Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir júní 201125. júní 2011 ![]() Myndin er frá rúningnum í dag. Næst á myndinni eru þær frænkur Margrét og Guðrún Margrét að rýja og svo er það Sarah að rýja móru (sú kanadíska sem kom í gær) og stúlkan í gula stakknum fyrir utan réttina kom við hjá okkur eftir að hún hafði klyfið Dranga alein í dag. Hún hvaðst ver pólsk og vera í heimsókn á Íslandi núna. Okkur leist nú ekki meira en svo á þegar hún lagði í hann á Dranga í morgun, þoka niður í miðjar hlíðar og hún allsendis ókunnug hér. En hún hafði það af og gekk bara vel, það létti nú líka til þegar á daginn leið og hreinsaði þokuna alveg upp á topp. 24. júní 2011 Fyrir um það bil mánuði var haft samband við Sigrúnu frá svo kölluðu Snorraverkefni til að vita hvort hún væri til í að taka á móti frænku sinni frá Kanada. Við tókum vel í það og í dag sóttum við hana á Akureyrarflugvöll. Hún heitir Sarah Painter og er 27 ára hjúkrunarfræðingur búsett í Winnipeg. Hún er mjög hress og glöð og líst vel á sig á Íslandi. ![]() ![]() Ég læt hér fylgja með hluta af því sem okkur var sent um Snorraverkefnið. Að taka á móti þátttakanda í Snorraverkefninu
Almennt um verkefnið: Á hverju sumri tekur Snorraverkefnið á móti 12-16 strákum og stelpum af íslenskum ættum frá Kanada og Bandaríkjunum. Verkefnið er samstarfsverkefni Norræna félagsins á Íslandi og Þjóðræknisfélags Íslendinga. Dvöl þeirra er 6 vikur í hvert sinn og skiptist í þrjá hluta: Tveggja vikna tungumála- og menningardagskrá í Reykjavík, þriggja vikna dvöl hjá fjölskyldu og starfsþjálfun á því svæði sem farið er til og að lokum vikuferð um landið
Snorraverkefnið hefur verið árvisst verkefni í boði fyrir ungt fólk af íslenskum ættum frá Kanada og Bandaríkjunum frá sumrinu 1999. Verkefnið er hvatning til ungra Vestur-Íslendinga um að varðveita og rækta íslenskan menningar- og þjóðararf sinn í fjölþjóðlegu samfélagi Kanada og Bandaríkja Norður-Ameríku, efla samskiptin við Ísland og Íslendinga og styrkja tengslin við önnur íslensk samfélög utan Íslands.
Nú í júní kemur hingað til lands þrettándi hópurinn en þá munu alls 182 einstaklingar hafa tekið þátt frá upphafi. Allir þátttakendur í Snorraverkefninu hingað til hafa lýst yfir ánægju sinni með verkefnið. Samkvæmt könnun sem gerð var á meðal þátttakenda í október síðastliðnum töldu 98% sig hafa fengið meira út úr dvölinni en þeir hefðu fengið með því að koma sem venjulegir ferðamenn og eru 98% enn í sambandi við íslenska ættingja sína og vini.
Fósturfjölskyldur af öllum gerðum: Þótt þátttakendur hverju sinni séu afar mismunandi einstaklingar, eiga þeir það allir sameiginlegt að hafa einlægan áhuga á Íslandi og að vilja kynnast íslenskri menningu, tungumáli og fjölskyldulífi. Ekki er nauðsynlegt að vera kjarnafjölskylda, heimavinnandi, í stóru húsi, enskumælandi eða með heitan mat í öll mál. Með því að taka á móti þátttakanda lítum við svo á að fjölskyldan gerist einnig fullur þátttakandi í verkefninu. Verkefnið hefur hvatt alla þátttakendur til að taka þátt í venjulegum heimilisstörfum.
Fjölskyldu- og vinnutímabil: Hver og einn þátttakandi fer til sinnar fjölskyldu eftir að fyrstu tveimur vikunum er lokið, eða á föstudegi. Lögð er áhersla á að dvalið sé hjá ættingjum ef þess er kostur og hefur það tekist í um 95% tilfella. Starfsþjálfun hefst svo næsta mánudag á eftir. Hún gefur tækifæri á að kynnast íslensku samfélagi og daglegu lífi Íslendinga enn betur. Þátttakendur þiggja ekki laun, en fá vasapeninga frá verkefninu. Að öðru leyti ber þátttakendum skylda til að mæta til vinnu eins og aðrir sem á vinnustaðnum eru, hringja ef forföll verða og leggja eins mikið af mörkum og mögulegt er. Þó ætti þátttakandinn ekki að taka vinnu frá öðrum. Verkefnið óskar eftir styrk frá þeim atvinnurekanda sem tekur á móti þátttakanda og eru þau framlög frádráttarbær frá skatti sem styrkur til menningarmála. Fjölskyldan er beðin um að aðstoða sínu ungmenni að komast til vinnu fyrsta daginn og gefa aðrar leiðbeiningar ef við á. Ef þátttakandinn er í starfsþjálfun á bóndabæ eða í fyrirtæki á vegum fjölskyldunnar er miðað við að unnið sé að hámarki 40 stundir á viku (í dagvinnu) og að frídagarnir séu tveir. Ekki er heldur gert ráð fyrir að þátttakandinn sé í fríi í slíkum aðstæðum, heldur sé hann að leggja eitthvað að mörkum. Öll vafaatriði og/eða breytingar skulu bornar undir verkefnisstjóra.
23. júní 2011 ![]() Ég hef farið í Baugasel á allar þessar Jónsmessuhátíðir fram að þessu og þá jafnan nokkru áður en samkoman hefur átt að byrja til að líta eftir að allt væri þar í lagi og til draga fána að hún. Þess má og geta að ég mun vera sá eini, sem hef mætt í Baugasel í öll skiptin fram að þessu. En í kvöld fór ég ekki, er búinn að vera eitthvað slappur undanfarið, trúlega afleiðingar af erfiðu vori, þannig að ég ákvað að best væri að sitja heima að þessu sinni. Hörg óska ég innilega til hamingju með afmælið og vona að þeir sem leggja leið sína í Baugasel í kvöld, eigi þar ánægjulega stund eins og jafnan áður. 22. júní 2011 ![]() " Ákveðið var að höfðu samráði við fjallskilastjóra nágrannasveitarfélaga að 1. göngur í Hörgársveit verða frá miðvikudeginum 7. september til sunnudagsins 11. september og að seinni göngur verði viku síðar." 15. júní 2011 ![]() Þann 18. maí í fyrra setti ég inn smá klausu um Berghúsin og Kinnina, sem ég ætla ekki að endurtaka, en hana ná sjá hér 13. júní 2011 ![]() Er þá lokið sauðburðinum að þessu sinni. Þetta er búið að vera mjög erfið törn, enda hefur nú staðið yfir eitthvert lengsta kuldakast, sem staðið hefur á sauðburði og sér ekki fyrir endann á því enn. Það voru góðir nokkrir dagar fyrst í maí, en síðan er búin að vera nánast stöðug norðan og norðaustan átt. Oft á tíðum nístingsköld og nokkuð úrkomusöm og hefur í þó nokkur skipti gránað hér, en þó aldrei sett niður snjó að ráði. Það er ljóst að þetta vor er búið að ganga nærri okkur sauðfjárbændum, einkum á norðaustanverðu landinu og vafasamt að við bíðum þess bætur, allavega við sem erum komnir af léttasta skeiði. Ýmsir hafa þó látið það frá sér fara í fjölmiðlum, að bændur séu undir svona tíðarfar búnir og kunni að takast á við það og það án teljandi afleiðinga. Þar tala þeir, sem hvorki hafa vit né kunnáttu. Sannleikurinn er sá að gríðarlegt álag, bæði líkamlegt og andlegt, án nokkurrar hvíldar í margar vikur mun skilja eftir sig afleiðingar, sem mörgum bændum mun reynast erfitt að vinna sig út úr. Við allt þetta bætist svo verulegt fjárhagslegt tjón. ![]() Það sem vekur nokkra athygli er að þrátt fyrir þennan stöðuga kulda, þá er orðið nokkuð vel gróið. Þar mun einkum vera tvennt sem veldur: Annað er það að mjög lítill klaki var í jörðu eftir veturinn, en hitt eru hlýju dagarnir fyrst í maí, sem gerði það að verkum að gróður fór af stað og þá potast hann áfram þrátt fyrir kuldann. 11. júní 2011 ![]() ![]() ![]() Háleit er 10 vetra og undan henni komu tveir forystuhrútar í vor, undan Grím á Þúfnavöllum, þeir eru því albræður Öðlings. Lipurtá er veturgömul forystuær frá Sandfellshaga. Restina rekur Harða, hún er ekki af forystukyni, er bara dekurrófa. Það er vonandi að þau hafi það gott í frelsi fjallasalarins í sumar og gleymi því ekki að þau eru dekurdýrin mín. ![]() Bjartviðrið notuðu piltar af höfuðborgarsvæðinu til að klýfa Dranga. Fyrst komu tveir og nokkru síðar þrír þannig að þetta voru tveir leiðangrar, sem báðir komust á toppinn í dag. Þeir sögðu þær fréttir, þegar niður kom að kassinn sem er upp á Dranga og geymir gestabók fyrir þá sem upp fara, hafi fokið opinn og gestabókin því farin út í veður og vind. Skaði það því þar hafa glatast heimildir um þá sem hafa á Dranga farið á undanförnum árum. 7. júní 2011 ![]() Áfram reynir maður nú samt að þoka vorverkunum, sem snúast nú ennþá nánast eingöngu um að koma fénu sem minnst sködduðu af vorhretum fram á græn grös. Við rákum lambær í Nýjabæ og á myndinni eru þær mágkonur Ásgerður og Sigrún kampakátar eftir velheppnaðan rekstur þangað. ![]() 6. júní 2011 ![]() Ég held nú bara að við hljótum að hafa færst verulega nær norðurpólnum. Hvernig gæti þetta annars gerst? Komið langleiðina fram að sumarsólstöðum. ![]() 5. júní 2011 ![]() Eins og sjá má á myndinni eru smá kalskellur eftir veturinn, hvergi þó til verulegs tjóns. 4. júní 2011 ![]() Hér er Gestur að færa inn í fjárbókina sína. 3. júní 2011 ![]() Þau eru veturgömul og eru hreinræktaðar forystukindur, mjög mannelsk einkum Öðlingur og elska að láta klóra sér og kjassa, einnig finnst þeim ekki amalegt að fá kjarnfóðurköggla úr lófa eigandans. Það léttir lundina að líta upp frá sauðburðaramstrinu og dekra við þessa ferfættu vini. ![]() 2. júní 2011 ![]() Við fengum aukalið í dag: Anton, Sólveigu og Tómas Leonard. Það var því gripið tækifærið og Flögu-ærnar reknar norður í hólfin fyrir norðan Leyninginn og lokaðar þar. Síðan var farið með tvo vagna af lambám út á Flögutún til að létta á hér heima. Enn eru allmargar lambær inni, enda hefur veðrið ekki boðið upp á að setja út nýlega bornar ær. Flettingar í dag: 10 Gestir í dag: 3 Flettingar í gær: 56 Gestir í gær: 9 Samtals flettingar: 128560 Samtals gestir: 27678 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 06:12:58 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is