Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir maí 2009

    31. maí 2009

Hvíldartími  Enginn tími hefur fundist undanfarið til að setja inn á heimasíðuna, enda sauðburðurinn á fullu. Í gær bar síðasta ærin í Flögu, en það eru enn eftir hér heima rúmar fjörutíu ær. Veður hefur verið heldur leiðinlegt síðustu dagana, belgingsöm suðvestan átt skúrasöm og í gær rigndi gríðarlega mikið þannig að það fór bókstaflega allt á flot.
  Gott veður var í dag, þannig að það var hægt að setja talsvert út af lambfé og þar á meðal þessi fjögur sem sváfu sætt inní fjárhúsum í gær.


    17. maí 2009

Doddi að reka hrútana fram í hóld  Doddi var aftur hjá okkur núna um helgina, að hjálpa okkur. Á myndinni má sjá hann vera að reka hrútana fram í hólf til sumardvalar. Burðurinn er rétt að byrja hér heima, en í Flögu eru allar lambærnar komnar út og hafa þar frjálsan aðgang að rúllum þannig að það þarf nú lítið fyrir þeim að hafa, nema líta aðeins til þeirra og fylgjast með að allt sé í lagi.




    11. maí 2009

Brói með okkur í nestisstund í Flögufjárhúsunum  Nú er dvalið mest allan sólarhringinn í Flögufjárhúsunum og þá verður að hafa þar nestisstund til að fá smá orku svo hægt sé að halda áfram að taka á móti lömbum, auk alls annars sem þarf að gera.
  Tíðarfarið hefur nú breyst til hins betra, komnar suðlægar áttir og hefur hlýnað verulega, en það er leiðinda belgingur. Fyrstu lambærnar voru settar út í Flögu í dag, en þær hafa allar borið inni þetta árið, það mun vera í fyrsta skipti sem það gerist síðan 1998 þegar við vorum fyrst með sauðburð þar.
  Við höfum haft góða hjálp í skítviðrinu um helgina. Doddi og Brói komu á föstudagskvöldi, Doddi fór svo á sunnudagskvöldið, en Brói ætlar að vera fram á miðvikudag.
 Korga með lömbin sín
  Sjálfur burðurinn hefur gengið þokkalega þótt alltaf þurfi að hjálpa hluta af ánum, þegar lömbin bera ekki rétt að. Ég gef öllum lömbunum AB mjólk nýfæddum og hefur það alveg komið í veg fyrir sjúkdóma svo sem "slefuveiki".
  Engar töflur eður önnur lyf hafa farið í lömbin.







    8. maí 2009

Bangsi, Tryggur og Brussa í ógeðslegu vorveðri  Ekki var nú gæfulegt að koma út í vormorguninn í dag, alhvít jörð og slydduhríð. Sannaðist þá máltækið "að hundi sé ekki út sigandi", enda voru þeir að hugsa um, þegar þeim var hleypt út að snúa til baka og koma sér aftur inn í hlýjuna. Bragð er að þá hundur finnur fyrir vorhretinu!





 
 Flöguærnar í krepjunni
  Og hér má sjá hluta af Flöguánum, þær taka lífinu með ró eins og sjá má þrátt fyrir veðrið, þótt þær sé nú alveg komnar á "steypinn".












    7. maí 2009

Lambakóngur og prins í Flögu 2009  Þá er sauðburðurinn hafinn enn eitt árið. Hann hófst með því að í Flögu fæddust lambakóngur og prins í dag, kóngurinn úti í krapahríð en prinsinn ekki fyrr en móðir og bróðir voru kominn inn úr vorhretinu. Það var sem sagt vorhret í dag slydduhríð fram um hádegi, en stytti þá upp að mestu og tók þá upp krapann sem kominn var í byggð, en hvítt er niður í miðjar hlíðar. 
  Anton var hjá mér í dag og vorum við að leggja lokahönd á að gera klárt fyrir sauðburðinn í Flögu, hann að hreinsa undan grindum, þar sem var að verða fullt og ég að koma brynningunni í lag fyrir lambærnar. Það eru jú mörg handtökin við sauðburðinn og undirbúning hans.

    3. maí 2009

Kristjana og Jósavin með soninn Hrein Heiðmann  Í dag komu Kristjana og Jósavin (Brói) í heimsókn með frumburðinn sinn hann Hrein Heiðmann, sem er nú orðinn röskra 7 mánaða gamall og er hress og kátur eins og sjá má á myndinni.

 

 

 

    2. maí 2009

Forsíða leikskrárinnar  Í kvöld brugðum við hjónakornin okkur í leikhúsið, að sjá leiksýninguna "Stundum og stundum ekki", sem Leikfélag Hörgdæla hefur verið að sýna á Melum frá því í byrjun mars við fádæma aðsókn og vinsældir. Þetta var 25. sýningin og var hún auglýst sem sú allra síðasta. Uppselt hefur verið á nánast allar sýningarnar. Þetta er sýningarmet hjá þessu gamalgróna leikfélagi og þar af leiðandi var líka slegið fyrra met í gestafjölda, sem eru nú komnir nokkuð á þriðja þúsund.
  Það er skemmst frá að segja að þetta var hin ágætasta skemmtun, enda eins og flestir vita þá er
"Stundum og stundum ekki" ærslakenndur farsi þó ekki án allrar meiningar, því í honum má líka finna þann brodd að heiðarleiki og vinnusemi séu ekki vænlegir kostir til að ná árangri í lífinu, en um leið og út af þeim er brugðið megi salla á sig vegtiyllum hraðar en hönd á festi. Er það ekki einmitt þannig sem farsinn "Ísland" hefur leikist hjá okkur hin síðari ár? 
  Það var auðséð á sýningunni að þeir sem að henni standa hafa lagt mikinn metnað í hana. Sviðsmyndin var smekkleg og einkar haganlega fyrir komið á litla sviðinu á Melum, þá komust ljós og hljóð vel til skila. Enn er þá ótalið framlag leikaranna, sem eru blanda af reynsluboltum innan félagsins og allt í það að vera nýliðar í uppfærslum þess. Óhætt er að segja að þeir hafi allir staðið sig vel og sumir raunar með ágætum. 
  Hafi Leikfélag Hörgdæla þökk fyrir enn eina uppfærsluna á Melum, þar sem jafnan er aðaltilgangurinn að gleðja áhorfandann. Það tókst svo sannarlega í kvöld enda fagnaði yfirfullur salurinn ákaft að leik loknum í þakklætisskyni fyrir góða kvöldstund. 

    1. maí 2009

Baráttudagur verkalýðsins!
Hér erum við Ólafur Þ Jónsson við kosningamiðstöð VG  Við Sigrún fórum á fund í Stefnu félagi vinstrimanna, sem haldinn var í kosningamiðstöð VG Geislagötu 7 á Akureyri kl. 10:45 í morgun. Þar voru flutt ávörp, lesin upp ljóð, söngur og aðalræðumaður dagsins var Einar Már Guðmundsson rithöfundur. Að beiðni aðalforsvarsmanns þessa félags Ólafs Þ Jónssonar (Óla komma) mætti ég þarna með ljóðasafn Steins Steinarrs og las upp úr því 3 ljóð: Verkamaðurinn, Húsið hrynur og Model. Fullt hús var og góð stemming og kann ég Óla bestu þakkir fyrir að hafa boðið okkur að taka þátt í þessari samkomu. 
  Eftir fundinn litum við inn hjá okkar ágæta vini Dodda frá Þríhyrningi og skoðuðum hans flottu íbúð í Eyrarveginum og þáðum hjá honum kaffi áður en við héldum heimleiðis.

Ólafur Þ Jónsson (Óli kommi)  Þessari ágætu mynd af öðlingnum Ólafi Þ Jónssyni náði ég í dag, þar sem hann situr við fundarstjóraborðið í sínu fínasta pússi með eldrautt bindi eins og vera ber og hinn rauða fána verkalýðsins að baki sér. Er hægt að hafa þetta fullkomnara? 

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar