Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir sept. 2011 30. sept. 2011 ![]() Það reyndust þó nokkrir líklegir kynbótagripir í þessum hópi. Meðalheildareinkunn allra hrútanna var rétt um 84 stig, sem verður nú að teljast ágætt. Þrír þeir hæst dæmdu fengu 86,5 stig og átti ég þá alla. Því miður vannst ekki tími til að mynda þá til að setja myndir að þeim hér inn, en það verður vonandi bætt úr því síðar. Eins og vera ber var verslað með hrúta, Stefán Lárus keypti tvo af mér og ég fékk tvo hjá honum í staðinn. 28. sept. 2011 ![]() 27. sept. 2011 ![]() ![]() Til að bæta fyrir hina myndina úr blómagarðinum set ég hér inn fallega haustlitamynd frá öðru sjónarhorni. 26. sept. 2011 ![]() 25. sept. 2011 ![]() Á myndinni er Sólveig Elín að koma galvösk úr göngunum í dag en Króna fylgist með og sjá má á henni að hún hefur mátt ösla einhverja drullukeldu í göngunum. 21. sept. 2011 ![]() Útkoman var bara nokkuð góð. Þunginn var einhver sá mesti sem hér hefur verið, eða 17,36 kg. og þess má geta að það fór um ¾ af þeim lömbum sem slátrað verður í haust. Holdfyllingarflokkunin var nokkru lakari en 2010 eða 10,26, sem er svipað og árin 2008 og 2009. Fituflokkunartalan fer hins vegar alltaf heldur niður á við og var nú 7,56. Í heildina er ég bara mjög sáttur við útkomuna einkum þegar haft er í huga hvað vorið var erfitt, en það hefur svo komið til góða á móti að það var að gróa til fjalla alveg fram að göngum. Til gamans má svo geta þess að þegar verið var að setja sláturlömbin á fjárbílinn í gær, spurði Birgir Ingþórsson bílstjóri mig að því hvað meðalvigtin yrði hjá okkur í þessarri slátrun núna og ég svaraði að bragði, "hún verður 17,35 kg.". Verst að ég skyldi ekki geta haft þetta alveg rétt! 19. sept. 2011 ![]() Á myndinni má sjá bakhlutann á Jóni "bónda" og Guðmund í Garðshorni, Þórarin á Frostastöðum, Þorstein á Þverá, Aðalstein á Auðnum réttarstjóra og Stefán Lárus á Ytri-Bægisá 2 að vippa sér yfir réttarvegginn. 18. sept. 2011 ![]() 17. sept. 2011 ![]() 16. sept. 2011 ![]() Hér má sjá fleiri myndir frá deginum. 15. sept. 2011 ![]() Í dag var svo gengið hér að vestanverðu og Flögudalurinn. Það var hlýrra og þungbúnara en í gær og mátti finna einn og einn rigningardropa. Smölunin gekk þokkalega líkt og í gær og var safnið komið í réttarhólfið laust fyrir klukkan 7 í kvöld. Það hefur verið vel mannað báða dagana. Þar sem uppistaðan er þrautvanir göngugarpar og harðjaxlar, með nokkrum nýliðum inn á milli. Og svo erum það við þessir eldri í hópnum, sem höfum jú reynsluna, en það er farið að draga nokkuð af okkur í eltingaleik við ljónstyggar fjallafálur. Þá er ótalin sú nýbreytni sem reynd var í dag, þegar tveir garpar á torfæruhjólum sáu að mestu um að smala Ásgerðarstaðaheiðina. Þeim gekk það ljómandi vel og þetta létti líka mikið á efstu mönnum sem koma fótgangandi, bæði framan Hörgárdal og Flögudal. Það er svo að sjá að dilkar komi ljómandi fallegir af fjalli þetta haustið. Hér má sjá myndir frá göngunum í gær. 13. sept. 2011 ![]() Það er búið að vera í mörgu að snúast núna síðustu dagana fyrir göngur að venju. Það þarf að gera við girðingar og réttir auk annars sem þarf að vera tilbúið fyrir fjárrag komandi daga. Eins og sjá má er ekki alltaf auðvelt að gera við girðingarnar, sem eru nánast í kafi í grasi þannig að það sést rétt ofan á girðingarstaurana. Eru annars ekki alltaf einhverjir að væla um að sauðkindin sé að éta upp landið? Bendir grasið á myndinni til þess??? 11. sept. 2011 ![]() 9. sept. 2011 ![]() Í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu tengdamömmu minnar Guðlaugar Jóhönnu Sigurjónsdóttur. Guðlaugu kynntist ég ekki fyrr en hún var komin yfir áttrætt, en finnst samt að ég hafi þekkt hana alla ævi, enda mætti margur þótt af færri æviárum státi vera sæll með það andlega og líkamlega atgervi sem hún hafði allt fram á tíræðisaldur. Það var alltaf jafn yndælt að koma til Guðlaugar í Ránargötuna oft var hún búin að gera pönnukökur og "dekka" þegar við Sigrún komum til hennar eftir bæjarstúss, áður en við lögðum í hann í sveitina. Ég minnist þess líka þegar ég sótti hana til að koma í sveitina, alltaf var hún tilbúin þegar ég kom að sækja hana, upp á búin sem hefðarkona, alsæl með að heimsækja dótturina fram í Hörgárdalinn. Síðustu árin hennar Guðlaugar heima í Ránargötunni vorum við hjá henni á aðfangadagskvöld, bæði henni og okkur til ánægju. Eitt sinn bar þó aðeins út af, sem henni þótti við okkur um stund. Þannig var að við höfðum eitthvað orðið sein til við seinni gegningarnar og var klukkan orðin rétt rúmlega 6 þegar við komum í Ránargötuna. Þá sagði Guðlaug um leið og hún opnaði fyrir okkur "því komið þið svona seint það er orðið heilagt". Það var ekki nema eðlilegt að jafn trúaðri konu eins og Guðlaug var mislíkaði þetta við okkur að trufla helgidóminn, þegar jólin ganga í garð. Það sá ekki á Guðlaugu að lífið var henni ekki alltaf dans á rósum. Móður sína missti hún í frumbernsku, þá varð hún fyrir þeirri sáru reynslu að fæða andvana dóttur, manninn sinn hann Franz, sem hún unni mikið missti hún aðeins 46 ára gömul og sum systkini hennar létust langt um aldur fram. Allan þennan harm bar hún í hljóði og flíkaði ekki sínum sáru tilfinningum framan í heiminn. Það var ekki hennar stíll. Líklega var samt það áfall, sem Guðlaug átti verst með að sætta sig við, var þegar sjónin sveik hana nánast alveg undir það síðasta og hún þurfti af þeim sökum að yfirgega húsið sitt í Ránargötunni, sem hún bað Guð að blessa í hvert skipti sem hún yfirgaf það hvort heldur sem var um lengri eð skemmri tíma og eyða síðkvöldi ævinnar á dvalarheimili aldraðra. Það átti hún mjög erfitt að sætta sig við. Myndin hér að ofan var tekin af Guðlaugu við jarðarför Antons bróður hennar 2003, en hann náði háum aldri eins og hún. Er ekki erfitt að sjá, að þetta sé 92 ára gömul kona á myndinni? Ég trúi að Guðlaug tengdamamma mín dvelji nú sæl og sátt í heimkynnum Guðs og Jesúss, sem hún setti allt sitt traust á, þegar gatan var grýtt á hennar jarðnesku braut. Blessuð sé minning þín tengdamamma mín. ![]() Börn Guðlaugar: Jónas, Sigrún og Ívar við leiði foreldra sinna í dag. ![]() Hér hafa tengdabörnin og fleira skyldulið bæst í hópinn t.f.v. Sigríður kona Ívars, Guðrún kona Jónasar, Ívar, Sigrún, hjónin Þórhildur og Guðjón, sem er systursonur Guðlaugar, Jónas og undirritaður og fyrir framan er langömmustrákurinn hann Tómas Leonard og ömmustelpan hún Slóveig Elín. ![]() Við amma og afi á Staðarbakka sendum þér Gauti okkar innilega afmæliskveðju til Slagelse í ríki Margrétar Þórhildar og biðjum Guð að gæta þín. Myndin var tekin í júní 2007, á henni má sjá Gauta í sínum uppáhalds leik, þegar hann kom í heimsókn til afa og ömmu í sveitina. Þá var gjarnan sagt við fyrsta tækifæri "afi eigum við að koma í skrímsla leik. 8. sept. 2011 ![]() Já, það er greinilega komið haust þannig að Drangi gamli var orðinn grár, sem virðulegur öldungur í morgun. Það var hálfgert illviðri í gær og snjóaði meira þar sem há norðanátt nær sér á strik, en hér var þokkalegasta veður, smá rigningarhraglandi en nánast logn. 6. sept. 2011 ![]() Við tókum svo rúllurnar í morgun og bættum þeim við eina af stæðum sumarsins og gengum frá henni með viðeigandi yfirbreiðslu til að verjast hrafninum. 4. sept. 2011 ![]() Hér má sjá örfáar myndir úr afmæli Tómasar. ![]() Á myndinni er fjölskyldan í Furulundinum. Það má svo bæta við þeirri hugleiðingu hvort börn í dag tapa ekki öllum tengslum við sinn afmælisdag, þar sem sjaldnast er haldið upp á afmæli þeirra á réttum degi? 3. sept. 2011 ![]() Við fórum í Möðruvallakirkju kl.13 í dag til að vera við skírn Patreks Páls. Hann fæddist þann 11. ágúst sl. og er fyrsta barn foreldra sinna: Katrínar Árnadóttur og Péturs Birgissonar. Með fæðingu sinni færði Patrekur Páll mér nýja virðulega nafnbót, það er að segja að nú get ég með sanni og sóma titlað mig sem langömmubróður. Það er ekki alveg laust við að mér finnist ég vera orðinn aðeins ráðsettari eftir en áður. Eftir athöfnina í kirkjunni var svo boðið til flottrar skírnarveislu heima hjá nýbökuðum afa og ömmu í Möðrusíðu. Fallegur og hátíðlegur dagur, þrátt fyrir að úti væri súld og rigning. Við Sigrún óskum Patreki Páli innilega Guðs blessunar á lífsins leið. Nokkrar myndir frá deginum má sjá hér. ![]() Það er alltaf gaman að sjá hvað kirkjugarðurinn er einstaklega vel hirtur, forsvarsmenn og starfsfólk eiga þakkir skildar fyrir það. 1. sept. 2011 ![]() Í dag var stjórnarfundur hjá SAH. Við vorum að ræða breyttar forsendur er varða afurðaverð til bænda, sem við ákváðum á stjórnarfundi þann 11. ágúst sl. Í gær og fyrradag hækkuðu bæði KS og SS sín afurðaverð til bænda frá áður út gefinni verðskrá. Í samræmi við stefnu SAH Afurða um að vera samkeppnishæft við aðra sláturleyfishafa er varðar afurðaverð til bænda, ákváðum við á fundinum í dag að hækka verð SAH Afurða til samræmis við hina sláturleyfishafana. Nýja verðskrá SAH Afurða má sjá hér. Flettingar í dag: 10 Gestir í dag: 3 Flettingar í gær: 56 Gestir í gær: 9 Samtals flettingar: 128560 Samtals gestir: 27678 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 06:12:58 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is