Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir maí 2010

    31. maí 2010

Áburðardreifing  Eitt vorverkið tekur við af öðru og í dag var byrjað að bera áburðinn á túnin, sem koma ágætlega undan vetrinum og eru alveg ókalin. Á myndinni eru þeir Sigurður og Hákon að fylla á áburðardreifarann. Þetta er nú með fyrsta móti vors, sem byrjað er að dreifa áburði hér, en hér neðar í sveitinni er nokkuð síðan lokið var við dreifinguna, enda hæðarmunurinn mikill og færra fé þar á túnum. Allt ætti að stefna í góðan heyfeng í sumar en margt getur nú haft áhrif á hann ennþá.


 

    29. maí 2010

  Mjög sérkennilegur hornvöxtur varð á þessari á í vetur. Þetta er 5 vetra ær þannig að horn eiga að vera nánast hætt að vaxa. En það var eins og hornið losnaði aðeins og upp úr því hófst mikill vöxtur og hornið eins og lak niður og var komið ansi nálægt auganu. Við tókum því til þess ráðs að taka gamla hornið af með sögunarvír, þá kom í ljós að það var alveg dautt og ekkert blóðrennsli fram í það. Ærin sleppur því frá því að hornið fari í augað í sumar.
  Nú er sauðburðarfólkinu farið að fækka: Anna sænska fór í gær og Doddi í dag. Við þökkum þeim innilega fyrir alla hjálpina.
  Víð fórum í Hlíðarbæ að kjósa til sveitarstjórnar í dag. Hér voru tveir listar í kjöri J listi og L listi. Mjótt var á munum L listi fékk 171 atkv. og 3 menn kjörna og J listi fékk 170 atkv. og 2 menn kjörna. Allt er þetta gott fólk og ástæða til að óska þeim velgengni við störf sín fyrir sveitarfélagið næstu fjögur árin. 

    27. maí 2010

Ég, Doddi, Gestur og Anna  Nú er farið að flytja lambær héðan heimanað út á Flögutún. Á myndinni er búið að fylla gamla vagninn af ám og lömbum og Gestur og Anna keyra svo með allt saman í Flögu.
Hér má sjá nokkrar myndir frá deginum.










Anna sænska og Gestur  Stund milli stríða og Anna sænska og Gestur að spá í myndavél.














Sjálfur  En sá gamli er að verða ansi loðinn og þreytulegur!
















    26. maí 2010

Anna sænska  Anna sænska kom með rútunni frá Reykjavík í gær. Hún ætlar að aðstoða okkur í nokkra daga, enda alveg brjálað að gera í sauðburðinum þessa dagana. Hér er hún reyndar að undirbúa að gera sænskar kjötbollur handa okkur í hádegismatinn.









Sólin skín  Það er kalt þessa dagana, það sem bjargar að það er sól á daginn og sæmilega hlýtt í skjóli sunnan undir vegg, en ef golar er það ísköld norðan heimskautagjóla og á nóttunni er frost.












    23. maí 2010

Auður María, Ída Guðrún og Arnar Heimir  Í dag var Ída Guðrún borin til skírnar í danskri kirkju í Slagelse.
  Við sendum henni og fjölskyldunni innilegar hamingjuóskir með skírnina. 
  Að athöfninni lokinni var svo efnt til veislu á heimili þeirra og var Auður María búin að baka margar stríðstertur og tvær kransakökur.
















Doddi að gefa á garðann  Í dag kom okkar góði vinur Doddi frá Þríhyrningi, eftir að hafa sungið við fermingarguðsþjónustu í Möðruvallakirkju.
  Hann ætlar að vera svo góður að hjálpa okkur við sauðburðinn í vikutíma.











     22. maí 2010

Hjalti Þórhallsson stúdent
  Í dag útskrifaðist Hjalti sem stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Hann gerði það með miklum sóma, fékk t.d. verðlaun fyrir frábæran árangur í þýsku. 
  Vegna mikilla anna við sauðburðinn gátum við ekki verið viðstödd útskriftina.
  Við sendum honum okkar innilegustu hamingjuóskir með hvítu húfuna og lok þessa lífsins áfanga sem hún stendur fyrir.




















   18. maí 2010

Móðir og afkvæmi  Nú er sauðburði lokið í Flögu fyrir utan nokkrar uppbeiðslur úr sæðingum.
  Nánast allt er komið út á tún og hefur þar frjálsan aðgang að heyrúllum.
  Á myndinni hér til hliðar má sjá allan fjárstofn Hauks bónda Árnasonar. Glæsilegur bústofn ekki satt?









Tryggur og Brussa  Mæðginin Brussa og Tryggur taka sér gjarnan far með Land-Rover gamla þegar farið er í Flögu og sitja hér kampakát í aftursætunum.












Berghús og sér í Flögukerlingu
Þessi gömlu og reisulegu fjárhús eru byggð árið 1931 af föðurbróður mínum Halldóri Guðmundssyni, sem bjó allan sinn búskap á föðurleifð sinni Ásgerðarstöðum. Fjárhús þessi nefnast Berghús og eru enn í notkun og liggja ær þar við opið yfir veturinn. 
  Hallið sem húsin standa á nefnist Berg og slakkinn undir því Kinn. Því nefni ég þetta að oft situr skafl í Kinninni langt fram á sumar og lengur en víðast annars staðar hér á láglendi . Það lengsta sem ég þekki var 1995, en þá fór saman mjög snjóþungur vetur og afar kalt vor og tók þá síðasta snjódílinn úr Kinninni 29. júlí. En þrátt fyrir að hafi verið kalt hér norðanlands í vor tók skaflinn upp úr Kinninni í dag og munar þar  mestu að snjórinn frá liðnum vetri var með því minnsta sem gerist.

    15. maí 2010

Drangi séð frá Flögu  Það gerði mikið úrfelli í gærkveldi og í alla nótt, en stytti að mestu upp í dag þegar kom fram á morguninn. Eins og sjá má á myndinni var kalt og snjóaði niður í miðjar hlíðar. 











Lambær á Flögutúninu  Eins og að líkum lætur var þetta afleitt veður fyrir lambféð, sem búið var að setja út, en það bjargaði að Flöguærnar eru í ullinni og þau lömb sem höfðu nóga heita mjólk að þamba báru sig furðu vel í morgun eftir hrakviðri næturinnar.










Feðgarnir Jósavin og Hreinn Heiðmann  Brói er búinn að vera hjá okkur í sauðburðinum í Flögu frá því að kveldi 11. maí. 
 Hér eru þeir feðgar í dag að fylgjast með á sem var að bera.












Gunnar, Kristjana, Heinn og Jósavin (Brói)  Í dag komu svo Kristjana og synirnir að sækja Bróa og litu í fjárhúsin í leiðinni og réð Hreinn litli Heiðmann sér ekki fyrir kæti að fylgjast með kindunum.
  Við kunnum Bróa bestu þakkir fyrir aðstoðina á meðan Flögusauðburðurinn stóð sem hæst.









   14. maí 2010

Dimma 07-752 með lömbin sín  Það er búin að vera gríðarleg burðarhrota í Flögu í gær og dag og gengur á ýmsu.
  Hér má sjá hana Dimmu 07-752, Þróttardóttur 04-991 með þrjú falleg lömb undan Fannari 07-808.








 


    11. maí 2010

Skrautlegur undan Skrauta
Nú er sauðburðurinn kominn á skrið í Flögu og fæddur er þessi fallegi lambhrútur undan sæðingahrútnum Skrauta 07-826 og ánni Fjárbót 07-045 en hún er undan Frakkssyni 03-974.

Á kaffistofunni í Flögufjárhúsunum
 Stund milli stríða við sauðburðinn og þá setjumst við niður á kaffistofunni í Flögufjárhúsunum og fáum okkur kaffi og samlokur.











Tryggur
 Tryggur fylgist athugulum augum með sauðburðinum.

    9. maí 2010

Bossa með lömbin sín í Flögu  Þá er sauðburður hafinn í Flögu enn eitt árið. Það var hún Bossa sem reið á vaðið að þessu sinni og var bara hin ánægðasta með lömbin sín í sólinni.












Gestur að reka hrútana fram í hólf  Gestur fór með fullorðnu hrútana fram í hólf til sumardvalar þar, en þeim verður nú gefið út eitthvað á næstunni. Þeir voru búnir að fá fót- og hornasnyrtingu eftir þörfum og það var búið að láta þá út í nokkra daga til að þeir gætu jafnað sig eftir hinn stórfenglega bardaga, sem alltaf fylgir því þegar hrútar eru settir út fyrst á vorin. 








Ösp 08-827 hans Gests  Fyrsta ærin hans Gests sem ber hér á bæ, bar 3. maí og átti hrút og gimbur, undan sæðingahrútnum Borða 08-838.
  Þau fengu að fara suður á tún í dag til að sóla sig og njóta veðurblíðunnar.
  Það er raunar fremur kalt, aðeins um 7° í sólinni um hádaginn.









    7. maí 2010

Dorrit með lömbin sín  Núna þessa dagana eru sæðingalömbin að fæðast. Þau eru nú svona upp og ofan eins og gengur sum nokkuð álitleg, en önnur virðast ekki líkleg til kynbóta.
  Hér má sjá hana Dorrit hennar Sigrúnar, sem er undan hennar uppáhalds á henni Alínu, sem skilaði sér því miður ekki af fjalli í fyrra haust. Þótt Dorrit sé hyrnt ákvað eigandinn að nota sæðingahrútinn Skrauta 07-826, sem er kollóttur og móflekkóttur, var þetta gert til að öruggt væri að fæddust litskrúðug lömb, sem og varð eins og sjá má: Gráflekkóttur hrútur og móflekkótt gimbur. Ekki má á milli sjá hvor stoltari er af lömbunum, móðirin Dorrit eða eigandi hennar.

Bára með Svíradigur sinn  Hér má hins vegar sjá hana Báru 08-874, sem er undan Garði 05-802  með gríðar þykkvaxinn og fallegan hrút. Hann er undan sæðingahrútnum Sokka 07-835. Það kæmi ekki á óvart þótt þessi hrútur kæmi til með að stigast hátt í haust. Eins og sjá má á myndinni er hann einstaklega breiður fram og allt að því afbrigðilega svíradigur.







6. maí 2010

Rjúpa á þúfu í Staðartunguhálsi
  Við hjónakornin fórum til Akureyrar í dag og rákumst þá á þessa rjúpu kúrandi
á þúfu nyrst í Staðartunguhálsinum, hún virtist vera afar spök þarna.

    5. maí 2010

Geldféð rekið í Sel  Í dag var geldféð rekið í Sel. Að þessu sinni var það alltof stór hópur, því eins og fram kom, þegar  fósturtalið var í mars er meira en helmingurinn af gemlingunum geldir.
  Nánast enginn gróður er kominn aðeins sést nál, þannig að það verður að fara með rúllur í Sel næstu dagana og gefa hinum geldu gemsum, þótt þeir gefi nú lítið af sér þetta árið.






    3. maí 2010

Ærin Garún 07-702  Í dag bar fyrsta ærin í húsunum hjá okkur, hún Garún 07-702 átti myndarlegan lambakóng og prins, undan sæðingarhrútnum Borða 08-838.
  Þetta gekk fljótt og vel hjá henni og án þess að mannshöndin kæmi þar nærri, þannig á það líka helst að vera. Vonandi að þetta sé fyrirboði þess að burðurinn gangi vel á þessu vori.







    1. maí 2010

Við félagarnir ég og Óli kommi  Við Gestur hröðuðum okkur frekar við morgungjöfina og hann tók svo að sér að fara í Flögu og sjá um seinni gegningarnar hér heima.
  En við Sigrún brunuðum til Akureyrar. Þannig var að Óli kommi var búinn að biðja mig að lesa upp á baráttufundi Stefnu, félags vinstrimanna á Akureyri, sem hófst kl. 11.
  Ég las þar upp hugleiðingu úr bókinni Fólk eftir Jónas heitinn Árnason f.v. alþingis- og baráttumann. Þarna voru fluttar skörulegar ræður, meðal annars af Rakel Sigurgeirsdóttur, kennara við VMA. Hún átti heima í Flögu frá 10 til 16 ára aldurs. Þá voru sungnir baráttusöngvar og fundinum lauk á því að Internasjónalinn var sunginn af krafti og innlifun.
  Við eyddum svo seinnipartinum með þeim mæðginunum í Helgamagra m.a. var farið að öllum vélasölum í bænum til að lofa Tómasi Leonard, að berja þar augum uppáhöldin sín VÉLAR.

Karlakór Eyjafjarðar mynd frá 2009
Í kvöld fórum við svo á vortónleika Karlakórs Eyjafjarðar. Þeir voru haldnir í tónlistarhúsi Eyjafjarðarsveitar, Laugarborg. Þetta voru ágætir tónleikar, sem samanstóðu af góðri blöndu af hefðbundnum karlakórslögum og lögum af léttara tæginu, svo sem Skriðjöklasyrpu sem innihélt lögin Hryssan mín blá, Tengja og Aukakílóin, eftir Bjarna Hafþór Helgason.
  Þetta voru sem sé hressandi tónleikar og prýðis kvöldskemmtun.
Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar