Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir des. 2009

    31. des. 2009

Við á Staðarbakka sendum öllum innilegar nýárskveðjur,
um leið og við þökkum fyrir öll hin liðnu ár.
 
Friðarljós fyrir nýtt ár

Mæðgin fagna nýju ári

Gamla árið kvatt

Máninn hátt á himni skín  Nú árið er að líða í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.  Þetta ár telst nú varla nema í meðallagi hvað varðar veðurfar til búskapar.  Veturinn var þokkalegur, tiltölulega snjóléttur og að mestu án stórviðra.  Vorið var fremur kalt og hörkuhret gerði í kringum 10. maí. Grasspretta var nálægt meðallagi. Ágætis heyskapartíð var frá því um viku af júlí og fram yfir þann 20.  Eftir það hefur árið verið nokkuð úrkomusamt, með ríkjandi norðan og austlægum áttum. Hörkuvetur gerði um mánaðarmót september og október sem stóð allt fram yfir miðjan október, með nokkru fannfergi og jarðbönnum, þannig að það þurfti að taka lömb á hús.  Þennan snjó tók svo að mestu upp og hefur verið snjólítið allt fram að jólum, en mikinn snjó setti svo niður nú um jólin. Árið kveður svo með froststillu og fullu tungli á himni hátt.     Hvað mannlífið varðar hér í sveitinni, gekk það nokkuð sinn vanagang á árinu 2009. Hið svo kallaða góðæri kom aldrei hingað. Af þeirri ástæðu verðum við minna vör við hina svo nefndu kreppu, en þeir sem dönsuðu hvað villtast í kringum hinn fallvalta Gullkálf. Ég hef af því miklar áhyggjur að það virðist ætla að gleymast þjóðinni alltof fljótt hver skóp þetta einstaklingsfrjálshyggjukjaftæði, sem svo varð undirstaða Gullkálfs dansóskapnaðarins, sem náði hámarki vitfirringarinnar og er kenndur við 2007.
  Ég á þá von og ósk að þjóðin megi læra af þeim miklu mistökum að kjósa ferð eftir ferð yfir sig óstjórn græðgisvæðingarinnar, en munu nú um langt árabil njóta þess að hafa valdhafa sem kappkosta og búa okkur þjóðfélag: Heiðarleika, jöfnuðar, réttlætis og mannkærleika, þar sem hver hugsar til náungans hvort ekki sé hægt að rétta honum hjálparhönd í stað þeirrar hugsunar sem ríkjandi var, hvort ekki væri nú hægt að svindla, gabba og græða á samborgurunum.    

    24. des. 2009 Aðfangadagur

                                         Jólakveðja frá Staðarbakka
Staðarbakki í jólaskrúða
Sendum öllum innilegar óskir um blessun Guðs á fæðingarhátíð Frelsarans

   Það snjóaði mikið í nótt og fram eftir degi, þannig að það er komið yfirdrifið nóg af jólasnjónum. Það eru allir komnir hér í hús. Helga og fjölskylda komu í gærkveldi og Beta og fjölskylda í morgun. Ég sótti svo Sólveigu og Tómas niður að Melum eftir hádegið, þar sem ekki er lengur fært hingað fyrir litla fólksbíla. Gestur kom einnig í morgun og setti ný merki í kindurnar sínar og gaf svo seinni gjöfina með Hjalta á meðan ég var að sækja þau mæðginin. Hann er svo farinn til síns heima og vonandi hvessir ekki á meðan hann er á leiðinni því þá yrði alveg glórulaus bylur.

23. des. 2009 Þorláksmessa

Sólveig Elín um það bil eins ársemoticon  Þá er messa heilags Þorláks upprunnin enn einu sinni. Það bar til á messunni þeirri fyrir 38 árum að hjónaleysunum Sigrúnu Franzdóttur og Þórhalli Pálssyni, fæddist frumburðurinn, sem síðar hlaut nafnið Sólveig Elín. 
  Við í sveitinni sendum henni okkar innilegustu afmæliskveðjur, með ósk um að Guð gefi henni og hennar frumburði ánægjulegan dag.





 
Jólin nálgast  Nú þegar jólin eru alveg á næsta leyti og búið er að skreyta allt bæði úti og inni og sjálft jólatréð er komið á sinn stað í stofunni, með sín ljós og annan jólaskrúða. Þá er gaman að sjá, þegar sjálfur himnafaðirinn lætur af himni falla lauflétt snjókorn til að fullkomna jólaskreytinguna utan dyra. Er þetta ekki bara eins og hreint listaverk? Og í baksýn má sjá Trygg, eins og hann sé að þakka fyrir sköpunarverkið.




   21. des. 2009

Flöguærnar reknar heim  Í dag var klárað að fengja Flöguærnar. Reknar voru hér heim rúmar 40 ær og þeim haldið undir lambhrútana. Hjalti sótti svo fyrir mig, sæði til Akureyrar eftir hádegið og ég sæddi 29 ær í Flögu, 21 sem við eigum og 8 sem Gestur á. Þar með eiga allar ærnar í Flögu að vera lembgaðar (eða óléttar) og gekk þetta bara ágætlega. Á morgun verða svo hrútarnir, sem við fluttum úteftir í gær keyrðir hingað heim aftur.





    20. des. 2009

Hjalti og Tryggur  Hjalti kom heim í dag og var heilsað vel að vanda bæði af mönnum og málleysingjum, hann er búinn að vera 3 nætur í Helgamagra hjá Sollu og Tómasi.  Hér beið hans svo það verkefni að fara með hrútana í Flögu, með okkur og þar vorum við svo fram á kvöld við tilhleypingar. Haldið var 61 á undir sex hrúta á um þremur klukkutímum. Gestur kom með fullorðinn hrút með sér, sem ég fékk lánaðan hjá Stefáni Lárusi á Ytri Bægisá, sá heitir Dúlli 06-151 og er goltóttur á lit undan Mími frá Hesti í Borgarfirði.



    18. des. 2009

Verið að tengja háhraðanet  Loksins, loksins, loksins!!!  
Komu hér menn frá Ljósgjafanum að tengja hér svokallað háhraðanet. Þetta er verkefni, sem Fjarskiptasjóður stendur fyrir til að koma öllum landsmönnum í þokkalegt netsamband. Síminn bauð í verkefnið og fékk það. Ljósgjafinn er svo verktaki hjá Símanum við tengingarnar. Þetta er leyst á mismunandi hátt eftir aðstæðum á hverjum stað. Tengingin sem við fengum er svo kallað 3G samband. Til þess að það virki þarf að vera sjónlína að sendistað, sem er í okkar tilfelli á Björgum og svo er sett upp greiða á húsið til að taka við merkinu og frá henni er leitt með kapli í router inn í hús. Þetta er búið að standa í stappi að fá þetta hingað, það eru röskir 2 mánuðir síðan tengt var á aðra bæi hér í nágrenninu. Síminn ætlaði að leysa þetta með gervihnatta lausn, en mér geðjaðist aldrei að því og á endanum gat ég með því að hafa oft sinnis samband við Fjarskiptasjóð komið þeim í skilning um að sjónlína væri að Björgum, þannig að hægt væri að nota 3G. Það má því segja eins og maðurinn "með harðneskjunni hefur maður það" þannig að loksins er þetta komið í lag.

    17. des. 2009

Kaldbakur
  Þessa fallegu mynd tók ég í dag, þegar við Sigrún vorum á leið til Akureyrar. Þarna gnæfir Kaldbakur austan Eyjafjarðar, baðaður skammdegissólinni og höfuðbólið Möðruvellir í Hörgárdal er í forgrunni myndarinnar. Þvílík fegurð sem getur blasað við manni.


    16. des. 2009

Við Gestur að hornskella hrútinn Leif  Eitt af því, sem þarf að fylgjast með eru hornin á hrútunum, að þau vaxi ekki inn í hausinn á þeim til skaða. Einnig geta hornin orðið hættuleg mönnum og skepnum, t.d. ánum á fengitíma, ef hrútarnir eru illir og berja frá sér.
  Skemmst er að minnast hvernig sumir útigönguhrútarnir í Tálkna voru útleiknir eftir eigin hornavöxt, þar höfðu hornin  vaxið svo í hausa þeirra að þeir voru sumir nánast orðnir blindir. Ef hornin fá að vaxa óáreitt leiðir það til dauða fyrr eða síðar. Það er því ótrúlegt að til sé fólk, sem vill láta útigönguféð í Tálkna vera þar í friði svo það geti þjáðst þar án afskipta.

Bergærnar á heimleið  Bergærnar voru reknar heim í dag og settir svampar í þær til að stilla saman gangmál þeirra. Þetta var síðasta svampaísetningin á þessum vetri. Eins og sjá má á myndinni er bjart og fagurt veður og nánast snjólaust á láglendi, en skaflar í giljum til fjalla.










    15. des. 2009

Ullarflutninga bílinn  Ullin var sótt í dag: 1.110 kg. sem við áttum og 153 kg. frá Gesti. Það er nýr aðili sem sér um ullarflutninginn úr Eyjafirði að þessu sinni. Hann heitir Sigurður Magnússon og er frá Hnjúki í Vatnsdal. Þetta gekk ágætlega, enda aðstæður eins góðar og þær geta verið, alauður vegur og veðurstilla og hiti ögn yfir  frostmarki.





 


    13. des. 2009

Búið til prentunar  Jólin nálgast óðfluga og eitt af föstum athöfnum jólaföstunnar er að skrifa á jólakortin. Ég prenta á umslögin nöfn og heimilisföng auk smá skreytinga á þau. Á myndinni er verið að búa þau til prentunar...










Jólumslögin koma úr prentun  ...og svo koma þau skreytt og fín úr prentuninni...













.

Setið við að skrifa á jólakortin ...og svo er bara að setjast niður og eiga góða stund við að skrifa á jólakortin til frændfólks og vina. Í einstaka tilfelli eru þetta kannski einu samskiptin á árinu, enda fólk búsett víðsvegar á landinu og jafn vel erlendis.










    12. des. 2009     

Jólasveinninn á leið til byggða

  Í nótt kom Stekkjastaur til byggða fyrstur þeirra 13 bræðra, sem eru kenndir við jólin.
  Hér má sjá myndir af sveinka, sem teknar voru á jólaföstu 2007.


    11. des. 2009

Úr myndasafni frá 28.12.2007  Þessa dagana eru sauðfjársæðingar í fullum gangi. Ég held að hægt sé að segja með nokkurri  vissu að aldrei hefur verið jafn mikið hrútaval á sæðingastöðvunum, þar á ég einkum við að nú eru að mínu mati fleiri alhliða hrútar þar inni, það eru hrútar sem eru bæði líklegir til að gefa kostamikil lömb og góðar dætur til afurða.
  Ég sæddi hér í dag 27 ær, með hrútum eins og Kveik, At, Grábotna, Sokka, Borða, Bolla og Skrauta. Óvíst er um árangurinn, þar sem dróst að sæðið kæmi norður yfir heiðar með flugi sökum hvassviðris í Reykjavík. 

   8. des. 2009

Illa svellaður vegur  Við brugðum okkur í bæinn í dag, þrátt fyrir að hér fremst í dalnum sé alveg glóandi hálka eins og sjá má á myndinni, en þetta slapp til og við komumst heim aftur heilu og höldnu.
  Auk venjulegra innkaupa skruppum við aðeins í heimsókn til Ingu og Sævars, það var gaman að líta til þeirra, þau voru búin að skreyta og orðið jólalegt hjá þeim.

 

 

Komið út fyrir Flögu  Þegar kom út fyrir Flögu voru kantarnir orðnir auðir á veginum, því ekki eins mikil skaðræðis hálka.

 

 

 

 

 

Vegurinn orðinn auður  Þessi mynd var tekin rétt norðan við Skuggabrúna, þar var vegurinn orðinn alauður og hálkulaus. Á Akureyri var hins vegar lúmsk hálka, þar sem hafði fryst á blautar götur.

 

 

 

 

 

    6. des. 2009

Jólakaktus  Það styttist óðum í jólin og frúin er önnum kafin við að undirbúa komu þeirra innanbæjar og Jólakaktusinn byrjaður að springa út.

 

 

 

 

    5. des. 2009

Mótvægi við hollustuna  Það var ýmislegt gert í dag: Gengið var frá ullinni svo hún er tilbúin. Sá sem sér um að flytja hana, var búinn að ætla að koma og taka hana 9. eða 10. des., en er nú búinn að fresta því til 15. des.
  Sett voru fullorðinsnúmer í lömbin og svo voru settir svampar í allar ærnar í Flögu. 
  Gestur fór svo í kvöld, hann ætlaði í keilu og bjórdrykkju með félögum sínum, sem hann er með í fótbolta á sunnudagskveldum. Það verður jú að hafa ballans á líferninu!!!

 

    4. des. 2009

Gestur að rýja  Við Gestur kláruðum að rýja í dag, eða hann að rýja og ég að draga ærnar að honum og setja ullina í poka, vigta þá og merkja. Rúnar voru 206 ær og 10 hrútar, nokkuð er reyndar síðan þeir voru rúnir, eins og komið hefur fram hér á síðunni. Það er mikið gott að þetta er frá og vonandi að það verði nokkuð milt veður næstu daga þannig að nægur hiti verði í fjárhúsunum. Að mínu mati þarf hitinn helst að vera 12-14° fyrst eftir rúninginn, svo að fénu líði bærilega og svo þarf að gefa því vel af góðri töðu.




   3. des. 2009

Vinirnir Lappi og Hjalti  Í dag á hann Hjalti okkar afmæli og sendum við honum okkar bestu óskir um góðan afmælisdag. Kveðjunni fylgir þessi mynd af Hjalta og hans góða vini Lappa, sem tekin var í jólafríinu hans fyrir tveimur árum. Myndin er tekin niður í hlöðu í pásu milli gjafa.
  Þess má svo geta að í gær var hér hálfgerð stórhríð og setti niður þó nokkurn snjó og var færð farin að spillast hérna fremst í dalnum. Í dag var hins vegar rólegheita veður og hiti um og rétt yfir frostmarki.
  Gestur er að rýja ærnar þessa dagana og er stefnt að því að klára það á morgun.

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108224
Samtals gestir: 24359
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar