhúsinu.
Breytingar varð á stjórnum félaganna. Sigurður Árnason á Grund hefur setið í stjórn SAH samvinnufélags í 9 ár samfellt og var því ekki kjörgengur til endurkjörs að þessu sinni samkvæmt samþykktum þess. Hann hefur einnig setið í stjórn SAH Afurða frá upphafi og hvarf nú einnig úr þeirri stjórn. Sigurði voru þökkuð góð störf fyrir bæði félögin. Í stað Sigurðar var kjörinn í stjórn samvinnufélagsins Ægir Sigurgeirsson í Stekkjardal. Í stjórn SAH Afurða voru kjörin í stað Sigurðar og Birgis Ingþórssonar: Anna Margrét Jónsdóttir á Sölvabakka og ég Guðm.Skúl.
Á myndinni er Björn formaður að setja fund.
Við Sigrún og Gestur fórum svo í kvöld á aðalfund Ferðfélagsins Hörgs, sem haldinn var á Möðruvöllum 3. Á fundinn voru mættir 8 félagar.
Þetta var nú um flest ósköp venjulegur aðalfundur hjá félaginu. Rætt var um starfssemina frá síðasta aðalfundi og um starfið framundan, auk þess að gjaldkeri kynnti ársreikning fálagsins fyrir árið 2011, sem var svo samþykktur.
Það sem hins vegar var óvenjulegt var að Bjarni á Möðruvöllum, sem verið hefur formaður félagsins frá stofnun þess 1981 gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Við Bjarni erum búnir að vera saman í þessari stjórn öll þessi ár utan eitt. Ég vil hér nota tækifærið til að þakka Bjarna fyrir allar þær ánægjustundir sem við höfum átt saman í þessu félagsstarfi. Það er nú svo að öll þessi ár er Bjarni búinn að vera sannkallaður lífsneisti Hörgs og kyndilberi líka og vonandi verður hann það áfram þótt hann stígi nú út á hliðarlínuna.
Meðfylgjandi mynd af Bjarna var tekin á Jónsmessuhátíð í Baugaseli, 23. júní 2009.
Arnar Pálsson var kjörinn nýr formaður Hörgs og óska ég honum velfarnaðar í því starfi.
Í lok fundarins var ég með myndasýningu af heimaslóðum.
25. mars 2012
Í dag var hér fósturtalið í ám og gemlingum. Að venju var það Gunnar bóndi í Sandfellshaga, sem taldi með sínu sónartæki og líkt og oft hefur verið var Alex með honum til aðstoðar. Þetta er í sjöunda skiptið sem Gunnar telur hjá okkur.
Að vanda var byrjað að telja í Flögu-ánum rétt um kl. 8:30 í morgun og svo var talið hér heima og var allt búið laust fyrir kl. 12.
Í heildina var talið í rúmum 600. Útkoman var bara nokkuð ásættanleg.
Hjá ánum reyndist vera 1,95 lömb að meðaltali í hverri á, en 2,00 ef geldar ær eru ekki taldar með. Þetta er heldur betri útkoma úr fósturtalningunni en verið hefur þessi sex undangengnu ár. Útkoma lemdu gemlinganna var var einnig með besta móti, en það voru of margir geldir. Það töldust að meðaltali 0,92 lömb í hverjum gemlingi, en 1,38 í þeim sem reyndust með lambi. Það er raunar alltaf ögn um að gemlingar séu algeldir hér á bæ og er ástæða þess ókunn.
Það var vel liðað við verkið, enda nauðsynlegt þannig að þetta geti gengið hratt og vel fyrir sig því Gunnar hefur mikið að gera við talninguna vítt og breitt um norður- og austurland. Það voru 16 sem settust við hádegisverðarborðið að aflokinni fósturtalningunni.
Að venju fórum við Gestur í Ytri-Bægisá að hjálpa þeim Stefáni Lárusi og Elísabetu við talninguna hjá þeim, en Stefán var að hjálpa okkur í morgun. Útkoman úr talningunni hjá þeim var ljómandi góð.
22. mars 2012
Kæra systir og mágkona við sendum þér innilegar hamingjuóskir með daginn um leið og við þökkum þér af alhug öll hin liðnu ár. Megir þú njóta gæfu á komandi árum.
Við látum svo sjá okkur fljótlega.
SÁF og GTS
19. mars 2012
Í kvöld kom stjórn Ferðafélagsins Hörgs, saman til stjórnarfundar á hér á Staðarbakka. Aðalefni fundarins var að ræða um hvenær aðalfundur félagsins verði haldinn og undirbúa hann.
Ákveðið var að halda fundinn þriðjudaginn 27. mars nk. að Möðruvöllum 3 kl. 20:30. Auk venjulegra aðalfundarstarfa, verð ég með myndasýningu af heimaslóðum.
Ég hjálpaði Bjarna að setja inn í sína tölvu forit, þannig að hann geti farið að setja inn á heimasíðu Hörgs gamlar myndir frá viðburðum á vegum félagsins, sem hann á í sínum fórum eða fær hjá öðrum.
Ef fólk á myndir sem tengjast Hörg á einhvern hátt, endilega hafið þá samband annað hvort við Bjarna eða mig, þannig að við getum komið þeim inn á heimasíðu félagsins.
15. mars 2012
Þá er snoðrúningurinn búinn þennan veturinn. Gestur byrjaði aðeins í fyrra dag og kláraði í dag með því að fletta af rúmum 100. Það er mjög gott að vera búinn að þessu fyrir fósturtalninguna, sem að líkindum verður um aðra helgi.
Ekki annað að sjá en kallinn sé bara kampakátur við ullarpokann og með bókhaldið í höndunum, þótt það sé bölvað puð að draga ærnar að rúningsmanninum og leggja þær. Alltaf feginn, þegar þetta er búið.
11. mars 2012
Í gærkveldi fórum við á leiksýningu í Hofi á Akureyri, þrátt fyrir að það væri það mikið hávaðarok hér að ég komst ekki inn í bílinn nema hlémegin og það var farþegahurðin, þannig að ég þurfti að skríða þaðan og undir stýrið. En það var þíðviðri og vegurinn alauður þannig að það var nú ekki eins hættulegt að vera á ferðinni. En í dag er búin að vera bálhvöss suðvestan átt og vaxandi éljagangur, þannig að síðdegis má heita að sé glórulaus stórhríð.
Aftur að leiksýningunni sem var ,,Nei réðherra" í uppfærslu Leikfélags Reykjavíkur og leikhússtjórinn sjálfur Magnús Geir leikstýrði. Að mínu mati voru það miklir meinbugir við þessa uppfærslu að það er lærðum leikurum í atvinnuleikhúsi til skammar. Það sem var í lagi var sviðsmyndin og búningar, en þá er það góða upptalið. Það er með öllu óásættanlegt að texta verksins (þótt ómerkilegur sé) sé svo illa skilað af leikhópnum að verulegur hluti hans nær ekki til leikhúsgesta. Þetta skrifast að verulegum hluta á vinnu leikstjórans. Svona vinnubrögð væru ekki einu sinni boðleg hjá áhugaleikhóp út á landi. Þá var hamagangurinn á sviðinu á stundum yfirdrifinn og langt útyfir það sem verkið gefur tilefni til og sömu brellurnar notaðar hvað eftir annað. Eitt enn sem ég skildi illa, það var að hafðar eru drapperingar á veggjum salarins, sem gerði það að verkum að textaframburður leikaranna skilaði sér enn ver, allavega upp á svalir.
Mætti ég biðja um eitthvað sem betur er gert og vandað til af öðru höfuðatvinnuleikhúsi landsins.
9. mars 2012
Það er nú ekki hægt að hrópa húrra fyrir veðrinu hérna þessa dagana, stöðugur suðvestan sperringur með koldimmum éljum. Þetta er allavega mikil viðbrigði frá því að koma úr sólinni og blíðunni, sem við vorum í fyrir austan. Til marks um þetta veðurfar þá fór Gestur á aðalfund FSE, sem haldinn var í Búgarði kvöldið sem við komum að austan. Þegar hann var svo að koma til baka af fundinum eftir miðnættið, var svo kolvitlaust veður að hann sá ekki til að keyra hérna síðasta spölinn þannig að hann varð að skilja bílinn eftir og ganga síðasta spottann.
Vonandi fer nú að ganga úr þessu leiðinda veðri. Þá verður léttara yfir manni til að ganga til þeirra verka sem framundan eru, eins og snoðrúningur og fósturtalning.
6. mars 2012
Allt tekur jú enda og í dag er víst kominn tími á heimferð til að sinna sínum hefðbundnu bústörfum, þótt þau hafi nú þessa daga verið í öruggum höndum Gests, sem er búinn að vera bústjóri í fjarveru okkar. Þetta er nú búið að vara lengsta frí sem við Sigrún höfum tekið í okkar búskapartíð, eða í tæp 20 ár.
Það var enn sama blíðan á Héraði, þegar við kvöddum Hjalta þar um hádegisbilið, eftir þessa frábæru daga hjá honum.
Ástarþakkir Hjalti minn fyrir okkur.
Við komum svo aðeins við á Egilsstöðum hjá Kristbjörgu og Halldóri til að kveðja þau. Þá var þar stödd Kristín vinkona Sigrúnar frá því að hún átti heima á Egilsstöðum, við fengum því aðeins að sjá hana líka.
Svo var lagt íann....
...og það var alls konar færð og veður á leiðinni. Allt frá auðum vegi í að vera krap og hálka, sól og bjart þegar við fórum frá Egilsstöðum og svo skiptist á skafrenningur, hríð, slydda og rigning.
En heim komumst við eftir þetta frábæra frí, þótt eins og sjá má sé komið talsvert föl og það var raunar mokhríð, þegar við komum heim klukkan að ganga 8 í kvöld. Það varður bara að taka því þótt það séu óneitanlega talsverð viðbrigði miðað við snjóleysið og sólina fyrir austan.
5. mars 2012
Það var enn einn dýrðardagurinn hjá okkur á Héraði í dag. Hjalti tók sér frí í vinnunni og sýndi okkur allt þar sem hann er að vinna allt frá skógarhöggi að timburvinnslu. Við gátum líka heilsað upp á vinnufélaga hans og spjallað við þau. Við tókum margar myndir, maðal annars af Hjalta með vinnufélögum sínum og hér á myndinni eru þeir félagarnir Bjarki og Hjalti.
Hér má sjá myndir frá daginum og svo koma fleiri síðar.
4. mars 2012
Í dag fórum við í skoðunarferð inn Fljótsdal og alveg inn á fremstu bæi bæði í Suður- og Norðurdal. Þetta var alveg ljómandi ferð í sól og blíðu og eins og sjá má alveg snjólausu nema gráma í hæstu fjöllum.
Myndin er tekin í Suðurdal. Fjallið fjær á myndinni er ofan við Valþjófsstað með sínum sérkennilega Tröllkonustíg.
Hér má sjá myndir teknar í dag.
3. mars 2012
Við tókum lífinu frekar rólega í dag, keyrðum þó út í Egilsstaði í heimsókn til Guðrúnar ömmu Hjalta. Hún var búin að dekka fyrir okkur og við drukkum hjá henni ljómandi síðdegiskaffi.
Þegar við komum hingað í Mörk aftur var eldað ljuffengt lambalæri,sem við komum með að heiman og snæddur miðnæturverður.
2. mars 2012
Við áttum mjög góðan dag. Halldór og Kristbjörg buðu okkur í bíltúr á Borgarfjörð. Það var snjólaust þar á láglendi eins og annars staðar hér á austurlandi. Á bakaleiðinni komum við svo við í sumarbústaðnum þeirra á Gagnstöð og drukkum þar síðdegiskaffið. Við Komum einnig við í Laufási og hittum móður Kristbjargar, sem er orðin 95 ára og býr enn í sínu húsi. Einnig hittum við Guðmund bónda í Laufási, sem er bróðir Kristbjargar og býr þar blönduðu búi með kýr og kindur, ásamt sinni konu.
Þegar við komum svo aftur heim í kvöld buðu þau hjón upp á veislukvöldverð, lambalæri og meðlæti. Við enduðum svo daginn eftir að hafa kvatt okkar ágætu vini í Bláskógum, með því að keyra inn í Hallormsstað til Hjalta og hreiðra þar um okkur til nætursetu.
Indæll dagur semsagt að kvöldi kominn.
Hér má sjá fleiri myndir frá deginum.
1. mars 2012
Það stendur til að leggja land undir dekk í dag..........
Síðar.
Komin austur á land, ferðin gekk ágætlega og erum í góðu yfirlæti hjá Halldóri og Kristbjörgu í Bláskógum 19.
Hér eru myndir af ferðalaginu.