30. nóv. 2011
Þann 18. nóvember sl. mátti lesa eftirfarandi frétt á heimasíðu Hörgársveitar:
"Í dag hófust jarðhitarannsóknir í Hörgárdal og Öxnadal á vegum Hörgársveitar og Norðurorku hf. með stuðningi Orkusjóðs. Fræðileg umsjón með verkefninu er í höndum Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR). Áætlað er að bora 15-20 svonefndar hitastigulsholur víðs vegar um svæðið. Markmiðið með þeim er að leita að hitastigulshámarki, sem síðar væri hægt að skoða nánar með það í huga að staðsetja djúpa holu."
Í morgun komu svo bormennirnir hingað með græjur sína og byrjuðu að bora hérna út á Heymelnum. Þegar er búið að bora nokkrar holur í Hörgárdal.
Það má svo kannski segja að ekki sé vanþörf á að bora eftir jarðhita núna, þar sem það var grimmdarfrost í dag, fór niður í 13°.
Þá eru síðustu ærnar komnar á gjöf þennan veturinn. Það gerðist í dag, þegar Flöguærnar fengu tugguna sína. Þær voru harla ánægðar með það.
29. nóv. 2011
Það er nú að verða aðeins vetrarlegt um að litast. Það snjóaði talsvert í logni í gærmorgun, en síðan er búið að vera nokkuð bjart og renningsskrið annað slagið. Að venju sleppur hér til með vonskuveður, þegar áttin er nokkurn vegin af hánorðri. Hér varð því engin stórhríð eins og víða varð á norðurlandi í nótt sem leið og í dag. Vel sloppið það.
Gestur kláraði að rýja hér í dag, eyddi reyndar afmælisdeginum sínum í gær í rúning. Ekki er annað að sjá en hann beri aldurinn vel. Færist bara heldur í aukana svipti af þeim 150 núna, sem síðast var tekið inn, en var búinn með hitt áður.
Hér má svo sjá þær þessi krútt. Sumar í fullum klæðum en aðrar eftir að Gestur var búinn að ullarfella þær.
Ullina þarf svo að meta í ákveðna ullarflokka, setja hana í poka vigta og merkja pokana eiganda og skrá á þá þunga og mat.
Hér er Sigurður að setja ull í poka sem metin hefur verið í H 1, sem er besti flokkurinn fyrir ull af fullorðnu fé.
Þegar búið var að ganga frá allri ullinni í kvöld, sem tekin hefur verið af nú í vetrar byrjun + sumarull af Flögu- og Bergánum, sem liggja við opið yfir veturinn, voru komnir 43 pokar sem í voru 1240 kg.
Að venju máttu mæðginin Brussa og Tryggur ekki missa af neinu og fylgdust því með öllu í dag.
26. nóv. 2011
Í gær rákum við inn í Flögu þær rúmlega 350 ær, sem eru búnar að vera þar síðan 7. október. Þær reyndust flestar í mjög góðu standi, enda tíðin búin að vera hagstæð lengst af, einkum þó í nóvember og núna er aðeins föl á jörð, eiginlega bara rúmlega grátt. Við sortéruðum ærnar, tókum 135 til vetursetu í Flögu, en hinar voru svo reknar hingað heim í morgun og ærnar, sem eiga að vera á Berginu í vetur teknar úr og reknar þangað 70 stykki. Þær sem eiga að vera hér heima í vetur voru svo flestar reknar suður í Sel og er meiningin að taka þær inn og rýja þær eftir helgina. Það er þegar búið að taka inn tvo yngstu árgangana, hrúta og þó nokkrar eldri ær og rýja það allt saman.
23. nóv. 2011
Fjallskilanefndin kom saman til fundar hér í kvöld, ásamt Guðmundi Sigvaldasyni sveitarstjóra.
Við vorum að fara yfir fjallskil nýliðins hausts, sem okkur þótti hafa gengið víðast hvar nokkuð snurðulaust fyrir sig.
Nokkuð var einnig rætt um framtíðina t.d. um að það þurfi að setja nýjar reglur í sveitarfélaginu um lausagöngu búfjár. Einnig ræddum við talsvert um framtíðar samskipti við Akrahrepp er fjallskil varðar.
15. nóv. 2011
Náttúran er margbreytileg þannig að það getur verið gaman að bera saman útlit hennar á sama árstíma en með mjög ólíkri ásýnd.
Hér er mynd sem tekin var sídegis í gær eða 14. nóvember 2011.....
.....og hér er mynd sem tekin var 14. nóvember 2010.
Hér eru svo tvær myndir úr nær umhverfinu:
Þessi stjúpa var nánast eins og í fullum blóma í nóvemberblíðunni í dag, enda 10 til 12 stiga hiti og logn.
En það fer lítið fyrir blómunum hér, en þessi mynd var tekin í blómagarðinum 14. nóv. 2010. Eins og sjá má er snjórinn svo mikill að það vantar ekki mikið á að grindverkið í kringum garðinn sé komið í kaf.
Talsvert mikill munur á ásýndinni, ekki satt?
Óskum Arnari Heimi tengdasyni innilega til hamingju með afmælið í gær með ósk um gæfuríka framtíð i Slagelse Danmörku.
12. nóv. 2011
Í kvöld var afmæliskvöldvaka Hörgs haldin á Melum. Fréttir og myndir frá henni má sjá inn á heimasíðu Hörgs. Tengill inn á fréttina þar er hér.
11. nóv. 2011
Ég vil minna á afmæliskvöldvöku Ferðafélagsins Hörgs, sem verður haldin á Melum annað kvöld klukkan 20:30.
Þar verður ýmislegt til gamans gert, svo sem: Myndasýningar, tónlist, upplestur og gamanmál, auk veglegs afmæliskaffis.
Allir velunnarar Ferðafélagsins Hörgs eru hjartanlega velkomnir.
Það er mikil veðurblíða þessa dagana hlýindi upp á hvern dag og oftast kyrrviðri, þannig að það er hrein unun að vera úti í náttúrunni. Það er ekki laust við að manni finnist þetta vera nánast eini kafli ársins, sem er samfelt góðviðri nokkra daga í senn. Síðan í sumarbyrjun eru búnar að vara ríkjandi norðan og austan áttir, sem ekki eru líklegar til að gefa mikla veðursæld hér.
En nú andar suðrið sæla vindum þýðum.
Lambhrútunum finnst gott að fá að fara út á daginn til að njóta blíðunnar og kroppa grænu grösin í sig sem eftir eru frá sumrinu og Tryggur fylgist með þeim. Það er reyndar magnað hvað getur verið gaman að fylgjast með lömbum á haustin, hvað þau eru fljót að læra og vanaföst. Það eru um 3 vikur síðan ég fór að hýsa lambhrútana og gefa þeim, en hef alltaf látið þá út á daginn. Núna er þetta orðið þannig að ég gef þeim á garðann á morgnana og opna fyrir þeim, þannig að þeir fara sjálfir út þegar þeir eru búnir að éta. Svo á kvöldin þegar fer að skyggja fara þeir oftast sjálfir inn þannig að ég þarf bara að loka og gefa þeim kvöldgjöfina. Segja ekki sumir að sauðkindin sé skyniskroppin dýrategund? Bendir þetta til þess?
9. nóv. 2011
Það er nóg um afmælin núna. Þessi gella hér er í dag hálfnuð með þann áfanga sem Magga náði í gær. Myndina erum við nýbúin að fá frá Slagelse og er ekki annað að sjá en daman beri aldurinn vel.
Við sendum henni okkar innilegustu kveðjur í ríki Þórhildar Margrétar.
8. nóv. 2011
Í dag var Magga mágkona að fylla sjöunda tug sinnar ævi og áttu þau hjónakornin ágætan dag. Fóru þau á æskuslóðir hennar austur á Langanes og heimsóttu þar frændfólk og vini.
Myndin er sú sama og ég setti hér inn þegar Sigurður átti afmæli í september sl.
6. nóv. 2011
Þá er nú kominn sá árstími, þegar eldhúsið breytist í kjötvinnslu í um 2 - 4 daga skeið. Við tökum alltaf heim 3 eða 4 hrútsskrokka á hverju hausti, oftast af eins og tveggja vetra hrútum. Þeir eru svo að mestu úrbeinaðir í bjúgu og hakk, nema lærin eru reykt. Margir halda að hrútakjöt sé óætur matur, en sannleikurinn er sá að þetta er úrvalsmatur, alla vega kvartar enginn undan honum hér, hvorki heimafólk eður gestir.
Hér erum við Gestur svo farnir að hakka það sem á að fara í bjúgun.
Það mætti halda að blessuð frúin hafi ekki lagt hönd að verki, þar sem ekki eru myndir af henni við kjötvinnsluna. Það var nú aldeilis ekki svo, hún sá um þessa myndatöku og hefur bara gleymt að taka sjálfsmynd.....
...svo fékk hún líka kærkominn gest smástund í dag, þegar vinkona hennar Sigrún í Nípukoti kom í snögga heimsókn.
Tómas Leonard kom líka í dag og ætlar að vera hjá ömmu og afa í fáeina daga. Þá er ýmislegt sér til gamans gert og á myndinni eru þeir Tómas og afi að reyna að hræða hvorn annan.
4. nóv. 2011
Það er margt sem getur á bjátað, þegar maður býr í rúmlega sjötíu ára gömlu húsi. Þannig var það nú fyrir nokkrum dögum að einn ofninn í því fór að leka. Ég pantaði mér því ofn hjá Ofnasmiðjunni í Reykjavík og var hann sendur nánast með hraði til Akureyrar. Sigurður bróðir og Gestur hjálpuðu mér svo í dag að setja hann upp.
Hér má svo sjá þann gamla kominn á sjötugsaldurinn, harla ánægðan með uppsettan ofninn. BRAVÓ!!!
1. nóv. 2011
Hér á myndinni er hún Háleit mín, með synina sína tvo, sem hún eignaðist í vor sem leið.
Háleit er forystu ær, fædd árið 2001 og er því orðin 10 vetra og ber aldurinn bara nokkuð vel. Hún er undan sæðingahrútnum Biskup 96-822 og Ræsu 98-870, sem var undan forystuánni Háleit F 91-618, sem ég keypti af þeim Birni og Hjördísi í Flögu, þegar þau hættu búskap þar.
Ég er búinn að fara með Háleit tvo undanfarna vetur undir forystuhrútinn Grím 08-515, sem Guðmundur á Þúfnavöllum á frá Grími í Klifshaga. Í bæði skiptin hefur hún átt tvo hrúta. Í fyrra var það Öðlingur minn, algjört dekurdýr og gersemi og bróðir hans sem fór á sláturhús. Núna eru það hins vegar þessir tveir, sem eru álitlegir dekrarar. Baug ætla ég að eiga sjálfur, en Flekk gaf ég Guðmundi á Þúfnavöllum, eða öllu heldur lét hann hafa hann upp í tollinn þessi tvö ár. Þeir bræður á Þúfnavöllum Guðmundur og Unnar komu í gærkveldi að sækja hann.