Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir apríl 2009

    25. apríl 2009

Kjörstjórn Hörgárbyggðar: Sturla, Herborg og Guðmundur  Í dag ganga Íslendingar að kjörborðinu og kjósa til Alþingis, alls 63 þingmenn. Íbúar Hörgárbyggðar neyttu atkvæðisréttar síns í félagsheimilinu Hlíðarbæ. Ég smellti meðfylgjandi mynd af kjörstjórninni um leið og ég kaus.
  Á eftir fórum við í kosningakaffi hjá VG á Akureyri, þar var mjög margt um manninn og fullt út úr dyrum frá hádegi og fram undir kvöld. Við fórum svo í Ránargötuna og tókum þar fyrstu tölur, sem sýna mikla vinstri sveiflu í þessum kosningum, þar sem VG er aðal sigurvegarinn.


Hákon Þór og allir hundarnir á bænum  Þessi ungi maður hefur ekki náð kosningaaldri og fór því ekki á kjörstað í dag. Hinsvegar fór hann á Bergið fyrir afa sinn á meðan hann kaus og gaf beitarhúsaánum, við það naut hann fulltingis allra hundanna á bænum. Já hann Hákon Þór kemur í sveitina nánast allar helgar, afa sínum og ömmu til ánægju og svo njótum við Sigrún líka nærveru hans. Hann er afskaplega duglegur og góður drengur.




    23. apríl 2009 Sumardagurinn fyrsti

Við óskum öllum sem heimsækja heimasíðuna okkar gleðilegs sumars um leið og við biðjum Guð þess að það megi vera gott og gjöfult fyrir land og þjóð.

  Þokkalegasta vorveður var í dag, fremur svalt og rigning annað slagið.
  Við fórum í enn eina fermingarveisluna í dag. Þórdís Jónína Helgadóttir á Syðri Bægisá var fermd í Bægisárkirkju og síðan var boðið til veglergrar fermingarveislu í Hlíðarbæ.

   22. apríl 2009

Matast á Greifanum: Gestur, Guðm., Anna, Tómas og Sólveig  Þá er upprunninn síðasti dagur þessa vetrar, sem hefur um margt verið okkur heldur erfiður þar sem veikindi hafa sett sitt mark á hann, en það lagast vonandi enn frekar með sumri og sól. 
  Veturinn hefur ekki verið illviðrasamur, en nokkur snjór hefur verið einkum núna á útmánuðum, þannig að það er ansi hvítleitt hér enn yfir að líta. 
  Í kvöld brugðum við okkur til kvöldverðar á Greifanum og buðum Gesti Haukssyni, okkar ágætu hjálparhellu í erfiðleikum vetrarins með okkur, auk Sólveigar og Tómasar Leonards svo og Önnu Johnson sópran, sem er í heimsókn hjá þeim mæðginunum í Ránargötunni. Þetta var ágætis tilbreyting frá amstri dagsins. Á eftir fórum við Sigrún ásamt Gesti á kosningafund hjá VG sem haldinn var á efrihæð Greifans og þar með var veturinn nánast á enda runninn.

    19. apríl 2009

  Í dag fórum við í fermingarveislu Sigríðar Jónu Pálsdóttur. Fermt var í Glerárkirkju, en veislan var haldin í Engimýri. Því miður var myndavélin ekki með í för þannig að engar myndir eru til að setja hér inn. Þetta var fjölmenn og flott fermingarveisla.

    18. apríl 2009

Jón Birgir fermdur  Í dag kl. 13:30 var Jón Birgir Tómasson frændi minn fermdur í Glerárkirkju. Við Sigrún fórum í kirkjuna og svo í fermingarveisluna, sem haldin var í Hlíðarbæ, þar sem boðið var upp á  matarveislu og svo "stríðstertukaffi" á eftir.
  Blíðu veður var í dag sól og hlýtt.
  Myndir frá deginum má sjá hér: http://album.123.is/?aid=143598







    17. apríl 2009

Ein af glærum Sigurðar Jóhannessonar á fundinum  Í dag voru aðalfundir Sölufélags Austur Húnvetninga svf. og SAH Afurða ehf., haldnir í húsakynum félaganna á Blönduósi. Ég þurfti að mæta kl. 11 á stjórnarfundi, þar sem við vorum að undirrita reikningana og ræða um framtíðarhorfurnar. Aðalfundirnir hófust svo kl. 13:30.










    14. apríl 2009

Hvað er framundan í sauðfjárræktinni?  Við fórum til Akureyrar í dag. Ég fór á sameiginlegan stjórnarfund hjá Sölufélagi Austur Húnvetninga og SAH Afurðum, sem haldinn var á veitingastaðnum Greifanum á Akureyri.    Við vorum einkum   að fara yfir afkomu ársins 2008, en nú liggur fyrir uppgjör beggja félaganna fyrir síðasta ár. Það þarf ekki að koma á óvart að afkoman var afleit líkt og hjá öðrum fyrirtækjum, enda enginn rekstur hvorki fyrirtækja eða heimila, sem getur þrifist í því umhverfi sem hér hefur ríkt að undanförnu, þar sem gengishrun og ofurvextir hanga yfir öllu eins og hungruð blóðsuga.
  En ekkert kemur annað til greina hjá okkur forsvarsmönnum þessarra félaga, en að standa meðan stætt er og vonandi verður það lengi enn, ef straumþunga vitfyrringar efnahagslífsins fer að lægja með betri stjórnarháttum.  


    12. apríl 2009

Sólveig, Lauren, Hjalti, Tómas og afi saman  Hátíð upprisunnar er gengin í garð. Úti er allt hvítt, kannski má líta á það sem tákn hreinleikans, en meðan svo er fer lítið fyrir upprisu lífs gróðurs jarðar enda er hann enn bundinn undir klakabrynju vetrarins. Gott er því að geta treyst því, að hvorutveggja á sinn upprisutíma, bæði holdið og gróður jarðar.
  Í dag komu og snæddu með okkur páskalambið þau, Sólveig, Lauren, Hjalti og Tómas Leonard, sem var svolítið "doppulegur" og kúrði hjá afa sínum.



Gríma heimilisköttur  Á páskadagsmorgun mátti ætla að Gríma heimilisköttur væri að hugleiða upprisuna, þar sem hún kúrði upp í stiga og horfði yfir stofuna, svo afslöppuð að rófan lafði máttlaus niður á milli rimanna.
  Ja, hver veit hvað hún er að hugsa?











    10 apríl 2009

Bægisárkirkja  Þá er upprunninn föstudagurinn langi. Um nokkurt árabil hefur tíðkast að lesa Passíusálmana í heild sinni í Möðruvallakirkju á þessum degi. Við Sigrún höfum nokkrum sinnum tekið þátt í því. Að loknum lestrinum í fyrra, stakk ég  upp á því við sóknarprestinn Solveigu Láru, hvort ekki kæmi til greina að dreifa lestrinum á allar kirkjur sóknarinnar. Þetta hafði þau áhrif að af þessu varð núna með lestrinum í dag. Lesturinn hófst í Möðruvallakirkju, með því að þar voru lesnir 10 fyrstu sálmarnir. Næstu 10 voru svo lesnir í Glæsibæjarkirkju.  Þá var komið að upplestri í Bægisárkirkju þar sem lesnir voru 10 næstu sálmarnir og svo 10 í Bakkakirkju. Lestrinum lauk svo með því að lesa aftur upp í Möðruvallakirkju, en nú 10 síðustu sálmana . Það er alltaf viss lotning sem fylgir því að taka þátt í þessum upplestri. Algengast er að hver upplesari lesi tvo sálma. Við Sigrún tókum þátt í lestrinum í dag með því að hvort okkar las tvo sálma í Bægisárkirkju. Á eftir fórum við í Bakkakirkju til að hlýða á lesturinn þar. 
Nokkrar myndir sem teknar voru á Bægisá í dag má sjá hér:  http://album.123.is/?aid=142611

    9. apríl 2009

  Í dag var hér á ferð tuttugu manna hópur eyfirskra sauðfjárbænda. Þetta voru félagar í sauðfjárræktarfélögunum Frey og Sf. Hólasóknar. Þau voru hér í heimsókn og skoðunarferð til félaga í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps. Byrjuðu á því að skoða í Brakanda, þaðan lá leið þeirra að Ytri Bægisá 2 og svo í Þúfnavelli, þar sem snæddur var hádegisverður. Endað var svo á því að skoða hér á Staðarbakka og þáðu þau svo hér seinnipartskaffi, áður en þau héldu til síns heima.

Hópur eyfirskra sauðfjárbænda í heimsókn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

    8. apríl 2009

Skepnulyf  Gestur er enn hjá okkur og það var eins og venjulega allt í toppstandi hjá honum, þegar við komum heim. Hann hjálpaði mér svo að gefa ormalyf ánum í Flögu og sprauta þær til varnar lambablóðsótt.











    7. apríl 2009

Dalvík málverk JSB  Þá erum við komin heim aftur í snjóinn, eftir að hafa ekið frá Vogum í dag. Það verð ég að segja okkur til hróss að við ókum tvívegis í gegnum höfuðborgina og kragabæi hennar án þess að stíga þar út fæti, enda ekkert þar að gera nema að eyða tíma í hringiðu vitleysunnar, sem er búin að koma þjóðinni á vonarvöl. Hinsvegar komum við að Hæli hjá Jóni Kristófer bónda og þáðum hjá honum kaffi og skoðuðum einstaklega fallegt og vel fóðrað fé.
  Í kvöld kom svo Guðmundur á Þúfnavöllum í heimsókn og vorum við að leggja loka hönd á undirbúning að komu fjárræktarfélaga úr Eyjafjarðarsveit á skírdag.
  Málverkið sem fylgir þessari frétt er eins og sjá má af Dalvík og er eftir Jón Stefán Brimar, sem var móðurbróðir þeirra Sigrúnar og Jónasar. Myndina af því tók ég í gærkveldi þegar við vorum í heimsókn hjá Jónasi og Guðrúnu.
  Á heimleiðinni vorum við að vanda nokkuð drjúg að taka myndir af því sem fyrir augu bar, allt frá því við lögðum á stað frá Hótel Best og norður í Miðfjörð, en eftir það var þoka og dimmviðri þannig að það gaf ekki til myndatöku. Raunar var einnig þoka á Holtavörðuheiðinni eins og sjá má í afrakstri myndatöku dagsins hér:  http://album.123.is/?aid=142538

    6. apríl 2009

Í matarboði hjá Jónasi og Guðrúnu  Við slöppuðum að mestu af í dag, áður en við leggjum í hann á morgun og förum aftur í snjóinn.
  Við fórum þó til Keflavíkur að heimsækja Jónas bróðir hennar Sigrúnar og afa Eyrúnar Óskar sem fermd var í gær og hans ekta kvinnu Guðrúnar. Þau buðu okkur í kvöldverð, glænýjan (seiktan) spriklandi fisk, sem Gísli sjómaður sonur þeirra hafði fært þeim. Áttum við með þeim heiðurshjónum ágætis kvöldstund, en gengum svo til hvílu í okkar góða herbergi á Hótel Best.



    5. apríl 2009

Ferming Eyrúnar Óskar

  Í dag var Eyrún Ósk fermd í Keflavíkurkirkju kl. 14:00.
 Myndir teknar í og við kirkjuna í Keflavík má sjá hér: http://album.123.is/?aid=142455 

 

 

 

 

Eyrún Ósk Guðmundsdóttir  Eftir ferminguna var svo boðið til veislu í Hótel Best, sem foreldrar Eyrúnar Óskar þau Guðmundur Jónasson og Ingileif Ingólfsdóttir hafa reist á undanförnum árum og reka af miklum dugnaði og myndarskap.
  Mannfjöldi var í veislunni þar sem boðið var upp á humarsúpu í forrétt, heita kjötrétti í aðalrétt og svo kaffi með mörgum "stríðstertum"
  Þetta var mjög flott veisla, sem var þeim öllum til mikils sóma og veitingasalurinn hjá þeim er líka mjög smekklegur.
  Nokkrar fleiri myndir má sjá hér: http://album.123.is/?aid=142485


    4. apríl 2009

Lagt af stað úr snjónum  Við hjónakornin vorum heldur með fyrra fallinu með gegningar í dag. Kl. 15 lögðum við svo land undir Jeep og var för okkar heitið alla leið í Hótel Best, sem er í Vogum á Vatnsleysuströnd. Tilgangur ferðarinnar er að vera við fermingu Eyrúnar Guðmundsdóttur á morgun. Sigrún er afasystir hennar. Nánar verður sagt frá fermingunni síðar. Í Voga komum við svo um kl. 22 eftir ágæta ferð. Það sem vakti sérstaka athygli okkar á leiðinni var að fara héðan úr talsverðum snjó, en um leið og kom vestur fyrir Öxnadalsheiði var nánast enginn snjór á láglendi, það var aðeins á Holtavörðuheiðinni sem var einhver snjór sem heitið getur.
  Það er svo að venju okkar hjálparhella Gestur H, sem sér um búið og er gott að vita það í traustum höndum hans.
Hér má sjá myndir sem við tókum á leiðinni, en það verður hver og einn að ráða í hvar hver mynd er tekin, nema það skal upplýst að síðustu myndirnar eru teknar, þegar við erum komin að Hótel Best í Vogunum:
http://album.123.is/?aid=142442

    3. apríl 2009

  Í dag kom Ólafur G Vagnsson í búfjáreftirlit. Það er árlegur viðburður hjá öllum þeim sem hafa búfé undir höndum, að fulltrúi hins opinbera komi í heimsókn til að kanna fóðrun og annan aðbúnað búfjárins. Ef allt reynist í sómasamlegu lagi er ein heimsókn á ári látin nægja, en ef svo er ekki getur þurft eftirfylgni til að koma hlutunum í lag.
  Hér reyndist eins og ætíð hefur verið allt í góðu ástandi og fékk bestu umsögn.

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar