Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir febr. 2010 28. febr. 2010 Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd hefur snjóað talsvert mikið undanfarið og það að mestu í logni, þannig að það er ansi vetrarlegt úti, enda Góa ekki einu sinni hálfnuð ennþá. Það birti svo til í dag. Í fyrrakvöld kom Guðmundur á Þúfnavöllum í heimsókn og gátum við tekið ágæta brýnu um þjóðmálin, vorum ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut fremur venju. En að vanda slíðruðum við sverðin og tókum upp léttara hjal yfir veitingum hjá frúnni og gripum að því búnu í Hrútaspilið með Gesti H. en hann er búinn að vera hér síðan á föstudag, en fór svo aftur í dag. En þótt úti sé frost og snjór snertir það ekki ærnar, sem eru inn í hlýjum fjárhúsunum og gæða sé á töðunni, sem þeim er hér gefin á garða. Gamalt og úrelt mun nú örugglega einhver segja. En er ekki alltaf verið að tala um að það þurfi að hlúa að hinum gömlu góðu gildum, ha? 26. febr. 2010 Við fórum til Akureyrar í dag, að útrétta fyrir heimilið. Auk þess fór ég á fund i fjallskilanefndar Eyþings. Þar vorum við að klára okkar endurskoðunaryfirferð á fjallskilasamþykktinni og búa hana til útsendingar til sveitarstjórna á svæðinu, til að þær geti gert sínar athugasemdir. Stefnt er svo að því að nefndin haldi fund með fulltrúum sveitarfélaganna um mánaðarmótin mars/apríl. 23. febr. 2010 Í dag er hann Ívar Franz okkar 5 ára. Amma og afi senda honum sínar bestu afmæliskveðjur með ósk um að hann verði alltaf sami hressi drengurinn. Myndina fengum við senda frá Slagelse, þar má sjá afmælisbarnið, að halda upp á afmælið með vinum sínum í leikskólanum. 21 febr. 2010 Þá hefur enn einn Þorrinn runnið sitt skeið á enda og Góa gengið í garð og eins og hennar venja er með sínum árvissa konudegi. Vonandi fer hún mildum höndum um mann veðurfarslega líkt og bróðir hennar Þorri er búinn að gera. Í gamalli þjóðtrú segir: ,, Grimmur skal Góudagur fyrsti, annar og þriðji, þá mun Góa góð verða" Konan fékk sinn konudagsblómvönd eins og vera ber, en líkt og vanalega var hann ekki frá bóndanum, enda hefur hann ekki lagst í blómabúðaráp undanfarið frekar en endranær. En er ekki annars sama hvaðan gott kemur? Það gerði gríðarlega dimm él í dag eins og sjá má á þessum myndum, en það var algert logn og því í raun ágætis veður. 18. febr. 2010 Tómas Leonard er búinn að vera hjá ömmu og afa í sveitinni síðan á laugardaginn var. Hann hefur nú ýmislegt fyrir stafni. Fer í fjárhúsin og líka í Flögu að gefa kindunum með afa sínum og svo finnst honum voða gaman að moka snjó með gömlu litli skóflunni hans afa. Á myndinni er hann einmitt úti með vinum sínum Trygg og Brussu, að moka snjó. Hér eru nokkrar myndir. 16. febr. 2010 Í dag fór ég á stjórnarfund í SAH á Blönduósi. Þar var einnig fundað með sveitarstjórnarmönnum í Austur-Húnavatnssýslu, um mikilvægi fyrirtækisins fyrir atvinnu á svæðinu. Það er snjór og hálka hér, en strax þegar kemur vestur fyrir Öxnadalsheiði er nánast snjólaust, svona grátt í rót og sums staðar rúmlega það. Meðfylgjandi mynd er úr myndasafni mínu og er því ekki að sína snjóleysið á Blönduósi núna. 11. febr. 2010 Í kvöld lögðumst við hjónakornin í menningarferð, eftir að við Gestur höfðun verið að fást við hrútana, fyrst moka undan þeim og svo að taka þá frá sínum heittelskuðu ám og koma þeim fyrir í sínum ,,munkaklefum" það er hrútaspilunum. Að þessu öllu búnu auk gegninganna, brunuðum við í bæinn (til Akureyrar) og í bíó til að sjá kvikmynd Friðriks Þórs ,,Mamma Gógó". Þetta var auglýst síðasta sýning í höfuðstað norðurlands og því ekki seinna vænna en að skella sér. Þetta er ágætis mynd, en að mínu mati síðri en báðar þær myndir, sem ögn er fléttað inn í hana úr fortíðinni, sem eru: ,,79 á stöðinni" og ,,Börn náttúrunnar". Ágæt skemmtun enga að síður. .... ...Ekki létum við þar við sitja, enda sjálfsagt að nota ferðina í botn. Bensín líterinn jú kominn uppí 200 kr. mínus nokkrir aurar. Nú lá leið okkar í menningarhöll þeirra í Eyjafjarðarsveit, Laugarborg. Þar var hinn landskunni skagfirski karlakór Heimir að troða upp undir yfirskriftinni ,,Upp skal á kjöl halda" Þetta er söngdagskrá þar sem fléttað er inn á milli laga sögu Örlygsstaðabardaga, sem hinn lærði prestsmaður á Miklabæ, Agnar H Gunnarsson hefur tekið saman og flytur ásamt klerki þeirra Eyfirðinga fram Hannesi Erni Blandon. Þetta var eins og vænta mátti frábær skemmtun, þar sem skiptist á vel æfður og þróttmikill söngur Heimismanna og vel fluttur texti sögumannanna. Hafi þeir allir þökk fyrir ágæta kvöldstund í Laugarborg. 10. febr. 2010 Það var fundur hjá okkur í nefndinni, sem er að endurskoða fjallskilasamþykktina í dag. Eins og fyrr funduðum við í húsnæði Eyþings, enda erum við nefnd á þess vegum. Við héldum nú áfram þar sem frá var horfið á síðasta fundi, að fara yfir fjallskilasamþykktina grein fyrir grein. Meiningin er svo sú að klára þá yfirferð á næsta fundi, sem er fyrirhugaður föstudaginn 26. febr. nk. Á myndinni má sjá nefndina að störfum. 8. febr. 2010 Þá er blessuð sólin farin að skína á ný, eftir að hafa dvalist bak við fjöllin há síðan snemma í nóvember. það er að segja héðan frá bænum séð. Það eru því nánast 14 vikur, sem hún er það lágt á lofti að geislar hennar ná ekki hér til bæjar. Þar að auki er það ekki fyrr en langt er liðið marsmánaðar, sem hún kemur hér upp fyrir hádegi, þannig að lengi vel er þetta varla nema sýnishorn sólar. Talsvert frost hefur verið undanfarið. Hér má sjá Einhamarsfoss í fallegri klakabrynju. Svona skreyta álfarnir heimkynni sín í froststillum vetrarins. Flögu-ærnar á heimleið til að grípa í tugguna sína og njóta góðviðrisins. 6. febr. 2010 Í dag á konan mín elskuleg afmæli. Ekki var ég nú samt svo góður eiginmaður að færa henni þessar fallegu rósir, heldur var það dóttirin Sólveig, sem færði henni fallegt rósabúnt, þegar hún kom í dag og þau Tómas ætla svo að gista í nótt. Hér er Tómas að hjálpa ömmu sinni að taka upp gjafir frá fjölskyldunni í Slagelse, sem voru meðal annars myndir af Ídu Guðrúnu og Gauta Heimi. 5. febr. 2010 Í dag fór ég á fund í nefndinni sem er að endurskoða fjallskilasamþykktina fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð. Við vorum núna að byrja að fara yfir hana grein fyrir grein og gera þær breytingar sem við töldum ástæðu til. Við ætlum svo að koma saman aftur miðvikudaginn 10. nk. 2. febr. 2010 Ég fór á stjórnarfund í SAH, sem haldinn var á Greifanum á Akureyri. Þar var verið að fara yfir fyrstu drög að afkomu síðasta árs og ræða um framtíðarhorfur í rekstri félagsins. Flettingar í dag: 37 Gestir í dag: 10 Flettingar í gær: 403 Gestir í gær: 132 Samtals flettingar: 108147 Samtals gestir: 24309 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is