Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir nóv. 2010 30. nóv. 2010 Þá er búið að rýja að þessu sinni hér á bæ. Gestur kláraði það í dag og eins og sjá má fór hann í afslöppun eftir erfiði dagsins. Eftir er að leggja loka hönd á frágang ullarinnar og vigta það sem síðast var tekið af. Ég talaði í gærkveldi við Rúnar Jóhannsson, sem sér um að safna ullinni hér á þessu svæði þetta árið. Hann reiknaði með að taka ullina hér í næstu viku, ef bíllinn hans kæmist fljótlega í lag aftur, en hann bilaði í gær. 25. nóv. 2010 Í kvöld fór ég á fund um fjallskilamál, sem haldinn var í Þelamerkurskóla. Á fundinn mætti fjallskilanefnd Hörgársveitar auk varaoddvita og sveitarstjóra og frá Akrahreppi mættu fulltrúar úr sveitarstjórn og fjallskilanefnd þar. Við vorum að reyna að semja um aðkomu Akrahrepps að fjallskilum í Hörgársveit fyrir allt það fé, sem gengur hér úr Akrahreppi yfir sumarið. Það mun vera á bilinu 800 til 1000 fjár, aðeins mismunandi milli ára. Samningar gengu ekkert alltof vel, en á endanum tókst að semja fyrir haustið 2011. Hvað síðar tekur við er óráðið, trúlegt að það verði að fá mat óháðra aðila sem skeri úr um þennan ágreining. Eitt voru menn sammála um á fundinum að gera allt sem hægt er að gera til að leysa þetta án illinda á milli manna og sveitarfélaganna. 24. nóv. 2010 Hvað er nú þetta? Eru þetta menn að fara að fremja bankarán? Eða skyldi þetta vera bændur að fara að frelsa fé úr útilegu á fjöllum?... Þannig var að um síðustu helgi rakst Sigurður Sæmundsson rjúpnaskytta á 3 kindur upp á Flögudal, sem átti nú að vera alveg fjárlaus, en alltaf getur komið fé inn á afréttir af öðrum afréttum. Við fórum því að huga að þessu í dag. Við bræður fórum á snjósleðanum okkar, en Gestur fékk lánaðan sleða í Þríhyrningi. Við byrjuðum á því að fara upp á Flögudal og fundum kindurnar þar. Það kom fljótt í ljós að vonlaust var að reka þær til byggða vegna snjóa og sleðafærið var svo erfitt þar vegna hliðarhalla og gilja að við treystum okkur ekki til að flytja kindurnar þar heim. Við komum því kindunum yfir á Mýrkárdal. Fórum svo heim og fengum okkur hressingu. Lögðum svo aftur í hann og fórum fram Myrkárdal og fluttum kindurnar heim í Myrkárbakka. Mun betra er að fara á snjósleða um Myrkárdalinn, þar er bæði minna um gil og líka til muna minni hliðarhalli fram með ánni. Á myndinni er Gestur að reka kindurnar, það voru börð og rindar sem lítill snjór var á en svo var botnlaus ófærð á milli. Þetta reyndist vera tvílembd ær frá Þúfnavöllum, sem trúlega er þarna komin af sinni heimaafrétt Þúfnavallsveig. Hún var með tvo stóra hrúta. Bæði ær og hrútar voru orðin nokkuð aflögð, enda búið að vera vont á jörð um all nokkurn tíma. Þegar Gestur kom í morgun, færði hann okkur þennan bikar, sem hann hafði veitt viðtöku fyrir okkur á hrútafundinum í Hlíðarbæ síðastliðið sunnudagskvöld. Þar voru veitt verðlaun fyrir þrjá bestu lambhrútana í héraðinu á síðastliðnu hausti. Þar varð Faldur 10-205 okkar hlutskarpastur með 88,5 stig og fékk því 1. verðlaun. Nánar má fræðast um hann hér á heimasíðunni t.d. í frétt frá 5. nóv. sl. 21. nóv. 2010 Í dag sóttu þeir félagar ´Framfara, sem áttu hér graðfola í hólfi í sumar fáka sína. Folarnir hafa haft það heldur lélegt síðustu dagana þar sem er orðið mjög slæmt á jörð en þeir höfðu það mjög gott í sumar, þar sem það var með fæsta móti í hólfinu, aðeins 14 folar. Tómas Leonard kom í sveitina til afa og ömmu í gær og á myndinni erum við að koma frá því að gefa í Flögu. 15. nóv. 2010 Í kvöld var hér fundur í fjallskilanefnd Hörgársveitar. Við vorum að fara yfir framkvæmd fjallskila á nýliðnu hausti og undirbúa okkur fyrir fund með fulltrúum úr Akrahreppi, sem stendur til að halda á næstunni um sameiginleg fjallskil. 14. nóv. 2010 Allt er breytingum undirorpið, það eru ekki 3 dagar síðan ég skrifaði hér á heimasíðuna að góður hluti ánna væri út í Flöguhólfum og hefði það nokkuð gott þar. Það tók að snjóa án afláts í fyrrakvöld og mikið allt þar til snemma í morgun að stytti upp og birti til. Meðal snjódýpt gæti verið um 80 cm, sem er það mesta sem hefur verið hér á þessum árstíma um langt árabil. Við fórum því í gær að huga að ánum sem voru úti og komum þeim heim að Flögufjárhúsum. Í dag var svo allt sett inn út í Flögu og ærnar sem þar eiga að vera í vetur skildar þar eftir, en hinar reknar hér heim. Eins og sést á myndinni rásuðu þær bara í slóðinni eftir dráttarvélina, enda algjör ófærð fyrir þær annars staðar. Það leyfði reyndar ekkert af því að fært væri fyrir stóra og öfluga dráttarvél eftir túnunum. Nú er þá allt fé komið á hús og fulla gjöf, enda algjörlega jarðlaust. Hér má sjá nokkrar myndir frá heimrekstri ánna í dag. 11. nóv. 2010 Við Gestur kláruðum að rýja það fé, sem búið er að taka á hús. Það er um helmingurinn af fénu, sem búið er að taka inn. Hitt er enn út í Flöguhólfum og hefur það nokkuð gott þar enn, þrátt fyrir nokkurt vetrarríki upp á síðkastið. Það er aldrei eins gott að sjá byggingarlag kindanna og þegar þær eru ný rúnar. Fátt kemur reyndar þar á óvart þeim sem eru glöggir að finna sköpulagið með hefðbundnu þukli, sem verður að notast við t.d. þegar verið er að velja ásetningslömbin. Á myndinni eru veturgömlu ærnar Snjólaug 09-989 og Fóstra HÞ 09-998. Það má vel sjá hvað þær eru í heild vel byggðar og sérstök ástæða er til að vekja athygli á feikilega góðum læraholdum, þar sem saman fer að þau bunga út og einnig er mikil fylling innanlærs. Þess má svo geta að þessar ær eru báðar sonardætur Króks 05-803, þó ekki hálfsystur. Hér má svo sjá tvo syni Króks 05-803, þó ekki feður ánna sem eru hér að ofan. Þetta eru þeir Klaki 08-180 og Glæsir 08-181. Þegar þessar myndir eru skoðaðar þarf engan að undra þótt þessir hrútar hafi verið að skila góðu kjötmati hér tvö síðustu ár, líkt og faðir þeirra Krókur var þekktur fyrir hér á sinni tíð. Það má fræðast um undir afkvæmarannsóknir annars staðar hér á síðunni. Hér er svo hann Öðlingur minn, númer 10-209. Hann er forustuhrútur undan henni Háleit minni og Grími, sem er forustuhrútur sem Guðmundur á Þúfnavöllum á frá Grími í Klifshaga. Öðlingur minn er algjör öðlingur gæfur og óskaplega kelinn og vill helst alltaf vera að láta klappa sér og klóra. Hann er einnig mjög álitleg forustukind, það kom vel í ljós í haust. Er hann ekki flottur? Hvað er nú þetta mætti spyrja? Þetta bar jú fyrir augu þegar ég var að koma inn úr fjárhúsunum í kvöld og gekk fram hjá blómagarðinum okkar. Erum við ekki alltaf að finna að því að það sé skreytt alltof snemma í búðunum fyrir jólin? En á myndinni er ekki annað að sjá en sjálfur Skaparinn sé farinn að undirbúa jólin. Eða er þetta kannski ekki eins og sjálfsköpuð jólaskreyting? 9. nóv.2010 Í dag eru liðin 34 ár síðan þessi myndarlega kona, sem er með örverpið sitt í fanginu á myndinni, fæddist á Östrasjúkrahúsinu í Gautaborg, sem tilheyrir konungsríkinu hans Kalla kóngs, sem hefur verið nokkuð í fréttunum undanfarið, vegna viss mannlegs eiginleika, sem sumum finnst hann hafa fengið fullmikið af, þegar hans genamengi var saman sett. Hvað um það, þá sendum við Auði Maríu okkar innilegustu hamingjuóskir með daginn og vonum að hún eigi góðan dag með fjölskyldunni sinni í Slagelse í Danaveldi. 5. nóv. 2010 Í dag voru þeir hér á ferð ráðunautarnir Ólafur G Vagnsson og Sigurður Þór Guðmundsson. Þeir voru að yfir fara stigun þeirra lambhrúta sem stiguðust upp á 87,5 stig og hærra í haust, á svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Það munu vera 12 hrútar á svæði BSE, sem þeir þurfa að skoða, þar af eru 5 hér á bæ. Það var svona upp og ofan hvað kom út úr þessari endurskoðun, ýmist hækkuðu þeir eða lækkuðu um ½ eða 1 stig. Þeir tveir hrútar sem stiguðust hæst hér í haust, upp á 88 stig lækkuðu báðir um ½, en hrúturinn sem er hér á myndinni hækkaði um 1 stig (fyrir læri fór í 19,5) og endaði því efstur í 88,5 stigum. Hann hefur nú fengið nafnið Faldur og númer 10-205. Þeir sem vilja fræðast frekar um hann geta séð stigun og ætterni hans í frétt af lambhrútaskoðuninni þann 8. okt. hér þar er hann lambhrútur múmer 998. Einnig vil ég vekja athygli á mynd og frétt af þessum hrút frá 7. maí í vor sem leið, hana má finna hér. þar er hann kynntur sem sonur þeirra Báru og Sokka. Það hefur verið heilmikil kjötvinnsla hér í þrjá daga. Það voru úrbeinaðir 4 hrútar (eiga að vísu að vera óætir samkvæmt viðtekinni hjátrú eða í besta falli ímyndunarveiki, en sannleikurinn er sá að þetta er úrvalskjöt af ungum hrútum, hvort heldur er í hakk, bjúgu, reyk eða bara nýtt t.d. hryggvöðvi í steik. Á myndinni eru Sigrún og Gestur að hakka allt það sem úrbeinað var. Og hér er svo bjúgnagerðin komin á fullt. 2. nóv. 2010 Í gærkveldi skilaði ég Fjárvís á netinu fyrir Staðarbakkabúið. Þetta er í fyrsta skipti sem við skilum í net Fjárvís, en erum búin að vinna allt sauðfjárbókhaldið í þessu miðlæga skýrsluhaldskerfi Bændasamtakanna þetta skýrsluhaldsár, sem nú er að enda. Það er óhætt að segja að okkur hafi líkað það allvel þótt ýmislegt megi betur fara, en Fjárvís er enn í þróun og veður það vonandi alltaf. Eitt af því sem breytist við að vera með sauðfjárbókhaldið þarna inni er að uppgjörið berst miklu fyrr en þegar maður var að handfæra bókhaldið og senda það í pósti til Bændasamtakanna. Þannig var það sem ég skilaði í gærkveldi aðgengilegt uppgert í morgun, en áður þurfti að bíða eftir uppgjörinu í allt að mánuð. Það eru ekki ýkja margir bændur á landinu öllu þegar búnir að skila. Hér neðan við er skrá yfir þá bændur sem eiga yfir 100 ær á skýrslu og afurðir þeirra eru að jafnaði yfir 29 kg. Við erum nú á þessum lista í áttunda og níunda sæti, enda eru nú afurðir ánna okkar með því besta sem þær hafa verið. Listinn hér fyrir neðan er yfir þá sem hafa náð bestum árangri er varðar kjötmatið, þar erum við núna í þriðja og fimmta sæti. Það er nú kannski ekki mjög gott að lesa þessa lista en ég set þá nú samt hér inn að gamni. Flettingar í dag: 114 Gestir í dag: 60 Flettingar í gær: 403 Gestir í gær: 132 Samtals flettingar: 108224 Samtals gestir: 24359 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is