Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir mars 2009 31. mars 2009 ![]() Á fundinum var Ólafi G Vagnssyni ráðunaut, afhent heiðursskjal í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf í þágu sauðfjárræktar félagsmanna á undanförnum átatugum, í skjalinu kemur fram að hann hafi verið gerður að heiðursfélaga í félaginu. Einnig var okkur Sigrúnu afhentur farandbikar félagsins, sem veittur er árlega fyrir hæst stigaða lambhrút í félaginu auk verðlaunapenings til eignar. Ég læt hér fylgja upplýsingar um hrútinn, sem settar voru inn á heimasíðuna þann 9. okt. sl. daginn sem lambhrútaskoðunin fór fram. "Lambhrútur númer 710 reyndist hæst stigaður, þegar upp var staðið. Hann er tvílembingur og vó 50 kg. Mældist með 110 mm legg. Ómtölur hans voru: 33 - 2,7 - 4,5. Stigunin var: 8,0 - 9,0 - 9,5 - 9,0 - 9,5 - 19,0 - 8,0 - 8,0 - 8,5, samtals 88,5 stig. Hann er undan Berki 07-175, sem er Krókssonur 05-150 og Dropu 06-674, en hún er undan Baggalút 04-244." Minnt er á aðalfund Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps! Aðalfundur Sauðfjárræktarfélags Skriðuhrepps, verður haldinn á Þúfnavöllum þann 31. mars nk. og hefst hann kl. 20:30. Auk venjulegra aðalfundarstarfa mun Sigurður Þór Guðmundsson ráðunautur, mæta á fundinn með niðurstöður úr skýrsluhaldi félagsmanna fyrir síðasta ár. Þá verður veittur bikar og verðlaunapeningur félagsins fyrir hæst stigaða lambhrút í félaginu haustið 2008. 30. mars 2009 ![]() Nú þegar geysar iðulaus stórhríð víðast um norðan og austanvert landið, er gaman að segja frá því að hér er blíðu veður og hefur svo verið frá því í gær, þegar veðrið tók að æsast víðast hvar. Ástæðan er há norðanátt, en fyrir henni erum við mjög vel varin hér inn í miðjum Tröllaskaganum, nánast má þá bóka hér logn og bjartviðri. En Tröllaskaginn á nú líka sínar skuggahliðar í orðsins fyllstu merkingu. Hér er sólin hulin bak við Háafjallið (Drangafjallið) langt fram eftir morgni og raunar allt fram yfir hádegi þar til vorjafndægur eru um garð gengin. Myndina hér að ofan tók ég við sólarupprás í morgun kl.11:30, þegar sólinni tókst loks að gægjast yfir fjallið, lögun þess er henni svo nokkuð hagstætt fyrir næstu daga þannig að sólargangur lengist nokkuð hratt. En þrátt fyrir að þessi stórhríð hafi ekki náð inn í þennan afkima Töllaskagans er nú talsverður snjór hér, enda snjóað talsvert undanfarið. Þetta má sjá vel hér á myndinni að neðan þar sem sést að girðingar eru víða á kafi, svo aðeins sést í staurana. ![]() 29. mars 2009 ![]() Upp eru nú teknir nýjir búskaparhættir! Eins og greint var frá hér á síðunni í fyrradag var verið að fósturtelja í ánum, þá reyndust vera nokkrar geldar eins og gengur. Í dag fluttum við svo 10 geldar ær niður í Ytri Bægisá, en þangað á svo að sækja þær á morgun ásamt kindum af fleiri bæjum og flytja til slátrunar hjá SAH Afurðum á Blönduósi. Það er semsé komin sláturtíð. Það er ekki öll vitleysan eins! 27. mars 2009 ![]() ![]() ![]() Hér má sjá Gunnar virða fyrir sér skjáinn á tækinu þar sem hann telur lömbin. 22. mars 2009 ![]() ![]() Undanfarna daga hafa verið nokkur hlýindi þannig að hryggir á milli gilja eru orðnir nokkuð auðir þótt gilin sjálf séu nokkurn vegin sneisafull af snjó. Ef vel er rýnt í myndina hér að ofan má sjá nokkur snjóflóð sem fallið hafa efst úr Háafjalli, eins og ætíð gerist þegar leysing er. 21. mars 2009 ![]() 18. mars 2009 ![]() 16. mars 2009 Við brugðum okkur í kaupstaðarferð í dag. Færðin er ágæt þótt það sé nú dálítil hálka hérna fram í dalnum. Auk hefðbundinna útréttinga heimsóttum við mæðginin í Ránargötunni, þau voru bara hin hressustu. Tómas er að jafna sig eftir að hafa verið með hlaupabólu. Í kvöld fór ég svo á stjórnarfund í Sauðfjárræktarfélagi Skriðuhrepps á Þúfnavöllum. Við vorum að undirbúa aðalfundinn, sem stefnt er á að halda um næstu mánaðarmót á Þúfnavöllum. Einnig um væntanlega heimsókn félaga í Sauðfjárræktarfélagi Hólasóknar og um að halda hrútaspilakvöld með svipuðu sniði og tvo síðustu vetur. 13. mars 2009 ![]() ![]() Það er nú svona að vera hvolpur að fylgjast með snoðrúningi í fyrsta sinn! 11. mars 2009 ![]() 10. mars 2009 ![]() Nokkrar myndir frá fundinum má sjá hér: http://album.123.is/?aid=139051 ![]() Vetrardulúð á fjöllum Tröllaskaga 7. mars 2009 ![]() 4. mars 2009 ![]() Þetta var síðasti stjórnarfundur í FSE sem ég sit, þar sem ég hef nú lokið 9 ára samfelldri stjórnarsetu og sem betur fer leyfa lög félagsins ekki lengri tíma þannig að maður þarf ekkert að vera að velta því fyrir sér hvort maður eigi að gefa kost á sér til endurkjörs. FSE var stofnað 1985, þannig að á næsta ári er það aldarfjórðungs gamalt. Nánast allan þennan tíma hef ég verið viðloðandi stjórn félagsins. Tvisvar gengið úr henni en verið kosinn aftur við fyrsta mögulegt tækifæri. Það eru því orðnir margir stjórnarfundirnir, sem ég er búinn að sitja auk allra aðalfunda þennan tíma, sem og nokkra aðalfundi Landssamtaka sauðfjárbænda sem fulltrúi félagsins. Ég ætla nú að gera nokkra grein fyrir aðdraganda og stofnun Fálags sauðfjárbænda við Eyjafjörð. Það var á útmánuðum 1985, sem sauðfjárbændur vítt og breitt af landinu fóru að spjalla saman um sín mál og var það mál manna að ástandið varðandi sauðfjárbúskap væri lítt viðunandi þannig að nauðsynlegt væri fyrir stéttina að stofna samtök sauðfjárbænda um allt land. Það var svo þann 11. apríl, sem boðað var til undirbúnings stofnfundar í Bændahöllinni í Reykjavík. Á þennan fund mætti stór hópur bænda víðsvegar að af landinu. Við Ólafur G Vagnsson mættum á þennan fund sem fulltrúar Eyfirðinga. Þarna var ákveðið að hver færi til síns heima, með það í farteskinu að stofna sauðfjárbændafélag í sínu heimahéraði og svo yrði boðað til stofnfundar landssamtaka þessara félaga síðsumars. Á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar (BSE) sem haldinn var dagana 22. og 23. apríl 1985, var svo kosin þriggja manna nefnd til að undirbúa og stofna félag sauðfjárbænda á starfssvæði sambandsins. Auk mín sem var settur formaður nefndarinnar, voru í nefndinni Sveinn Sigurbjörnsson í Ártúni og Friðrik Jónsson á Möðruvöllum, þá skildi Ólafur G Vagnsson ráðunautur BSE vera nefndinni til halds og trausts. Nefndin hélt sinn fyrsta fund í Búgarði að loknum sauðburði þann 7. júní. Þar var farið yfir ýmislegt varðandi þessa félagsstofnun til að mynda samin drög að lögum félagsins. Þann 10. júní kallaði svo stjórn BSE nefndina á sinn fund auk annarrar nefndar, sem á sama tíma vann að stofnun kúabændafélags á sama starfssvæði. Þarna var farið yfir málin og samræmt það sem ástæða þótti til og ákveðið að boða til stofnfundar beggja félaganna á sama stað og stund síðar í mánuðinum. Við Ólafur G komum svo saman þann 20. júní til að leggja lokahönd á þennan undirbúning stofnfundarins. Þann 24. júní var svo stofnfundurinn haldinn á Hótel KEA. Þar mætti fjöldi bænda og var félagsstofnunin samþykkt svo og lög fyrir félagið, þá var kosin 5 manna stjórn félagsins, auk þess 3 menn til að sækja stofnfund landssamtakanna. Á fundinum flutti erindi Eysteinn Sigurðsson bóndi á Arnarvatni í Mývatnssveit, sem fulltrúi þeirrar stjórnar sem kosin var á fundinum í Bændahöllinni til að vinna að stofnfundi landssamtaka sauðfjárbænda. Að loknum fundi okkar sauðfjárbænda stofnuðu svo kúabændur sitt félag. 18. júlí kom stjórn Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð svo saman til síns fyrsta fundar. Fyrsta verk hennar var að skipta með sér verkum svo sem lög félagsins mæltu um. Þar var ég kjörinn formaður, Steinn Snorrason á Syðri Bægisá varaformaður, Friðrik Jónsson á Möðruvöllum gjaldkeri, Sigurgeir Hreinsson á Hríshóli ritari og Ármann Rögnvaldsson Syðrihaga meðstjórnandi. Við ræddum auk þess þarna starfið framundan. Það var svo dagana 17. og 18. ágúst 1985 sem stofnfundur Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) var haldinn á Hvanneyri. Félag sauðfjárbænda við Eyjafjörð gerðist þar stofnfélag að LS og sem fulltrúar FSE mættu á stofnfundinn á Hvanneyri, Friðrik á Möðruvöllum, Sigurgeir á Hríshóli og ég. Læt ég hér staðarnumið við þessa upprifjun af tilurð Félags sauðfjárbænda við Eyjafjörð, sem ég hef svo átt nána samleið með í rétt tæpan fjórðung aldar. Að endingu er mér ljúft að þakka þeim mörgu samferðamönnum, sem ég hef átt nána samferð með í þessu félagsstarfi. ![]() 3. mars 2009 Vonsku veður var framan af degi vestan hvassviðri og dimm él, en upp úr hádegi lægði og létti til. Gestur H kom í heimsókn í dag og sagði hann að það væri orðið þungfært í dalnum. 2. mars 2009 Guðmundur á Þúfnavöllum kom í heimsókn í kvöld. Þar sem færðin er tekin að spillast kom hann á sinni íturvöxnu dráttarvél. Eins og vanalega var margt spjallað t.d. tekist á um stjórnmálin, en þar erum við sem fyrr ósammála um flest og ekki miklar líkur á að það breytist. Enda eins og komið hefur fram hér á heimasíðunni áður, annar dimmrauður kommi en hinn helblátt íhald. Skiljum þó alltaf mjög sáttir, vitandi það báðir að hinum verður ekki haggað. Staðfastir menn!!! Flettingar í dag: 33 Gestir í dag: 4 Flettingar í gær: 61 Gestir í gær: 22 Samtals flettingar: 128888 Samtals gestir: 27779 Tölur uppfærðar: 6.4.2025 16:32:44 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is