31. jan. 2012
Við erum búin að hafa lítinn vinnumann í nokkra daga, en í kvöld kom mamma hans og sótti hann þannig að nú erum við aftur ein í kotinu.
Tómas hefur nú gaman af að metast á við afa sinn og reyna að stríða honum. Hér er hann að segja "sérðu bara afi ég var á undan þér með grautinn". Þannig er nú það.
En hér eru afi og Tómas að koma frá því að gefa í Flögu og fer bara vel á með þeim köllunum.
26. jan. 2012
Fjallskila og markanefnd Eyþings.
Í dag fór ég á fyrsta fund í fjallskila og markanefnd Eyþings, sem haldinn var í Búgarði á Akureyri. Nefnd þessi er skipuð af Eyþingi samkvæmt 2. grein fjallskilasamþykktar fyrir Eyjafjarðarfjallskilaumdæmi og getur fjallað um allt er varðar fjallskil, mörk og markaskrá fjallskilaumdæmisins. Í nefndinni eiga að sitja markavörður, sem skal einnig vera formaður nefndarinnar auk tveggja fjallskilastjóra af svæðinu. Nefndin er þannig skipuð, Ólafur G Vagnsson markavörður og fjallskilastjórarnir Þórarinn Ingi Pétursson á Grýtubakka og unrirritaður Guðm. Skúlason.
Við vorum nánast eingöngu að fjalla um undirbúning að prentun nýrrar markaskrár, sem gefin skal út á árinu 2012. Vinna við söfnun marka fyrir prentunina er komin vel á veg. Gjald fyrir að fá mark skráð í markaskrána er kr. 2.500.
25. jan. 2012
Pálsmessa
Já, það er Pálsmessa í dag og þjóðtrúin segir að veðurfar þessarar messu hafi spádómsgildi fyrir veður komandi mánuða. Það leit nú ekki vel út með það fyrst í morgun, hríðarmyglingur og dimmt uppyfir, en svo létti skyndilega til og varð bjart og fagurt veður, eins og sjá má á þessari fallegu mynd, sem ég tók rétt fyrir ljósaskiptin í dag.
Ég hef lengi þekkt spádómsvísu þessa dags, reyndar í aðeins mismunandi útgáfu. Ég fór því í dag inn á heimasíðu Heimskringlu og fann þar nokkuð sem heitir Merkidagavísur. Fann ég þar vísuna sem ég kannast við og líka aðra í framhaldi af henni sem ég hef aldrei heyrt áður. Læt ég þessar vísur fylgja hér til gamans, en höfundur þeirra mun vera ókunnur.
,,Þá heiðríkt er og himin klár
á helga Pálumessu.
Mun þá verða mjög gott ár.
Maður, gáðu' að þessu.
En ef þoka á Óðins kvon
allan himininn byrgir,
fjárskaða og fellis von
forsjáll bóndin syrgir."
En svona lærði ég vísuna í æsku:
Ef heiðríkt er og himinn klár,
helgri Páls á messu,
mun þá verða mjög gott ár
maður upp frá þessu.
Ég fór líka með myndavélina með mér í fjárhúsin og þar voru teknar nokkrar myndir.
Erum við Öðlingur minn ekki bara flottir á þessari mynd og jafnvel svolítið líkir? Það var ögn fjallað um Öðling hér á síðunni í fyrra, en hann er gæfur og mjög skemmtilegur veturgamall forystusauður.
Mynd SÁF.
Fleiri myndir má sjá hér.
24. jan. 2012
Það er búið að aula talsvert niður síðustu dagana og í dag var svo austan fræsingur með skafrenningi og éljagangi. Færðin var því ögn tekin að spillast, en ég var svo heppinn að á meðan ég var í Flögu var vegurinn ruddur. Sigrún tók þessa mynd af bílnum sem skóf veginn og mér á dráttarvélinni þegar við mættumst hérna við heimreiðina. Veðrið var svo leiðinlegt þegar ég var að gefa ánum í Flögu að ég lét þær inn og lokaði þær inni. Í kvöld var svo komið bjart og stillt veður þannig að ég fór og opnaði fyrir ánum og voru þær afar fegnar að komast út aftur.
22. jan. 2012
Í gærkveldi var haldið þorrablót Hörgársveitar í Hlíðarbæ. Þetta var fjölmenn samkoma og raunar fjölmennari en samkomuhúsið tekur með þokkalegu móti. Þrátt fyrir það tókst blótið að flestu leiti ágætlega. Það var ágætur matur, sem Lostæti sá um og góð skemmtiatriði meðan á borðhaldinu stóð. En það sem mér þótti miður fara var dansmúsíkin, sem hljómsveitin Hvanndalsbræður sá um. Bæði var lagaval og taktur frekar einhæfur og hávaðinn óheyrilegur. Þetta var ekki bara mitt mat heldur margra fullorðinna, en yngsta kynslóðin virtist kunna þessu nokkuð vel. Á þorrablóti er æskilegra að hafa hljómsveit, sem getur betur þjónað dansþörfum allra aldursskeiða. Maja og Tommi fóru með okkur Sigrúnu á blótið í gærkveldi.
15. jan. 2012
Síðast þegar ég skráði hér inn geysaði hér vestan stórhríð með blind kófi. Nú er allt annað upp á teningnum, stillt og bjart veður og sólin gyllir fjöllin austan Eyjafjarðarins. Enn nær hún ekki að hella geyslum sínum yfir fjöllin há hér ofan í Hörgárdalinn.
Það er búin að vera suðlæg átt í tvo undanfarna daga og hefur tekið ótrúlega mikið upp, þannig að t.d. vegurinn sem var eitt glóandi svell er orðin nánast sagt alauður.
Það eru nú samt varasöm svell hér í kringum hús og við sem höfum því miður engan Borgarstjóra, sem hægt væri að láta sjá um að salta þau og sandbera, svo ég tali nú ekki um sem gæti stjórnað veðurfarinu, þannig að það væri ekki að gera manni lífið leitt í tíma og ótíma t.d. væri ekki að þiðna eftir snjókomu þannig að allt renni í svell. Ljótt að búa ekki við sömu lífsinsgæði og þeir í Syðra.
Hér er hún Brussa mín innikróuð á auðum bletti á bæjarhlaðinu. Ætli hún gelti í útvarpið eins og hinir rakkarnir og heimti hjálp úr sinni ömurlegu lífsþröng? Varla, seiglan er henni eðlislæg þótt hún sé að verða svolítið gamalleg, enda komin á sitt tólfta aldursár.
12. jan. 2012
Við fórum til Akureyrar í dag að útrétta. Komum líka við í Helgamagra og þó tók ég þessa mynd af Tómasi og ömmu þar sem þau voru að knúsast.
10. jan. 2012
Það mátti heita blind stórhríð hér í allan dag. Það var hvöss vestan átt, éljagangur og mikið kóf. Ég fór ekkert í Flögu í dag vegna veðursins. Ég hafði þó engar áhyggjur af ánum, þar sem ég tók mark á veðurspánni í gær og setti allar ærnar inn í gærkveldi og gaf þeim vel og vissi því að þær hefðu það gott. þótt stórhríðin geysaði úti. Stundum gott að hafa fyrirhyggju.
Það var því ágætt að þurfa sem minnst að vera úti í dag og horfa bara á jálakaktusinn í uppfentum stofuglugganum.
2. jan. 2012
Í morgun fór Hjalti austur í Hallormsstað, til að fara að vinna eftir jólafríið sitt við skógarhöggið o.fl.
Hann er búinn að vera hjá okkur síðan á aðfangadag okkur til ómældrar ánægju.
Á myndinni er hann ferðbúinn með fiðluna sína undir hendinni, en hann er búinn að spila mikið fyrir okkur og einnig höfum við spilað saman.
Gaman það!
1. jan. 2012
Við brugðum okkur til Akureyrar eftir gegningarnar. Okkur var boðið í 11 ára afmæli Guðrúnar Margrétar og byrjuðum við á að fara í það. Því miður gleymdist að taka mynd, þannig að hún fær enga mynd af sér hér þetta árið.
Á eftir fórum við í kirkjugarðinn að heimsækja leiði foreldra Sigrúnar. Það er mikill snjór í garðinum þannig að legsteinarnir eru sumir nánast á kafi. Ívar og Sirrý höfðu heimsótt leiðið á jólunum og mokað frá steininum og látið fallega grenigrein við ljósakrossinn.
Daginn enduðum við svo á því að líta í heimsókn í Geislatúnið til þeirra Ívars og Sigríðar. Þar hittum við líka óvænt Báru og Felix, sem voru þar í heimsókn með dætur sínar tvær. Við áttum þarna hina ágætustu kvöldstund, þar sem ýmislegt bar á góma og á myndinni er verið að skoða gamlar myndir.
Árið 2012 birtist okkur með öllu óráðið enn. Fátt annað er vitað um það með vissu, en að það verður einum deginum lengra en síðasta ár. Öll berum við okkar eigin væntingar til þess, en getum sameinast í bæn um að það verði gott og gjöfult veðurfarslega og að við megum sleppa við hörmungar náttúruhamfara. Gangi það eftir verður árið 2012 gott ár, þótt það vissulega muni færa okkur sínar gleði- og sorgarstundir eins og öll önnur ár.
Árið 2011 gengur á braut ,,og aldrei það kemur til baka" eins og segir í áramótasálminum. Það er nú orðið að minningum einum, enda þótt gerðir okkar mannanna á þessu kvadda ári hafi ýmis áhrif á framtíðina, vonandi flestar til góðs.