Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir sept. 2009

   26. sept. 2009

Haugsuguvinna  Það er nú að verða ansi vetrarlegt. Í morgun var hér alhvít jörð, en snjóinn tók að mestu upp af láglendi þegar á daginn leið. Við vorum að byrja að taka skítinn út úr lambhúsinu, sem er eitt af hinum hefðbundnu haustverkum og er nánast nauðsynlegt að hafa þokkalega tíð á meðan, því það er varla framkvæmanlegt að fást við þetta í frosti. Okkur var svo boðið í afmæliskaffi hérna í norður endann, þar sem Sigurður bróðir á afmæli í dag. Tómas Leonard kom í dag og ætlar að gista hjá ömmu og afa í nótt.



   24. sept. 2009

   Í kvöld fór ég út í Kjarna að stiga þau lömb hjá Davíð bónda, sem til greina koma sem líflömb. Það var gaman að skoða þennan fallega lambahóp hjá honum, en svolítil nýbreytni fyrir mig, þar sem þetta voru nánast allt kollótt lömb,

   23. sept. 2009

Bílaviðskiptin handsöluð  Eftir að við höfðum rekið féð inn og aðskilið ær og lömb og sett ærnar aftur fram í hólf en lömbin út í Flögu, brugðum við hjónakornin okkur til Akureyrar. Fórum við á Bílasölu Akureyrar og áttum þar viðskipti við þann ágæta mann og eiganda bílasölunnar Þorstein Ingólfsson. Þannig var nú að bíllinn okkar Jepp Grand Cherokee, sem er búinn að þjóna okkur vel á undanförnum árum, er kominn nokkuð til ára sinna eða rétt um fermingaraldurinn og því ástæða til að fara að fá sér yngri og traustari bíl. Við skiptum því á honum og bíl af gerðinni Ford Explorer Trac 4WD árgerð 2005, ekinn 65000 km.
  Svo er bara að vona að hann reynist okkur vel og verði traust farartæki.

Nýi bílinn í Helgamagrast.  Við komum við í Helgamagrastr. og buðum Sólveigu og Tómasi Leonard í smá bíltúr.














   20. sept. 2009

  Þá eru aðrar göngur afstaðnar. Flögudalurinn var genginn í dag í fremur leiðinlegu veðri skúrum í byggð og slyddu eða snjóéljum til fjalla. Til réttar komu 4 kindur allar héðan, 2 lömb framan af Flögudal og gemlingur með lamb úr Flögukerlingunni hérna megin. Ég held að heimtur séu bara orðnar góðar hér, en það á nú eftir að yfirfara það betur. Það er heldur ekki vitað um annað fé eftir hér á svæðinu, en 2 kindur nánast upp á Háafjallinu við Dranga. Við fáum nú heldur ekki mikið af okkar fé annars staðar, á þessu hausti eru það orðnar 10 kindur, sem er talsvert innan við 1% af fjárstofninum.

   19. sept. 2009

Lagt af stað í aðrar göngur  Í dag voru gengnar aðrar göngur hér fremst í Hörgárdalnum í björtu og fögru haustveðri. Alls fóru 11 manns í göngurnar. Að austanverðu komu 14 kindur, 9 skagfirskar, 3 sem Gestur á og 2 frá Auðnum. Að vestanverðu komu 8 kindur og átti ég þær allar. Það var að vanda mjög hörð glíma við féð að austanverðu einkum við það skagfirska, en þær urðu allar að láta í minni pokann, enda svæðið mjög vel mannað. Við vorum komin heim um kl. 16:30.





Dodda lúður  Stundum heimtist ýmislegt annað í göngum en sá fénaður, sem á að koma af fjalli. Í fyrstu göngum hafði Doddi með sér lúður til að reka ferfættar fjallafálur með lúðrablæstri. Svo illa vildi til að hann týndi honum upp á brún Hörgárdalsheiðar eftir að hafa notað hann á skagfirskar óþekktar skjátur. Þrátt fyrir nokkra leit fann hann lúðurinn ekki aftur. Ég var hinsvegar svo heppinn að ganga beint á lúðurinn í dag, þannig að þrátt fyrir að Doddi eigi enga kind lengur heimti hann af fjalli í dag.




   17. sept. 2009

  Í dag var ég að hjálpa Stefáni Lárusi á Ytri Bægisá 2. Við vorum að gróf velja líflömbin með því að stiga bæði lambhrúta og gimbrar. Hann á margt álitlegra lamba og greinilegt að hjá honum hafa orðið verulegar framfarir í kynbótastarfinu, þau ár sem hann er búinn að búa með sauðfé.


 16. sept. 2009

E 2 dilksskrokkur   Við Sigrún fórum til Blönduóss í dag með Gesti frá Þríhyrningi, þar sem í dag var slátrað 600 lömbum héðan frá Staðarbakka og Gestur átti 35 lömb og eina á. Ferðin gekk ágætlega þrátt fyrir mikla rigningu lengst af. Útkoman var alveg viðunandi: Meðal þunginn var 16,70 kg. sem er tæpum 200 gr. meira en í fyrra. Gerðin reyndist vera 10,24 það er líka ofurlitlu betra en síðastliðið haust. Fitan var 7,66 sem er aðeins meira en hún var haustið 2008. Þetta styður það, sem ég var að álíta á réttardaginn að vænleiki væri í góðu meðallagi, þótt lifandi vigt lambanna gæfi það nú ekki til kynna, þá virðist kjöt % vera með besta móti. Útkoman hjá Gesti var mjög góð, meðalvigt um 18,5 kg. og gerð 10,74 og fita 8,11. Myndin er af skrokk, sem flokkaðist í E 2 reyndar frá haustinu 2008, þar sem ég tók engar myndir í dag.





   14. sept. 2009

Réttarstjórinn Aðalsteinn á Auðnum  Í dag fór ég í Þverárrétt að hjálpa Stefáni Lárusi að draga sitt fé, eins og ég hef gert undanfarin haust. Þetta eru vinnuskipti hjá okkur, hann fer í göngur fyrir mig og ég hjálpa honum svo í fjárragi. Það var blíðu veður framan af degi sól og hlýtt, en tók mjög að hvessa þegar á daginn leið og þykkna í lofti.
  Á myndinni má sjá réttarstjórann Aðalstein á Auðnum, vera að huga að marki á kind, en hann mætti með hálstau í réttina eins og sönnum höfðingja sæmir.




   12. sept. 2009

Skagfirskir gangnamenn á ferð  Í dag var tekin upp sú nýbreytni að 4 skagfirskir gangnamenn komu hingað með hesta sína í kerru og riðu hér fram Hörgárdal til að hefja göngur á Hörgárdalsheiði. Þetta er gert til prufu, þar sem það hefur komið hér fyrir allmargt skagfirskt fé eftir 1. göngur, þótt við höfum talið okkur hreinsa afréttina vel. Það hefur því leikið grunur á því, að fé hafi runnði á undan Skagfirðingum hér norður í dal, þegar þeir hafa riðið norður Hörgárdalsheiðina til að hefja göngur þar. Vonandi að þessi breyting skili einhverjum árangri.



   11. sept. 2009

Sér að Staðarbakkarétt  Þá er þessi réttardagur að kveldi kominn. Hann var ansi blautur en nokkuð hlýtt, um 12° hiti. Réttarstörfin gengu hratt og vel fyrir sig þrátt fyrir bleytuna, hófust með innrekstri laust upp úr kl.10 og þeim var lokið á hádegi. Féð leit nú ekkert alltof vel út rennandi blautt, en þrátt fyrir það held ég að lömbin séu í góðu meðallagi.






Doddi, Sæmundur, Árni, Guðm., Guðjón og Snæbjörn
  Gott er að koma heim til frúarinnar í hangjikjöt og steik eftir réttarstörfin.













Afinn Guðjón pabbinn Snæbjörn og synirnir
Þessir komu í réttirnar í fyrsta skipti í dag. Þetta eru afinn Guðjón, pabbinn Snæbjörn og synirnir Kristófer Breki og Alexander Brimar. Þeir stuttu voru áhugasamir í réttinni og eru álitlegir smalar framtíðarinnar.









   10. sept. 2009

Beta og Gestur með lamb á hesti  Þá eru afstaðnar 1. göngur hér. Það gekk bara nokkuð vel í dag. Veður var lengst af bjart og milt, fór þó að rigna skömmu áður en búið var að koma fénu í réttarhólfið, laust fyrir kl.18:30. Það voru um 20 manns í göngunum og eins og vanalega harðsnúið lið, sem hefur það mottó öðru fremur að ná því fé sem sést, þótt það kosti marga svitadropa og auman skrokk, þegar heim er komið. Þannig eiga líka góðir gangnamenn að vera. Þökk sé þeim fyrir þessa nokkuð erfiðu en skemmtilegu daga á fjöllum. Davíð í Kjarna, sem gekk hér báða dagana var með staðsetningartæki með sér, þannig að hann gat mælt þá vegalengd sem hann gekk og reyndust það vera um 45 km. og hann fór vel yfir 1000m þar sem hæst hann fór. Á myndinni eru Beta og Gestur að koma með lamb, sem þau þurftu að reiða á hesti framan fyrir Svínamýrar og út undur Sandá.
Hér má sjá fleiri myndir frá deginum.   

9. sept. 2009

Siggi Sæm, Anton, Stefán L og Gestur  Í dag var gengið að austanverðu. Ágætis veður var framan af degi, fremur hlýtt og bjart, en síðdegis gerði dálitla skúri einkum var ein væn demba. Við höfðum hörku gangnaliði á að skipa þannig að þar var valinn maður í hverju rúmi. Göngurnar gengu nokkuð vel þrátt fyrir að fé væri óvenju framarlega, það fremsta alveg upp  undir Hjaltadalsheiði. Komið var heim með safnið og búið að rétta það kl.17:45. Á myndinni má sjá gangnamenn komna fram á Háaleiti, en þar endar vegarslóðinn og er þar mönnum raðað á gangnasvæðið þótt enn sé langt fram í Hörgárdalsbotn, þangað sem sumir fara ríðandi en aðrir fótgangandi. Fjöllin að baki gangnamannanna eru: Sandárhnjúkur sem gnæfir hæst, en í fjarska eru það Illviðrahnjúkur og Prestsfjall með Afglapaskarð sín á milli. Upp að þeim þurfa efstu menn að fara. Á morgun verur svo genginn Hörgárdalurinn að vestan og Flögudalur. Vonandi að veðrið verði gott.
Hér má sjá fleiri myndir frá deginum

Gauti Heimir  Þá er hann Gauti Heimir orðinn 9 ára. Hann fæddist á afmælisdaginn hennar Guðlaugar langömmu sinnar árið 2000. Ekki förum við nú í afmælið hans, enda er hann búsettur í Slagelse í Danmörku og við í gangnastússi upp á Íslandi. Hann kom hins vegar í heimsókn til Íslands í sumar ásamt móður sinni og systkinum (bæði fæddum og ófæddum) og þá var þessi mynd tekin af honum. Amma og afi senda honum sínar bestu afmæliskveðju til Danaveldis með ósk um að honum farnist þar sem annars staðar alltaf sem best.



    8. sept. 2009

Home
  Í dag fór ég á stjórnarfund hjá SAH á Blönduósi. Aðalmál fundarins var að ákveða endanlega það verð, sem félagið ætlar að greiða bændum fyrir sauðfjárafurðirnar í haust. Niðurstaðan varð sú að greiða sama verð nú í haust fyrir allt dilkakjöt og greitt var í fyrra haust fyrir kjöt á innanlandsmarkað. Þetta jafngildir ríflega 9% hækkun á verði til bænda milli ára. Smávægileg lækkun verður hinsvegar á verði kjöts af fullorðnu. Innlegg verður greitt út á föstudegi eftir innleggsviku svo sem verið hefur undanfarin ár. Í heildina er þetta nánast sama niðurstaða og hjá öðrum sláturleyfishöfum í landinu nú í haust, en þeir hafa nú allir birt sín verð og má sjá þau á heimasíðum fyrirtækjanna.

Heimtökukostnaður verður kr. 2.035 á dilk og kr. 2.260 á fullorðið fé. Báðar upphæðir eru án vsk.
Heimtökukostnaður á heimtöku umfram 240 kg. á lögbýli verður kr. 190 á kg. án vsk.

Hér að neðan er verðtaflan SAH Afurða ehf., en birt með fyrirvara um prentvillur:

Fitu fl.

1

2

3

3+

4

5

DE

492

492

475

421

306

283

DU

478

483

461

419

303

280

DR

443

459

431

361

280

270

DO

377

441

360

330

274

270

DP

335

335

 

 

 

 

VR

 

 

292

 

255

 

VP

 

210

 

 

 

 

VHR

 

 

77

 

60

 

VHP

 

95

 

 

 

 

FR

 

 

110

 

53

 

FP

 

50

 

 

 

 




    5. sept. 2009

Tómas Leonard 2 ára  Í dag er hann Tómas Leonard orðinn tveggja ára. Hann hélt upp á afmælið sitt heima hjá sér í Helgamagrastr. og bauð til sín um 30 manns, en af því urðu nú nokkur afföll vegna veikinda og annars.
 Amma hans og afi komu að sjálfsögðu fyrst í veisluna og fóru lang síðust. Amma færði honum lika tertur og kökur í veisluna, en þetta var bæði pitzu og kaffi veisla.
  Við amma óskum þessum litla kút til hamingju með áfangann og óskum honum Guðs blessunar um öll hin ókomnu ár.
Hér má sjá fleiri myndir úr afmælinu.

    3. sept. 2009

Gylfi, Bjarni E, GTS og Þórður   Við brugðum okkur í Leikhúsið á Möðruvöllum í kvöld. Þar var fyrsti viðburður haustsins í Leikhúsinu og síðan rekur hver viðburðurinn annan á hálfsmánaðar fresti þangað til í lok nóvember.
  Í kvöld var það Þórður Steindórsson, Doddi í Þríhyrningi, sem sagði nokkrar lífsreynslusögur. Góð frásagnargáfa Dodda er þekkt meðal þeirra sem hann þekkja og hefur hann  skrifað a.m.k. þrjár skemmtilegar frásagnir í Heimaslóð, sem er árbók hreppanna í Möðruvallaklaustursprestakalli.
  Það er skemmst frá að segja, að aðsókn var meiri en áður hefur sést á þessum viðburðakvöldum í Leikhúsinu, eða rétt um 120 manns.  Doddi gerði þar skömm til ýmsum fræðimönnum og spekingum, sem þarna hafa verið með erindi eða frásagnir, því aðsóknarmetið var áður  55 og oftast hafa mætt á milli 15 og 40 manns. En það kom upp babb í bátinn því þetta litla gamla Leikhús, sem var gert upp fyrir örfáum árum rúmaði ekki þennan mannfjölda, þannig að það var gripið til þess ráðs að færa þetta í sjálfa Möðruvallakirkju. Á eftir var svo boðið upp á kaffi í Leikkúsinu, en það er á tveimur hæðum og rúmar því þennan fjölda í kaffi.
  Bjarni E Guðleifsson setti viðburðinn. Doddi var svo með frásagnir af skrítnum og skondnum uppákomum í lífi sínu. Einnig lásum við séra Gylfi á Möðruvöllum upp úr þeim frásögnum sem hafa birst í Heimaslóð eftir Dodda.
  Ég held að mér sé óhætt  að fullyrða að allir, sem komu í Möðruvelli í kvöld hafi farið með bros á vör eftir einkar skemmtilega kvöldstund þar með Dodda. Hafi hann þökk fyrir að auðga tilveruna með græskulausu gamni sínu, sem aldrei særir nokkurn mann.

Sólveig Lilja   Í dag er hún Sólveig Lilja frænka mín orðin 6 ára, sem þýðir að  hún er komin á löggildann skóla aldur. Það er nú meira hvað tíminn líður hratt.
  Við sendum henni okkar bestu afmæliskveðju og vonum að henni gangi vel í skólanum og þegar fram líða stundir í lífsins skóla.
  Myndin er af henni þegar hún varð 5 ára.




 

    2. sept. 2009

Tómas Leonard og Brussa   Tómas Leonard er búinn að vera hjá okkur síðan á sunnudag og hefur brallað ýmislegt. Á myndinni er hann að leika við Brussu sína. Hann er með kvef og smá hitavellu þannig að hann hefur orðið að vera innan dyra að mestu leyti og er ekki alveg sáttur við það. Vill fara út og skoða traktorana og helst að þeir séu keyrðir eitthvað líka, það er aðal áhugamálið. Í kvöld kom svo mamma hans að sækja hann.
Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108224
Samtals gestir: 24359
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar