Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir febr. 2012

    29. febr. 2012 Hlaupársdagur

Rúlluflutningur  Þá er hann upprunninn þessi dagur, sem maður upplifir ekki nema fjórða hvert ár. Hann er nú ósköp líkur öðrum dögum á þessum árstíma að öðru leyti en því að ekki er kominn 1. mars eins og væri í flestum árum. Eitt er þó að með þessari tilhögun þarf maður að standa skil á virðisaukaskattinum einum degi seinna en þau ár sem ekki er hlaupár. Dregur nú kannski ekki langt sá fresturinn.
  Ég byrjaði í gær að taka rúllur úr útistæðu og setja inn í syðri-hlöðuna.  Hingað til hefur bara verið gefið af því sem sett var inn í sumar og er raunar eftir talsvert af því enn.
  Eitt er búið að vara dálítið sérstætt við þennan febrúar mánuð sem nú er að enda, það er það að ekki hefur sólin enn látið sjá sig hér á þessu ári. Hún á að lyfta sér yfir fjöllin þann 6. febrúar, en það hefur aldrei verið svo bjart að hún næði að skína hingað heim. Sólin hefur því ekki sést hér á Staðarbakka síðan í byrjun nóvember á síðasta ári. TAKK FYRIR! 

Sólin komin
  Það er nú svo að það sem virðist vera sannleikur rétt fyrir hádagi getur orðið að helberum ósannindum rétt eftir hádegið. Það var él og dimmt, þegar ég setti inn færsluna hér að ofan. En svo birti skyndilega til og sólin hóf sig yfir Háfjallið laust upp úr kl. tvö við mynni Grjótárdals og skein af heiðum himni þar til hún stakk sér bak við Flöguselshnjúkinn. 
  Framtíðin er jú alltaf dulin jafn vel þótt manni finnist það næsta svo nærri að maður sjái hlutina fyrir nokkurn veginn óyggjandi. Hulunni verður víst aldrei svipt af fyrr en framtíðin breytist í nútíð. Það er nú svo. 
  


    23. febr. 2012

Ívar Franz  Þessi ungi maður á afmæli í dag og er orðinn 7 ára. Myndin var tekin þagar hann var í heimsókn hjá ömmu og afa sumarið 2009. Þá gat nú oft verið álitamál hvort ætti heldur að vera með afa í dráttarvélinni eða leika sér í fótbolta, því drengurinn er mjög liðtækur í þeirri íþrótt.
  Amma og afi senda þér innilegar hamingjuóskir með daginn og megi Guð og gæfan vara með þér í Danaveldi Ívar Franz, drengurinn okkar.











Ragna Hugrún  Við sendum líka okkar góðu vinkonu Rögnu Hugrúnu okkar bestu afmæliskveðju og njóttu dagsins í höfuðborginni.

   
 










 



   19. febr. 2012

Tómas Leonard og Baugur litli bróðirVið höfðum lítinn vinnumann um helgina og hér er hann að fást við forystuféð á bænum. Annars er það helst að frétta að það er búið að vera rysjuveður og orðið aðeins hvítleitt yfir að líta aftur.
 

 







  
Mamma Háleit, Öðlingur stóri bróðir og Tómas Leonard

    

 

 

 

 

 

 

 

 

 

15. febr. 2012

Sér að Flögu og áfram niður Hörgárdalinn
  Þótt nú sé Þorri eru búin að vera hlýindi undanfarið þannig að það er nánast orðið alautt á láglendi eins og sjá má á þessari mynd. Það er alltaf gott þegar skammdegisgaddurinn er að baki og þótt örugglega eigi nú eftir að snjóa verður tæpast verulegur gaddur úr þessu og varla þarf að óttast kal í túnum hér í sveit.

        14. febr. 2012 Valentínusardagurinn


                                            Dagur elskenda!

    10. febr. 2012

Halldóra þjónustufulltrúi og ég

  Við fórum til Akureyrar í dag. Meðal þess sem við vorum að gera var að ganga frá flutningi bankaviðskipta okkar. Þau hafa undanfarið verið hjá Byr útibúinu á Akureyri. Byr er reyndar nú ekki til lengur heldur runninn inn í Íslandsbanka. Við höfðum engan áhuga á að vera með viðskipti okkar í útibúi sunnanbanka sem þar að auki er sagður í eigu erlendra vogunarsjóða. Því fluttum við okkur í útibú Sparisjóðs Höfðhverfinga á Akureyri, en höfuðstöðvar hans eru á Grenivík. Þetta útibú opnaði fyrir örfáum vikum við Glerárgötuna á Akureyri og hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur. Nú er bara að vona að þessi bankaumskipti okkar endist betur en þau sem við gerðum þann 7. mars 2007,  þegar við fluttum okkur úr bankaskrímslinu Kaupþingi yfir í Sparisjóð Norðlendinga. ( Pistil um þann flutning má sjá á heimasíðunni 7. mars 2007). Því miður báru forsvarsmenn þess sparisjóðs ekki gæfu til að halda því góða starfi á heimaslóð, heldur sáu einhverja gróðavon í hyllingum með því að ganga inn í Byr, en það fór líkt fyrir Byr og Kaupþingi báðir þessir bankar voru með ónothæfa stjórnendur og fóru því þráðbeint á hausinn. Það er jú gömul og ný saga að það sem ekki er gert með fyrirhyggju fellur. Sandur og græðgi hafa aldrei verið traustar undirstöður.

  Ég vona bara að Sparisjóður Höfðhverfinga beri gæfu til að þjónusta vel einstaklinga og fyrirtæki á heimasvæði og láti ekki skammvin gróðasjónarmið teyma sig út í ógöngur, verði svo er það mín spá að honum muni vel ganga og hvað er mikilvægara banka en ánægðir og öruggir viðskiptavinir.

Tómas með ömmu á Greifanum  Eftir bankatilfærsluna bauð frúin í pitzur á Greifanum í tilefni afmælisins 6.febrúar. 












 



Gervifaðir og Sólveig Elín.













   

 

 

    8. febr. 2012

Tveir Guðmundar, Jenný og Tót  Í blíðviðrinu seinnipartinn í dag brugðum við undir okkur bílnum og brunuðum í Árhvamm að heimsækja Guðmund móðurbróður minn og hans ekta kvinnu Jennýju Júl. Þetta er reyndar búið að standa lengi til og Jenný búin að vera með ,,stóra pottinn" í viðbragðsstöðu. Og það brást svo sannarlega ekki því við fengum sannkallaðan hátíðarkvöldverð hjá henni þar sem lambakjötið var uppistaðan og með því tilheyrandi meðlæti. Við áttum þarna frábært kvöld hjá þessum góðu hjónum, en þegar heim var haldið hafði veðrið heldur betur breyst, komin var mokhríð alveg hreinræktuð ,,kattlappadrífa".


    6. febr. 2012

          emoticon  Hún á afmæli í dag, hún á afmæli í dag!  emoticon  Sigrún Ásthildur Franzdóttir                               

















    5. febr. 2012

emoticon 60.000 gestir! 
Í þá tölu fara gestakomurnar á heimasíðuna okkar í dag. emoticon 
Takk fyrir komurnar. Vonandi hafið þið haft einhverja ánægju af að fylgjast með okkur emoticoní dalnum þrönga undir Dranganum háa.Drangi



    4. febr. 2012

Einhamarsfoss í Hörgá Nú er Þorri hálfur að baki þennan veturinn. Það er nú ekki hægt að segja að hann fari um mann hörðum höndum, blíðuveður var í dag nánast logn og hiti laust yfir frostmarki. Ég tók nokkrar myndir í dag, þegar ég fór í Flögu. Eins og sjá má á þeim er ekki snjór eða svell á túnum nema í lægðum og er því ekki ástæða til að óttast stórfellt kal hér.
Hér má sjá myndirnar.




   

 

    3. febr. 2012

Ullarbílinn  Í morgun kom Rúnar Jóhannsson að sækja ullina og flytja hana í ullarþvottastöðina á Blönduósi. Hann tók líka ullina á öðrum bæjum hér í fram dalnum. Það er ágætt að fara núna, allir vegir hér alauðir.









 

 


    2. febr. 2012

Bergvin og Unnur  Við fórum til Akureyrar í dag að útrétta ýmislegt og ég þurfti til Hauks tannlæknis og svo fórum við líka til að láta mynda okkur fyrir væntanlega Eyfirðingabók. Þegar við vorum svo búin að öllu ákváðum við að koma við á Skútum í Glerárhverfi hjá Unni móðursystur minni og Begga manninum hennar. Þar var að vanda mjög gaman að koma og spjalla við þau. Við borðuðum kvöldmat hjá þeim og svo var gripið í spil og tíminn flaug hjá og áður en maður vissi af var klukkan farin að halla í miðnætti. En áður en við kvöddum þessi yndælu hjón og héldum út í náttmyrkrið til heimferðar, þáðum við miðnæturkaffisopa hjá þeim.


 

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108224
Samtals gestir: 24359
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar