Innilegar óskir um farsæld á árinu 2012 og þökk fyrir árið 2011
frá okkur á Staðarbakka
Mynd GTS tekin á áramótunum
31. des. 2011
Árið brátt á enda runnið. Gegningar dagsins að baki og heimilisfólkið sest að hátíðarkvöldverði í bestu stofunni.
og hvað svo?
Ég á mér draum. Ætli minn tími komi á nýju ári???
28. des. 2011
Í kvöld kom Guðmundur á Þúfnavöllum í jólaboð. Það var margt sér til gamans gert t.d. spilað á fiðlu og hljómborð og svo var spjallað um alla heima og geima.
Á myndinni erum við karlmennirnir að skála í viskí áður en sest var að veisluborði frúarinnar, þar sem boðið var upp á súkkulaði og jólabakkelsi.
24. des. 2011. Aðfangadagur jóla
,,Hátíð fer að höndum ein"
Við Sigrún og Guðmundur óskum öllum gestum heimasíðunnar okkar, innilegs friðar og gleði á fæðingarhátíð Frelsarans.
Jólagestirnir Hjalti, Sólveig og Tómas Leonard komin í hlað.
Lítill fallegur jóladrengur ótrúlega stilltur og rólegur að bíða eftir að opna pakkana.
23. des. 2011. Þorláksmessa
Það var á Þorláksmessu fyrir margt löngu síðan sem Sigrún fæddi frumburð sinn á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.
Á myndinni situr hún með þennan frumburð sinn; Sólveigu Elínu Þórhallsdóttur, sem í dag fagnar sínum fertugasta afmælisdegi. Af því tilefni hefur hún boðið sínum nánustu vinum og vandamönnum og gleðjast með sér í Helgamagrastrætinu í kvöld.
Hún fær innilegustu heillaóskir frá mömmu og gervi-föður í sveitinni.
Hver veit nema við leggjum á hálkuna í kvöld og lítum á afmælisdömuna, sem er nú allt fært sé eitthvað að marka spakmælið?
22. des. 2011. Vetrarsólstöður
Já, þá er hann upprunninn þessi stysti dagur ársins, þegar ekki verður full bjart í norðlenskum dal. Í gær og í dag var nóg að gera við tilhleypingarnar í Flögu, því öllum ánum þar er haldið á þessum tveimur dögum. Í gær var farið með fullorðna hrúta úteftir og haldið undir þá þeim tæpu 80 ám sem voru orðnar blæsma þá. Restin var svo rekin hingað heim í dag og þeim ám haldið undir lambhrúta. Þessi sérstæða mynd var tekin, þegar verið var að koma með þær hingað heim.
Við fengum ágæta aðstoð við þetta. Í gær komu þeir feðgar Snæbjörn og Kristófer Breki. Anton frændi kom líka og gisti svo í nótt og hjálpaði okkur líka í dag. Það eru þeir Hákon Þór og Anton sem eru á eftir ánum auk mín á dráttarvélinni.
15. des. 2011
Dagrenning á fjöllum (Flögukerlingu)
Það styttist óðum í vetrarsólstöður og þá tekur dag að lengja á ný. Þessa mynd tók ég í morgun. Hún sýnir vel núna um þennan skammdegistíma að í norðlenskum dölum birtir til muna fyrr á fjöllum heldur en niður í djúpum dal.
Það má næstum segja að eitt af verkunum til að undirbúa jólin sé fengitíminn. Þannig voru Bergærnar reknar hér heim í dag til að setja svampa í þær, en það er aðferð til að samstilla beiðsli þeirra.
Hvað er nú þetta, er þetta fjölskylduboð kann einhver að spyrja? Nei, ekki beinlínis hér eru Bergærnar komnar inn í hús hér heima og allir sameinast við að setja svampana í þær og gefa þeim ormalyf.
Þess má geta að nú í nóvember voru 35 ár síðan ég lærði svampaísetningu. Það var þann 13. nóvember 1976, sem haldið var námskeið á Möðruvöllum. Leiðbeinandi var Ólafur Dýrmundsson. Þarna voru samankomnir á þetta námskeið sauðfjársæðingamenn úr Eyjafirði og Suður Þingeyjarsýslu. Í mörg ár þarna á eftir annaðist ég svo svampaísetningu og sæðingar hér í sveit, en hin síðari ár hefur þetta nánast einskorðast við ærnar hér heima. Ég hef nú ekki nákvæma tölu á þeim svömpum sem ég er búinn að setja í, en þeir telja orðið all mörg þúsund. Þetta hefur allt gengið áfallalaust og ekki orðið tjón af. En því miður eru til misvitrir dýralæknar, sem vilja ná þessu starfi af sæðingamönnum til að geta drýgt tekjur sínar með því að fá einkarétt til að setja í svampa. Þess skal þó getið að í þessum hópi dýralækna eru ekki þeir dýralæknar sem ég skipti mest við.
Spyrja má hvort hægt sé með yfirgangi að taka starf af manni, sem hann hefur áratuga reynslu af???
14. des. 2011
Nú stendur örugglega baksturinn til jólanna víðast hvar hvað hæst og hér er engin undantekning frá því.
Hér er sjálfur húsbóndinn að hnoða deigið í Vínartertuna......
...og hér er frúin að breiða út deigið reyndar í það sem ég skírði Fíntertu á mínum sokkabandsárum.
Ég var mjög sólginn í þessa tertu og er raunar enn. Einhverju sinn þegar mamma var að fást við þessa tertu tókst mér að stela sneið af henni og hljóp inn úr eldhúsinu til að gæða mér á henni í friði, svo að mamma uppgötvaði ekki stuldinn. En það tókst ekki betur til en svo að ég rak mig í hillu á hlaupunum áður en mér tókst að fela mig bak við hurð. Af hillunni hrundu þeir munir, sem á henni voru þannig að af varð mikill hávaði og brothljóð. Mamma kom auðvitað hlaupandi og spurði hvað gengi eiginlega á? Þeim stutta varð svo mikið um að hann viðgekkst strax sitt brot og stundi upp ,,ég steldi tertu"
Hér er svo frúin búin að baka Vínartertuna
og verkið langt komið.....
....aðeins húsbóndinn á eftir að leggja lokahönd á verkið með því að smyrja rabarbarasultunni á.
Þetta verður örugglega gómsætt um jólin.
12. des. 2011
Þá er fyrsti jólasveinninn kominn til byggða og að vanda var það hann Stekkjastaur, sem skálmaði ofan úr fjöllunum. Ekki tókst að ná mynd af honum að þessu sinni, meðfylgjandi mynd er frá því í fyrra þegar Tómas Leonrd tók á móti sveinka. Það er nú ekkert líklegra en Staðarbakki sé með fyrstu bæum, sem hann heimsækir staðsettur hér inn í miðjum Tröllaskaganum.
Fyrir jólin 2007 náðist ágætis myndasyrpa, þegar sveinki kom þrammandi framan af fjöllum og litaðist hér um.
Myndirnar má sjá hér
Talandi um jólasveina þá er blessuð frúin búin að hekla þessa flottu sveina, ásamt með öðrum jólaundirbúningi.