Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júní 2010

    30. júní 2010

Flýgildi yfir Drangakistunni
Í kvöld var hér merkilegt flýgildi á ferð yfir og meðfram Háafjallinu og lenti svo hér suður á túninu, en þar var komið fólk á jeppa með kerru, sem tók með sér flýgildið og manninn sem í því var. Ég náði nokkrum myndum af þessu sem má sjá hér 

Fyrstu rúllur sumarsins  Ágætur þurrkur var í dag og er heyið, sem losað var í gær komið í plast. Það hefur nú aldrei gerst í mínu minni að sé búið að slá og hirða hey í júní mánuði hér á bæ. Ég man þó einu sinni eftir að slegið var 30. júní en það var fyrir margt löngu síðan.









    29. júní 2010

Sláttur hafinn  Jæja þá þraut nú þolinmæðin, þannig að við bræður byrjuðum að slá í dag. Það er nú svo að það er erfitt að halda aftur af sér, þegar allir aðrir hér í dal eru byrjaðir að slá og sumir raunar langt komnir með fyrri slátt. Grasvöxturinn mætti nú vera betri einkum blaðvöxturinn, en það er einkenni þess, þegar of þurrt er fyrir gróðurinn að stöngulinn vex og skríður, en blaðvöxtur verður lítill. Þetta stendur nú eftilvill til bóta því varla höfðum við byrjað sláttinn, þegar skýjabólstrar tóku að hrannast upp yfir fjöllum og dalbotnum og tók að skúra til fjalla.  


    28. júní 2010

Kvöldsólin baðar Hörgárdalinn  Ekki er nú sláttur hafinn hér á bæ, enda gróður seinni að taka við sér hér fram í dalnum en í lágsveitinni, en þar mun fyrri sláttur vera kominn vel á veg. Heyskapartíð hefur verið mjög góð undanfarið. Helst að það vanti bara vætu fyrir gróðurinn.






Í Flögu  Ég kláraði að moka út skítinn undan Flögu-ánum í dag. Mikið er nú gott að það er búið.














    23. júní 2010

Flögu-ær 2009  Í gær og dag voru Flögu-ærnar rúnar og þeim sleppt á fjall og voru þær svo sannarlega frelsinu fegnar og rásuðu hratt til sinna sumarhaga.












Í Baugaseli   Í kvöld fórum við Sigrún og Gestur svo á hina árlegu Jónsmessunæturhátíð Ferðafélagsins Hörgs í Baugaseli. Þar var að venju farið í leiki, sagðar sögur og farið með bundið mál. Þetta var ágætis kvöldstund að vanda. Gestirnir voru nú reyndar með fæsta móti, röskir fjörutíu.






 


    21. júní 2010

Hús SAH á Blönduósi  Við hjónakornin brugðum okkur til Blönduóss í dag. Fyrir hádegi þurfti ég að mæta á stjórnarfund hjá SAH og eftir hádegi sátum við svo aðalfundi bæði SAH svf. og SAH Afurða ehf.











    20. júní 2010

Graðfolar  Í kvöld komu félagar í Framfara með graðfola sína til sumardvalar í hólfið hér líkt og tíðkast hefur undanfarin sumur. Að þessu sinni eru þeir með fæsta móti aðeins 14.











    19. júní 2010 Kvenréttindadagurinn

Kvenréttindadúkur Sigrúnar Á
  Í dag hélt frúin mín hún Sigrún upp á daginn með því að klára einkar fallegan og kvenlegan dúk. Það verður jú líka að heiðra tilvist þessa dags með því mjúka, fallega og síðast en ekki síst því kvenlega, sem ætíð verður vonandi stæsti og mesti eiginleiki hverrar konu.


    18. júní 2010

Jón Birgir að fagna afmælinu  Í dag vorum við boðin í afmæli þeirra bræðra í Dvergagilinu, Jóns Birgis sem á afmæli í dag og Hákons Þórs sem á afmæli 21. júní. Þetta var að vanda veglegt afmælisboð hjá þeim frændum mínum.

  Í kvöld fórum við svo á aðalfund Ferðafélagsins Hörgs, sem haldinn var heima hjá þeim heiðurshjónunum Bjarna E. og Pálínu Jóhannesdóttur. Ekki var nú fjölmennt á fundinum, en þetta var nú ánægjulegt kvöld, þar sem margt bar á góma kannski ekki allt beinlínis tengt Hörg. 

  Má þar nefna að nýja sveitarfélagið okkar sem nýlega varð til við sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar, fékk nýtt nafn í dag "Hörgársveit". Þetta er hið ágætasta nafn, en það vekur hinsvegar furðu að nýkjörin sveitarstjórn skuli hafa ákveðið að hafa að engu vilja íbúa sveitarfélagsins, en þeir fengu að velja á milli 5 nafna í leiðbeinandi kosningu samhliða sveitarstjórnarkosningunum þann 29. maí sl. Í þeirri kosningu fékk nafnið Hörgárbyggð talsvert fleiri atkvæði en hin nöfnin öll til samans. Það verður því að segja að ný sveitarstjórn hefði getað farið betur af stað en að láta það verða eitt sitt fyrsta verk að gera ekkert með vilja nokkuð stórs hluta íbúanna. Á þessum fyrsta fundi nýrrar sveitarstjórnar í dag var Hanna Rósa Sveinsdóttir kjörin fyrsti oddviti Hörgársveitar og er ástæða til að óska henni alls hins besta og velfarnaðar í störfum hennar fyrir hið nýja sveitarfélag.
  
    17. júní 2010

Haukur Árnason nýstúdent  Í dag útskrifaðist Haukur Árnason frændi minn, sem stútent frá Menntaskólanum á Akureyri. 
  Af því tilefni var efnt til mannfagnaðar heima hjá honum í Möðrusíðunni á Akureyri, þar sem mætti hans nánasti frændgarður í veislukaffi og erum við hjónakornin þar meðtalin.
  Ég vil hér endurtaka innilegar hamingjuóskir okkar með þennan merka áfanga Hauks  á lífsins leið.
 Hér má sjá nokkrar fleiri myndir.








   


    15. júní 2010

Stjórn Hörgs: Gestur, Bjarni og Guðmundur  Stjórn Ferðafélagsins Hörgs kom saman til fundar hér í kvöld.
  Við vorum að ræða um aðalfund félagsins, sem halda á 18. júní nk.
Einnig vorum við að móta viðburði sumarsins, sem eru nú nokkuð hefðbundnir: Ganga á Staðarhjúk 21. júní, Jónsmessunæturvaka í Baugaseli 23. júní og Þorvaldsdalsskokk 3. júlí. Auk þessa eru ráðgerðar göngur að þremur vötnum, það eru: Þverbrekkuvatn 6. ágúst, Grænavatn 7. ágúst og Hraunsvatn 8. ágúst.
  Í baksýn á mundinni af stjórninni er fjallið Flöguselshnjúkur. Þangað var fyrsta skipulagða ferð Hörgs farin þann 11. júlí 1981. Hugmynd kom upp á fundinum að í tilefni af 30 ára afmæli félagsins á næsta ári verði þá aftur gengið á Flöguselshnjúk.

    13. júní 2010

Gróðursetning í Flöguskógi  Í gær og í dag vorum við að gróðursetja í skógræktargirðingunni okkar út í Flöguhálsi. Að þessu sinni voru gróðursettar tæpar 2000 lerkiplöntur og 140 furuplöntur.
  Alls er búið að planta hátt í 40.000 plöntum, sem er að langmestu leyti lerki. Lerkið virðist kunna mjög vel við sig þarna. Það eru 12 ár síðan við girtum þessa skógræktargirðingu og byrjuðum að planta í hana. Plönturnar eru að jafnaði um 20 cm, þegar þær eru settar niður. Þær spretta ekki mikið fyrstu 2 - 4 árin, en svo fara þær að taka við sér og vaxa með ótrúlegum hraða, þar sem þær kunna vel við sig. Litlu trjásprotarnir sem settir voru niður fyrir rúmum áratug eru nú orðin myndarleg tré, á fimmta metra á hæð þau sem best kunna við sig.  

    11. júní 2010

Mrgrét, Guðrún, Hákon og Lukka nýborin  Það má segja að sauðburði hafi lokið í dag, þegar hún Lukka bar síðust allra áa tveimur lömbum.
  Börnin fylgdust spennt með, enda sjá þau ekki lömb fæðast aftur fyrr en næsta vor. 
  









Home
  Í dag fór ég á stjórnarfund hjá SAH, sem haldinn var á Greifanum á Akureyri. Við vorum að fara yfir ársreikninga síðasta árs og horfurnar fyrir yfirstandandi ár.
  Aðalfund félaganna á að halda 21. júní á Blönduósi.

Sigrún og Ingibjörg  Á meðan ég var á fundinum heimsótti Sigrún, Ingu vinkonu sína  og eins og sjá má á myndinni nutu þær veðurblíðunnar í fallega blómagarðinum þeirra Ingu og Sævars í Mánahlíð 6.











Bóndinn að marka síðasta lamb vorsins  Þegar heim var komið markaði ég svo og merkti  lömbin hennar Lukku sem fæddust í morgun...
 












Fært í Fjárvís...og svo var bara að skella skráningunni inn í Fjárvís og senda fjárbókhald vetrarins og vorsins til Bændasamtakanna í uppgjör og fá svo aftur frá þeim lambabók til nota við fjárrag á komandi hausti.











    8. júní 2010

Tómas Leonard og afi búnir að lesta vagninn  Það var sól og blítt veður í dag. Tómas Leonard kom með mömmu sinni og Ásku frænku að hjálpa afa og ömmu að tæma heimatúnið. Farið var með einn vagn í Flögu og restin var svo rekin í Nýjabæ, nema 4 fótfúnar gamalær sem settar voru fram í hólf til sumardvalar þar.
Nú eru aðeins tvær ær óbornar, þannig að sauburðurinn er alveg að taka enda þetta vorið.


 

    6. júní 2010

Systkinin Jörgen Þór og Magga  Í dag var okkur boðið í heimsókn að Björgum, sem er nyrsti bær í Kinn. Þar eru í sumarhúsi þessa vikuna: Jörgen Þór bróðir Möggu mágkonu og kona hans Hrefna ásamt börnum sínum Guðdísi og Hrafni Þór og konu hans Maríu og þremur barnabörnum. 
  Okkur var boðið upp á hádegissúpu, kaffi og tertur.
  Þetta var ánægjulegur dagur með góðum vinum og ekki spillti að sól skein glatt í Kinninni í dag.
  Þótt maður hafi nú oft farið um Kinn var þetta í fyrsta skipti sem ég hef komið norður að Björgum.

Ungviðið í fótbolta á Björgum  Á meðan fullorðna fólkið ræddi landsins gagn og nauðsynjar, skemmti ungviðið (?) sér við knattleikni fótanna.













    4. júní 2010

Bóndinn í girðingarviðhaldi  Eitt af því sem árvisst tekur við þegar sauðburðarönnum slotar, er að sinna viðhaldi girðinganna. Við Sólveig og Gestur vorum í dag að lagfæra skógræktargirðinguna út í Flöguhálsi. Girðingarnar koma á þessu vori með skásta móti undan vetri, enda var hann fremur snjóléttur.
  Myndavélin var með í för og hér má sjá nokkuð af því sem fyrir hennar linsu bar.



 


    3. júní 2010

Systkinin Sigrún og Jónas Ragnar  Jónas og Guðrún komu í heimsókn í dag, þau eru búin að vera tæpa viku í íbúð á Akureyri, en leggja svo íann áleiðis til síns heima í Keflavík á morgun.
  Sigrún var með matarboð og bauð upp á lambalæri, sem grunnur var lagður að á sauðburðinum fyrir rúmu ári (skrítinn gangur lífsins og skilin milli lífs og dauða). Sólveig og Tómas Leonard komu líka og svo er Gestur hérna, þannig að þetta var álitlegur hópur að snæða saman.
  Ég náði þessari fínu mynd að þeim systkinunum, áður en Jónas og Guðrún hurfu á braut í kvöld.


    2. júní 2010

Gestur og Tómas Leonard  Góðir félagar: Gestur og Tómas Leonard, fá sér smá túr á vélfáknum hans Gests, sem þeir hafa báðir ómælda ánægju af að taka til kostanna.






 





Tryggur  Tryggur í tíma að læra á hlaupahjólið hans Tómasar og ekki annað að sjá en honum finnist þetta spennandi farartæki.













    1. júní 2010

Rakstur  Jæja, það er nú best að fara að raka framan úr sér loðnuna, sem fengið hefur að njóta þess að vaxa óskert yfir sauðburðinn, þar sem ekki hefur gefist tími til að hefta hennar vöxt. Eins og sjá má var Gestur svo elskulegur að halda við spegilinn þannig að ég gæti setið við eldhúsborðið og hvílt mín lúnu bein á meðan.
  Það hefur annars verið ágætt að hafa skeggið í norðan næðingnum í vor...





Hálfrakaður
.... og jæja það spáir víst norðan kalsa næstu tvo til þrjá daga. Ætli sé þá ekki best að hafa annan kjammann varinn til að beita honum uppí norðan garrann.

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar