Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir febr. 2011

    23. febr. 2011

Ívar Franz  Í dag á hann Ívar Franz afmæli og er orðinn 6 ára gamall.
Amma og afi senda honum innilegar afmæliskveðjur yfir Atlandsála, alla leið til Danaveldis.
Myndin var tekin um jólin þegar Ívar Franz var í heimsókn á Íslandi hjá ömmu og afa. Þá var nú Veiðimaður spilaður af miklu kappi og eins og sjá má var athyglin alveg ósvikin og spilað stíft til vinnings. 

 








    20. febr. 2011 Konudagur

Gullinn roði yfir fjöllum fram Hörgárdals
  Í tilefni dagsins bauð ég konunni blessaðri í bíltúr að afloknum verkunum í dag og það gaf á að líta þegar horft var fram Hörgárdalinn frá Melum. Ekki var annað að sjá en sjálfur Skaparinn væri að lýsa yfir sérstakri velþóknun með konur dalsins og hylla þær með þessari gullnu slæðu, sem hann breiddi yfir fram Hörgárdalinn. Annars bauð ég frúnni á Bláu könnuna í kaffi og tertur og á eftir litum við inn hjá mæðginunum í Helgamagra.
  Það er ekki annað hægt að segja en að Góa byrji vel að þessu sinni og Þorri, sem kvaddi í gær er búinn að vera snjóléttur og fremur veðra góður, einkum síðari hluti hans. 

    19. febr. 2011

Skógarhöggsmennirnir Hjalti og Jón Þ Tryggvason 





















  Hjalti er alltaf að vinna við skógræktina á Hallormsstað og er vinnan á þessum árstíma mikið fólgin í grisjun.
  Hér má sjá frétt frá þeirri vinnu.  
 
   14. febr. 2011


Blóm elskenda  Það er víst dagur elskenda í dag. Af því tilefni set ég hér inn mynd af blómunum, sem konan fékk í afmælisgjöf fyrir nokkrum dögum.
  Ekki fékk hún nú nein blóm frá mér í morgun, enda enginn blómasali á næsta leiti, því verð ég bara að láta koss duga í þetta skiptið, enda hlýtur hann að vera ólíkt meira virði en blóm sem fölna og falla áður en maður veit af.








Vetrarroði   Það er stórfenglegt hvað veröldin getur breytt um svip og það á undra skömmum tíma. Í tilefni dagsins set ég hér inn mynd sem ég tók hér fram dalinn, þegar við vorum að koma inn frá gegningum fyrir örfáum dögum. 
  Myndin hér fyrir neðan, sem tekin var fyrir viku frá nánast sama sjónarhorni sýnir allt aðra mynd af sköpunarverkinu.



 




Stjórn Hörgs Guðm. Bjarni og Gestur  Í kvöld fórum við Sigrún niður í Möðruvelli til Bjarna og Pálínu.
  þar var stjórnarfundur í Ferðafélaginu Hörg. Við vorum að ræða um að gera eitthvað í tilefni þess að Hörgur verður 30 ára þann 23. júní í sumar.
Til greina kemur að halda kvöldvöku nú á útmánuðum og svo að hafa Jónsmessuhátíðina eitthvað veglegri en venjulega. En þetta á eftir að móta betur. Þá kom til tals að gera nokkurt átak varðandi Baugasel í sumar. Félaginu hefur boðist aðstoð frá  sjálfboðasamtökunum Seeds, sem Anna Lúðvíksdóttir er í forsvari fyrir hér á landi, að sjálfboðaliðar komi um vikutíma til vinnu í Baugaseli.


 
    7. febr. 2011

Grjótárhnjúkur og Lúpárhnjúkar  Það var bjart og fagurt að horfa til fjallanna í morgun, þegar sólin byrjaði að sleikja hæstu toppa þeirra....







 






Sólin gægist yfir botni Grjótárdals...en svo var það ekki fyrr en um kl. 15:40 sem sólin náði að skína hér heim að bæ í fyrsta skipti á þessu herrans ári og raunar hefur hana ekki séð hér síðan í byrjun nóvember. 
  Ekki náði hún nú að lyfta sér öll yfir Urðirnar fyrir botni Grjótárdals og sólargangur þennan fyrsta sólskinsdag ársins var nú vart nema 3 til 4 mínútur.
  En þetta þokast þó hægt fari, ekki nema um það bil eitt hænuskref á dag að því að sagt er.
 

 




    6. febr. 2011

Sigurður, Margrét, Sólveig, Tómas og Ásgerður  Í dag á hún Sigrún mín afmæli og eins og sjá má dubbaði hún upp afmæliskaffi, þótt við værum á Þorrablóti langt fram á nótt. 
  Það er sko dugur í "kellu" ennþá.






 

 


 


    5. febr. 2011

Þorramatur  Í kvöld var fyrsta Þorrablót Hörgársveitar haldið í Hlíðarbæ. Þorrablót hafa að sjálfsögðu verið haldin um árabil í hreppum þeim sem sameinaðir voru á síðast liðnu vori í sveitarfélagið Hörgársveit. Eins og vænta mátti þegar sveitarfélagið hefur stækkað svo, var þetta fjölmennasta Þorrablót, sem haldið hefur verið hér um sveitir. Það munu hafa verið um 260 manns á blótinu. 
  Við Sigrún drifum okkur og buðum Maju og Tomma með okkur. 
  Blótið tókst ágætlega. Það var mjög góður matur sem Lostæti sá um. Óskar Pétursson stórsöngvari fór á kostum sem blótstjóri og þorrablótsnefndin var með heimagerð skemmtiatriði, að lokum var svo stiginn dans fram á rauðanótt undir hljóðfæraslætti og söng Sérsveitarinnar. Ekki var annað að sjá en allir skemmtu sér vel saman, hvaðan sem þeir voru komnir úr hinu nýja sveitarfélagi. 



    3. febr. 2011

  Í dag fór ég að útför Friðfinns Friðfinnssonar frá Baugaseli, sem fram fór í Akureyrarkirkju.
  Friðfinnur var fæddur og uppalinn hér í sveit og átti hér heima fram á miðjan aldur, lengst af í Baugaseli í Barkárdal. Þaðan flutti hann með fjölskyldu sína 1965 til Akureyrar, þá brugðu líka  þar búi  foreldrar hans og bræður. Síðan hefur Barkárdalur verið hljóður af búsýslu, síðasti bærinn í dalnum var kominn í eyði.
  Friðfinnur var verkhagur og bóngóður. Hann átti ófá viðvikin við að aðstoða sveitunga sína við lagfæringar og nýsmíðar húsa og eftir að hann flutti til Akureyrar vann hann við smíðar út starfsævina. 
  
  Baugasel í Barkárdal. Þar er nú bæjarhúsunum haldið við af Ferðafélaginu Hörg.

 


    
    2. febr. 2011.


  Í dag er Kyndilmessa. Hún er önnur þeirra messa, sem góðar þóttu til spádóma, hin er Pálsmessa, sem er þann 25. janúar. Veðrið á þessum messum þótti vera vísbendandi um komandi tíð. Ekki er ég nú vissum að ég hafi lært þessar vísur rétt, ef  til er þá eitthvað sem heitir rétt í þeim efnum, því trúlega eru til mismunandi útgáfur af þeim en þær munu þó vera nokkuð samhljóða hvað spádóma hrærir. 
  Ég ætla að láta þær fara hér út eins og ég lærði þær í æsku.

        Pálsmessuvísan:
    Heiðskýrt veður og himinn klár, 
    helgri Páls á messu. 
    Mun þá verða mjög gott ár, 
    mark skalt taka á þessu. 

        Kyndilmessuvísan:
    Ef í heiði sólin sést 
    á sjálfa Kyndilmessu. 
    Snjóa vænta máttu mest, 
    maður upp frá þessu. 

  Nú er það svo, að veðrið báða þessa messudaga hefur verið þannig að það spáir mjög góðu og nú er bara að bíða og sjá hverju framvindur. 




                 

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar