Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir maí 2011 29. maí 2011 ![]() ![]() Okkar ágæti vinur Doddi frá Þríhyrningi, tók sér viku frí frá sinni vinnu til að hjálpa okkur við sauðburðinn. Það er búið að vera alveg ómetanlegt að hafa hann, sem kann allt er varðar vinnuna við sauðburðinn frá eigin búskap og svo er hann búinn að hjálpa okkur undanfarin vor og þekkir orðið inn á verkferlið hér. Doddi fór í kvöld og er þá skarð fyrir skyldi. Innilegar þakkir Doddi fyrir alla hjálpina. ![]() Seinnihluta vikunnar hefur Lena verið að hjálpa okkur við sauðburðinn, en í kvöld lagði hún á stað til síns heima í Þýskalandi. Takk fyrir komuna og hjálpina Lena. 25. maí 2011 ![]() Á þessari mynd má sjá smá öskudreif á sköflum í Háafjallinu rétt norðan við Dranga, ættaða úr gosinu í Grímsvötnum. Hún féll hér í fyrri nótt og mátti sjá örlítið stuf á hvítum disk, sem frúin hafði sett út. 20. maí 2011 ![]() ![]() Skildu þessi blóm, sem voru komin svo vel á veg inn í vorið, lifa af þetta veðurfar , sem minnir nú meira á Þorrann, en að kominn sé lokadagur Hörpu? 18. maí 2011 ![]() Brói var hjá okkur í 3 daga og Sólveig og Tómas komu um síðustu helgi. Annars höfum við hjónakornin og Gestur séð um þetta. ![]() Það er verst að þessu árans vorhreti er spáð í viku enn, þá fer nú að kárna gamanið. 6. maí 2011 ![]() Vinir kveðja einn og einn og hinn veraldlegi líkami fær sinn stað í Garðinum, en sá andlegi svífur á æðri tilverustig. Þannig var það í sólinni og blíðviðrinu í dag, þegar hin aldna kempa Nikólína Sigríður Þorkelsdóttir, var kvödd í Akureyrarkirkju. Lína eins og hún var jafnan kölluð var Blöndhlíðungur að uppruna, en bjó alla sína búskapartíð á Akureyri með manni sínum Rögnvaldi Árnasyni, sem lést á síðasta ári. Þau eignuðust 5 börn. Lína var ein af þessum alþýðukonum, sem kallast mega Miklar húsmæður og það með stórum staf. Allt frá hinum hversdagslegustu störfum, sem fæstir taka eftir en eru þó svo mikilvæg, sem og að snara upp hinum veglegustu veislum og stunda hannyrðir bæði til að klæða fjölskylduna og fegra heimilið. Lína átti svo hlýtt handtak og svo hlýtt bros, sem báru augljósan vott um umhyggju hennar fyrir velferð samferðafólksins. Guð blessi Línu á nýju tilverustigi. 4. maí 2011 ![]() Það eru nokkuð góð veður þessa dagana, þannig að það er kærkomið að viðra ærnar eftir innistöðu vetrarins, enda njóta þær þess svo sannarlega. ![]() Geldféð var rekið í Sel í kvöld. Það verður svo farið með heyrúllur til að gefa, því ekki er kominn nægur gróður, aðeins er nú samt farið að sjást litur í túnum. 2. maí 2011 ![]() Þá eru fyrstu lömbin komin hjá okkur. Það var hún Dorrit, sem bar tveimur lömbum undir kvöld og auðvitað kann hún sig og kom með lambakóng og lambadrottningu. Faðirinn er Kóngur, Púkason, frá Stefáni Lárusi á Ytri Bægisá. Eins og sjá má er þetta flott fjölskylda, vantar reyndar pabbann á myndina. ![]() Við fórum að útför Hallgríms Halldórssonar frá Melum í Svarfaðardal, sem gerð var frá Glerárkirkju í dag. Hallgrímur var ekki þeirrar gerðar að trana sér fram, eður að honum finndist eftirsóknarvert að vera í sviðsljósi hinnar jarðnesku tilveru. Hallgrímur hafði þó margt til brunns að bera: Hann var sjálflærður á hljóðfæri og þar var harmónikan hans eftirlæti og átti með henni margar gleðistundir. Einnig kenndi hann sjáfum sér ensku, þar mun hafa hvatt hann áfram ólýsanleg aðdáun á Bítlunum, þannig að hann varð að geta skilið textana þeirra. Fáir munu hafa verið betur að sér um Bítlana, en Hallgrímur frá Melum. Þegar foreldrar Hallgríms hættu búskap á Melum flutti hann með þeim til Dalvíkur og svo síðar til Akureyrar þar sem hann hefur verið búsettur um mörg undanfarin ár. Blessuð sé minningin um góðan dreng. 1. maí 2011 Þá er baráttudagur verkalýðsins að kveldi kominn og var hann veður góður allavega hér í sveit, suðlæg átt og sól annað slagið og hiti 12 til 15 gráður. Það fór reyndar að rigna talsvert undir kvöld og lækkaði þá hitinn aðeins. ![]() Takk fyrir komuna öll sömul. Nokkrar myndir má nálgast hér Flettingar í dag: 10 Gestir í dag: 3 Flettingar í gær: 56 Gestir í gær: 9 Samtals flettingar: 128560 Samtals gestir: 27678 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 06:12:58 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is