Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir ágúst 2009

   31. ágúst 2009

Óbyggðanefnd á ferð   Í dag var óbyggðanefnd hér á ferð ásamt lögfræðingastóði, alls um ½ annar tugur manna og kvenna. Þau voru að hefja yfirreið sína um norðanverðan Tröllaskaga, einkum til að kanna landamerki að því svæði, sem gerð er krafa til af hálfu ríkisins. Hér er það svokallaður Möðruvallaafréttur, sem gerð er krafa í og fórum við bræður með í þessari fjallarútu, hér fram á dal til að sýna þeim landamerkin, en við eigum land að afréttinni beggja vegna Hörgár og svo eigum við Flögudalinn, en mörkin við hann eru á fjallsbrúnum að mestu.
  Það er nú meiri vitleysan að eyða fjármunum í þetta, þegar nóg er með alla tiltæka fjármuni að gera í kreppunni. Það kom nú reyndar fram hjá fulltrúa fjármálaráðuneytisins í þessari ferð, að búið sé að taka ákvörðun um frestun frekari þjóðlendukrafna og ekki verði  nýjar kröfur gerðar fyrr en í fyrsta lagi 2012.


  30. ágúst 2009 
     ´49 sex !emoticon

  Það var aldeilis útstáelsið á okkur í gærkveldi og nótt. Svo var mál með vexti að árgangurinn hennar Sigrúnar, sem er fæddur rétt fyrir miðja síðustu öld kom saman í Sjallanum til að fagna því að ná á þessu ári þeim merka áfanga að fylla sex tugi í aldri. Við byrjuðum á því að fara til Rögnu Kristjáns vinkonu okkar, sem er einmitt af þessum árgangi og bauð hún upp á snafs áður en við skunduðum í Sjallann. Þar var fyrst fordrykkur og svo hátíðarkvöldverður. Undir borðum framreiddu ýmsir úr árganginum margskonar skemmtiatriði, þar sem mest bar á söng og bröndurum. Veislustjóri var einn módel ´49 Gísli Sigurgeirsson, stundum kallaður "ljósastaur". Að lokum var svo stiginn dans fram undir morgun undir hljóðfæraslætti ýmissa, sem gerðu garðinn frægan á gullaldarárum Sjallans.  Má þar til að mynda  nefna:  Helenu Eyjólfs, Grím Sig., Billa Halls og Kidda Guðmunds, Árna Ketil, Baldvin Ring, Bjarka Jóhannesson o.fl. o.fl. Þetta var sem sé Sjallaball eins og þau gerðust best um 1970, nema hvað fólkið á dansgólfinu hafði bætt við sig fjórum áratugum og hárin farin að silfurlitast og sumir gæarnir hafa nú reyndar misst þau öll. En það var mál manna að þeir hefðu yngst upp um að minnsta kosti 40 ár í nótt, en því miður sækir nú víst í sama farið fljótlega aftur hvað aldurinn snertir. Ragna bauð okkur svo gistingu að afloknu ballinu og var það eins og að vera á fimm stjörnu hóteli og svo reiddi hún fram flottasta morgunverð, loksins þegar næturgestirnir dröttuðust á fætur.  Þetta var allt saman alveg frábært og hafi þessir gamlingjar mína bestu þökk fyrir ágæta síðsumarsnótt. Af tillitssemi við þetta aldraða fólk eru ekki birtar myndir af því hér.

  emoticon Sjáumst svo hress miðað við aldur í Hlíð að 10 árum liðnum!!!


   23. ágúst 2009

Heyskaparlok 2009  Þá er heyskap lokið þetta sumarið. Síðasta háin var slegin í dag, henni rakað saman og hún rúlluð án þess að snúa henni, þar sem það er heldur úrkomuleg spá fyrir næstu daga. Við byrjuðum háarsláttinn á sunnudaginn fyrir viku síðan, en það var mjög skúrasamt fram um miðja vikuna þannig að  þetta fór ekkert að ganga fyrr en síðari hluta vikunnar. Alls slógum við upp um 28 ha. af þeim fengust 117 rúllur, eða um 4,2 rúllur af hektara að meðaltali, sem er alveg þokkalegt ekki síst þar sem ekkert var borið á milli slátta. Eftir sumarið erum við ágætlega byrg með hey fyrir veturinn og gæðin ættu að vera í góðu meðallagi. 


   22. ágúst 2009

Tómas Leonard og Siggi á hestbaki
  Í dag var komin sól og blíða og Tómas Leonard brá sér í sinn fyrsta reiðtúr með Sigga á henni Skvettu og Króna trítlar á eftir.

   21. ágúst 2009

Gránar í fjöll  Í morgun var augljóst að haustið er á næsta leiti. Þegar litið var til fjallanna voru þau orðin grá og gekk á með éljum þar og ekki var laust við að það sliti úr honum hvít korn hér heima.











Stefán, Helgi, Guðm. og Aðalsteinn  Annað sem minnir á að sumri hallar og hausta fer, er að í kvöld kom fjallskilanefnd Hörgárbyggðar ásamt oddvitanum, saman til fundar hér á Staðarbakka, til að jafna niður gangnadagsverkum fyrir komandi göngur, ásamt öðru sem tilheyrir störfum nefndarinnar fyrir haustið. Við gengum frá fjallskilaboðum fyrir allar þrjár fjallskiladeildir sveitarfélagsins, þannig að þau eru tilbúin til útsendingar til sauðfjáreigenda.




   16. ágúst 2009

Ég, Tómas Leonard og Jón Birgir  Tómas Leonard og mamma hans komu í heimsókn í gærkveldi og gistu í nótt. Hann var svo að hjálpa afa sínum að steypa tröppu í dag (eða þannig) eins og sést á myndinni. Allavega kláraðist að steypa í dag. Það tókst ekki í gær þar sem ég breikkaði neðri tröppuna og þurfti því að grafa fyrir henni að hluta. En nú eru þær búnar og duga vonandi næstu 70 árin.





   14. ágúst 2009

Ég sjálfur að steypa efri tröppuna  Það er búið að vera óþurrkasamt undanfarið, þannig að háarsláttur er ekki hafinn hér á bæ. Það kemur svo sem ekki að sök þar sem spretta er frekar lítil.
  En eithvað verður maður að hafast að, þannig að ég rauk í að mölva niður útidyratröppurnar og steypa þær upp aftur. Það var reyndar engin vanþörf á því, þær orðnar um 70 ára og orðnar ansi lúnar.




   13. ágúst 2009

Sara Hrönn Viðarsdóttir  Sara Hrönn kom í heimsókn í dag, hún var að sækja gamla sjónvarpið hennar Sólveigar Elínar, sem hún er að fá hjá henni, til að nota það í íbúðinni á Hvanneyri, þar sem hún er að hefja nám í Landbúnaðarháskólanum í haust. Sara fagnar reyndar aldarfjórðungsafmælinu í dag og er full ástæða til að óska henni til lukku með það.



  Í morgun kom hér Auður Ingimarsdóttir á vegum Orkustofnunnar. Hún bað mig að fara með sér fram í Laugareyri, þar sem hún svo tók sýni af heita vatninu. Þetta er gert á 5 ára fresti til að fylgjast með hvort einhverjar breytingar verða á efnasamsetningu vatnsins. Þess má geta að Auður er ættuð héðan úr sveit. Faðir hennar Ingimar Friðfinnsson frá Baugaseli og móðir hennar Guðný Skaftadóttir frá Gerði.

    12. ágúst 2009

3G lykill tekinn í notkun  Það hefur lítið farið fyrir færslum hér inn á heimasíðuna undanfarna daga. Ástæðan er sú að nettengingin sem við höfum frá símanum, sem er ISDNplús bilaði og hefur ekki fengist viðgerð þrátt fyrir ítrekaðar hringingar í bilanaþjónustu Símans. Við brugðum okkur til Akureyrar í dag og fórum í verslun Símans  á Glerártorgi til að kvarta, þar var okkur boðið upp á að prófa að nota 3G samband, sem er miklu hraðvirkari tenging en ISDNplús og þar að auki til muna ódýrari. Það var nokkuð óvíst að 3G sambandið næðist hér. Við fengum til prufu 3G lykil, sem er lítið apparat sem stungið er í USB tengi á tölvu. Fórum við nokkuð spennt heim til að prufa hvort við værum loksins að komast í nothæft netsamband. Reyndin varð svo sú að það er hægt að ná þokkalegu sambandi út í einstaka glugga, en lang víðast í íbúðinni er það ekkert, en það á að standa til bóta þegar langdrægt 3G verður tekið í notkun, vonandi mjög fljótlega. Þannig er nú þetta og við getum nú farið að setja aftur inn á heimasíðuna og reynum þá að fylla aðeins í þennan tíma sem sambandsleysið hefur varað.

Katrín Valdís Arnarsdóttir
emoticon  Þá eru nú liðin hvorki meira né minna en 12 ár síðan lítil stúlka fæddist í þennan heim og hlaut síðar hin ágætu nöfn Katrín Valdís og það á afmælisdaginn hans afa síns þann 21. okt. 1997. Nú er daman búsett í Slagelse, í sjálfu Danaveldi. Amma og afi senda henni ástarkveðjur á afmælisdaginn og óska henni gæfu og Guðs blessunar. Meðfylgjandi mynd var tekin núna í júlí þegar hún var í heimsókn á Íslandi og er þarna við sína uppáhalds iðju, sem er að teikna og lita. emoticon

   11. ágúst 2009

Auk mín Bjarnheiður og Björn   Við fengum ágæta heimsókn í dag, þegar hjónin á Melum í Árneshreppi, þau Bjarnheiður Júlía Fossdal og Björn Torfason komu. Þegar við vorum á ferð í Árneshreppnum 2004, heimsóttum við þessi heiðurshjón á Melum. Þá buðum við þeim að koma í heimsókn,  þegar þau yrðu hér á ferð, sem og þau gerðu nú. Þau hjón eru landsþekkt fyrir framúrskarandi árangur í sauðfjárrækt. Það var einkar gaman að fá þau í heimsókn og spjalla við þau um sauðfjárræktina og ýmislegt annað er varðar landsins gagn og nauðsynjar.




    9. ágúst 2009

Gönguhópurinn við Grjótárgil  Í dag lauk gönguviku Ferðafélagsins Hörgs, sem að þessu sinni beindist að því að skoða áhugaverð gil flest á félagssvæðinu. Þátttaka var nokkuð góð eða frá 8 manns og uppí 40 í einstökum göngum. Fyrstu fjóra dagana voru þetta kvöldgöngur. Safnast var saman við Þelamerkurskóla kl. 17 og ekið að göngustað. Fyrsta kvöldið voru skoðuð Fossárgil og Krossastaðagil á Þelamörk. Annað kvöldið var það Bægisárgil. Það þriðja voru það Gloppugil og Gilsgil í Öxnadal. Síðasta kvöldið voru svo skoðuð Syðra- og Ytra-Tungugil í Hörgárdal. Í gær og í dag voru þetta svo göngur að deginum til og lagt af stað frá Þelamerkurskóla kl. 10. Á laugardaginn var farið aðeins út fyrir félagssvæðið, þegar skoðuð voru Kotárgil og Bólugil í Norðurárdal í Skagafirði. Gönguvikunni lauk svo í dag með því að skoðuð voru Grjótárgil hér framan við og Myrkárgil. Eins og góðum formanni sæmir fór Bjarni E Guðleifsson í allar göngurnar og var hann sá eini sem það gerði, en það voru einhverjir sem fóru í þær flestar. Ég held að það hafi sýnt sig að það var góð ákvörðun hjá okkur í stjórn Ferðafélagsins Hörgs að koma þessum giljagöngum í framkvæmd. Nokkrar myndir teknar í og við Grjótárgil í dag má sjá hér:  

8. ágúst 2009

Gunnar, Gylfi og Bryndís Sóley  Í dag fórum við í fermingarveislu Bryndísar Sóleyjar Gunnarsdóttur í Búðarnesi. Hún var fermd í Bægisárkirkju kl. 13 í dag og á eftir bauð hún og foreldrarnir til veislu á Melum. Þetta var ljómandi vel lukkað, boðið var fyrst upp á margréttaðan veislumat og kaffi á eftir. Einnig voru skemmtiatriði, svo sem söngur, upplestur og hljóðfærasláttur. Meðal annars söng Bryndís Sóley nokkur lög við undirleik sr. Gylfa Jónssonar. Meðfylgjandi mynd var tekin af þeim, einnig er á myndinni Gunnar faðir fermingarbarnsins.
Hér má sjá fleiri myndir.
  Ég vill vekja sérstaka athygli á myndum af fermingartertunni, kransakökunni og gestabókinni, allt var þetta unnið og skreytt af Doris móður Bryndísar Sóleyjar.

Hreinn og Gréta   Eftir fermingarveisluna skruppum við fram í Gloppu í heimsókn til Hreins og Grétu á Auðnum.
  Þau hafa komið sér upp litlu sætu sumahúsi í Gloppu, einnig eru börn þeirra flest með einhverskonar sumarafdrep þar. Það var virkilega gaman að heimsækja þau og skoða þetta krúttlega hús þeirra og eiga með þeim ánægjulega aftanstund.





    6. ágúst 2009

Eyfirðingar á vélfákum að leggja íann  Í dag kom hér hópur eyfirskra vélfákamanna og þeystu þeir fram á afrétt. Þeir létu vel af ferðinni og fullyrtu að þeir hefðu ekki unnið nein spjöll með vélfákum sínum.











    2. ágúst 2009

Tómas Leonard í blómagarðinum  Eftir ágætan nætursvefn hjá ömmu og afa s.l. nótt, brá Tómas Leonard á leik í blómagarðinum íklæddur þessari ljómandi fallegu peysu, sem Guðrún langamma hans á Egilsstöðum prjónaði og gaf honum.












    1. ágúst 2009

Tómas Leonard sefur hjá afa og ömmu   Þá er júlí mánuður á enda runninn og ágúst genginn í garð. Eftir fremur sólríka og þurra tíð fram eftir júlí mánuði, var síðasta vika hans þokusöm og blaut með heldur köldum norðan næðingi, í sjálfu sér var ágætt að fá bleytuna, enda gróður farinn að brenna, þar sem hann er viðkvæmur gagnvart þurrki.
  Í nótt gisti Tómas Leonard hjá afa og ömmu í sveitinni, hann var ósköp þægur og góður og sofnaði loks, þegar afi hans var búinn að syngja fyrir hann flest öll lög sem hann kunni. Mamma hans fór að líta á lífið á "Halló Akureyri"
Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar