Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir ágúst 2011


    29. ágúst 2011, Höfuðdagur

  Áfram þokast háarheyskapurinn og er nú að verða búinn. Í dag var rúllað það sem eftir var í Flögu. Átti reyndar að rúlla það í gær, en þá fór að rigna fyrir hádegi og voru stöðugar skúraleiðingar fram á kvöld. Það er búin að vera leiðinda heyskapartíð undan farið, köld og fremur úrkomusöm norðan og norðaustan átt, þannig að það hefur mátt þakka fyrir ef maður hefur náð hánni hrárri en án rigningarvatns. Nú hefur hinsvegar snúist til suðvestan áttar og var bara nokkuð hlýtt í dag og úrkomu laust.




    23. ágúst 2011

  Í dag byrjuðum við að rúlla há út og upp á Öldu, en það var varla hálfnað þegar fór að hellirigna þannig að það varð að hætta rúllun þennan daginn. Það er mjög stirð heyskapartíð þessa dagana.  











   22. ágúst 2011

Hjalti Þórhallsson  Hjalti kom í heimsókn í gær og fór svo aftur í kvöld. Hann hjálpaði mér mikið í tölvumálunum, en þau eru búin að vera í basli síðan tölvan hrundi um daginn og ég þurfti að fá mér nýja borðtölvu. Hjalti er alvag snillingur að fást við tölvuvandamál og honum tókst að koma í lag því sem við vorum að fást við, þannig að vonandi er þessu tölvubasli lokið alla vega í bili.

















    13. ágúst 2011

Unnar Sturluson  Í dag var okkur boðið í fermingarveislu Unnars Sturlusonar á Þúfnavöllum. Hann var fermdur í Bægisákirkju eftir hádegið í dag og var hann eina fermingarbarnið í þessu gamla og fallega guðshúsi. Að athöfninni í kirkjunni lokinni var svo rausnarleg veisla heima á Þúfnavöllum, eins og þær eru ætíð þar. Því miður gleymdist myndavélin heima þannig að ég á enga mynd frá deginum, en til að bæta aðeins úr því óláni skannaði ég hér inn mynd af boðskortinu. Á því er Unnar lítill stúfur, en það hefur nú heldur betur tognað úr pilti, þannig að hann gnæfði yfir prestinn í kirkjunni í dag. 





 


    12. ágúst 2011

Katrín Valdís Arnarsdóttir
  Innilega til hamingju með daginn Kartín okkar. Vonandi áttu góðan afmælisdag með fjölskyldunni í Slagelse. Þessi fallega mynd af þér var tekin þegar þú varst hjá okkur um jólin sl.
Amma og afi í sveitinni senda þér sínar ástarkveðjur yfir hafið með tækni nútímans. 








Gríma og fjallskilanefnd að störfum  Fjallskilanefndarfundur var hér í kvöld. Þar vorum við að leggja á fjallskil haustsins auk annars sem fjallskilanefnd þarf að ákvarða fyrir annir haustsins.
  En stærsta ákvörðunin sem við tókum í kvöld var sú að breyta tímasetningu gangnanna frá því sem við ákváðum á fundi nefndarinnar þann 22. júní sl. Um það var gerð eftirfarandi bókun: 

" Að höfðu samráði við fjallskilastjóra nágrannasveitarfélaga ákveður fjallskilanefnd að fresta göngum í Glæsibæjar-, Öxnadals- og Skriðudeil niður að Syðri-Tunguá um viku frá fyrri ákvörðun nefndarinnar, sem tekin var á fundi þann 22. júní sl. 1. göngur verða því þar frá miðvikudeginum 14. september til sunnudagsins 18. september og seinni göngur viku síðar. Þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess að heyskapur er mun seinni en verið hefur undanfarin ár og einnig verða yfirborganir sláturleyfishafa þær sömu í vikum 37 og 38, en gert var ráð fyrir verulegum mun milli þessara vikna í fyrri ákvörðun nefndarinnar. Í Arnarnesdeild og Skriðudeild fram að Syðri-Tunguá gildir ákvörðun nefndarinnar frá 22. júní sl. að því undanskildu að seinni göngur  á Tungudölum fylgja fremri svæðunum, þar verður því hálfur mánuður milli gangna."

    11. ágúst 2011

Home
  Í dag fór ég vestur á Blönduós á sameiginlegan stjórnarfund hjá SAH Afurðum ehf. og SAH svf. Við vorum meðal annars að ganga frá þeim verðum sem bændum verða greidd á komandi hausti fyrir innlagðar sauðfjárafurðir.
Niðurstöðuna má sjá hér.
  Hér heima var verið í háarheyskap og er nú búið að rúlla af röskum 10 ha. og er sprettan alveg þokkaleg allavega tímdum við ekki öðru, en nota þennan úrvalsþurrk sem er nú þessa dagana, en gerum nú væntanleg eitthvert hlé á háarslætti. 


    8. ágúst 2011

Kvöldskuggar  Þá er fyrri slátturinn allur kominn í plast. Raunar er nú ögn síðan búð var að rúlla af þeim túnum sem við sláum árlega, en sökum þess að uppskeran er í rýrara lagi gripum við til vara túnanna út í Flögu-hólfum, sem vanalega eru nú bara nýtt til beitar vor og haust.
  Eins og sjá má á myndinni skartaði náttúran sínu fegursta í dag og ekki hvað síst þegar kvöldskuggarnir færðust yfir dalinn.





    5. ágúst 2011

  Í kvöld kom Hjalti í stutta heimsókn og ætlar bara að gista eina nótt að þessu sinni. Guðmundur á Þúfnavöllum kom líka í heimsókn í kvöld þannig að þeir vinirnir Hjalti og hann hittust aðeins.
  Á myndinni má sjá þegar við Hjalti vorum að skemmta Guðmundi með hljóðfæraleik. Það var líka margt skrafað og skeggrætt eins og gengur.







    1. ágúst 2011

Ása, Guðrún, Ragnheiður, Gísli og Garðar  Í dag voru hér keflvískir gestir á ferð. Þetta voru þau Gísli og Ragnheiður með börnin sín þrjú: Garðar Franz, Ásu og Guðrúnu. Þau eru á ferð á norðurlandinu og með aðsetur á Hjalteyri. Gísli er bróður sonur Sigrúnar og var því að koma í frænku heimsókn. 









Tómas Leonard  Tómas Leonard kom líka í heimsókn í dag ásamt mömmu sinni og ætla þau að gista allavega eina nótt í sveitinni.













Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar