30. nóv. 2008
Þá er jólafastan gengin í garð og frúin búin að taka fram aðventuljósið og stilla því upp í stofugluggann, sem tákni þess tíma sem í hönd fer.
Það er víst síðasti í rjúpu í dag. Þessir glaðbeittu sveinar héldu til fjalla í morgun að huga að jólamatnum. Þeir komu svo við á heimleiðinni og fengu sér kaffisopa, enda kuldagustur úti. Veiðin hjá þeim var lítil, frá því að sumir fengu ekki neitt og uppí að aðrir geta haft rjúpusmakk á jólunum.
Í dag sóttu félagar í Framfara graðfolana sína, sem verið hafa hér í hagagöngu síðan um miðjan júní. Alls voru þetta 19 folar. Eins og sjá má á myndinni komu þeir á mörgum jeppum, með mis stæðilegar kerrur í eftirdragi, til að flytja þessa kostagripi til síns heima.
27. nóv. 2008
Skammdegið kreppir nú óðfluga að birtu daganna, sem sífellt láta undan og verða styttri og styttri. Í dag bættist svo við ekta norðlensk stórhríð, með allhvössum vindi og mikilli ofankomu. Þannig að nú er kominn talsverður snjór á einum sólarhring, því í gærkveldi var að mestu auð jörð, aðeins gamlar fannir í skurðum, giljum og undir einstaka holtabörðum. Það var því mikið lán að við sóttum ærnar út í Flögu í gær, sem eru búnar að vera þar síðan í haust og settum þær inn. Þær eru nú þurrar og þokkalegar inni, en hefðu annars orðið mjög fannbarðar í þessu veðri. Gott er nú það!
Eins og sjá má er búið að hára ánum og þær úða í sig ilmandi töðunni.
26. nóv. 2008
Í kvöld var hér fjallskilanefndarfundur. Við vorum aðeins að fara yfir framkvæmd fjallskila á nýliðnu hausti og einnig að huga til framtíðar. Fundargerðina má sjá fljótlega á heimasíðu Hörgárbyggðar, sem og eldri fundargerðir og fjallskilaboð. Að venju sat oddviti sveitarstjórnar fund nefndarinnar.
24. nóv. 2008
Í morgun fór ég á stjórnarfund FSE, sem haldinn var í Búgarði á Akureyri. Eftir hádegið fór ég svo á fund í Hlíðarbæ, þar sem Jón Viðar Jónmundsson kynnti hrútastofn Sæðingastöðvanna. Þar eru núna meðal annarra þrír hrútar frá okkur á Staðarbakka, en á stöðvunum eru nú alls um 50 kynbótahrútar.
Á fundinum fengum við Sigrún afhenta bikara fyrir tvo hæst stiguðu lambhrúta á svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar haustið 2008. Um hrútana má lesa hér á heimasíðunni í fréttum 9. október.
22. nóv. 2008
Það styttist óðum sá tími sem óliðinn er til jóla, aðeins rúmur mánuður eftir. Ýmis eru nú verkin sem venja er að inna af hendi þessa aðfaradaga jólanna og ætli sé ekki affarasælast að halda sig við þau, þrátt fyrir allt kreppu stagl. Það er svo margt sem hægt er að gera án þess að þurfa að grafa ofan í hálftóma peninga pyngjuna, en njóta þess engu að síður.
Eins og sjá má er blessuð konan að gera hreina stofuna og er þegar búin að baka nokkrar smákökusortir. Þannig að þegar komið er inn frá útiverkunum mætir manni ýmist kökuilmur eða þá ferskt hreingerningar loft. Hvað ætli maður sé þá að velta sér upp úr þjóðarvolæði?
18. nóv. 2008
10.000
Í kvöld varð sá merki atburður að tíuþúsundasta heimsóknin kom inn á þessa heimasíðu okkar. Það hefur vakið furðu okkar hvað margir leggja leið sína inn á síðuna okkar, en það er væntanlega vegna þess að þeir sem það gera telja sig hafa af því nokkurt gagn og gaman, þótt aðallega sé nú sett hér inn það sem við erum að sýsla dags daglega í blíðu og stríðu. Ekki óraði okkur nú fyrir því, þegar þessari litlu heimasíðu var fleytt af stað fyrir röskum tveimur árum, að heimsóknir inn á hana yrðu í kringum 30 á dag, eins og verið hefur nú undanfarnar vikur.
Við þökkum af alhug allar þessar heimsóknir og gleðjumst yfir því að til er fólk sem hefur einhvern áhuga á að fylgjast aðeins með sveitalífinu í norðlenskum dal lengst inn í Tröllaskaga.
Ef sá eða sú, sem varð tíuþúsundasti gesturinn hefur tekið eftir því á teljara síðunnar væri gaman að heyra frá viðkomandi.
Í kvöld kom Guðmundur á Þúfnavöllum í heimsókn. Eins og sjá má á myndinni mun honum hafa þótt vissara að hafa Heiðmann 150 kg. heljarmenni með sér, enda alsiða nú að fara ekki spönn úr rassi, nema hafa sér lífvörð til verndar, jafnvel þó ekki sé nú farið annað en í heimsókn til gamals komma lengst upp í afdal. Íhaldið hefur jú allatíð reynt að innprenta það að kommar séu undirrót alls ílls og að best sé að hafa allan vara á gagnvart þeim. Það skal svo tekið fram að Heiðmann þurfti ekki að beita sér í kvöld, enda gamli komminn það skynsamur að hann sá, að ekki þýðir að ógna tveimur heljarmönnum.
En hvernig var það annars, var það ekki íhaldið sem kom þjóðinni á heljarþröm með dyggri aðstoð Frammara og Ingusólarliðsins? Allavega er ég mjög sáttur, að við kommar komum hvergi nærri þessu þjóðarhneyksli og ósóma.
14. nóv. 2008
Við brugðum okkur til Akureyrar síðdegis í dag. Byrjuðum á að leggja leið okkar í Akureyrarkirkjugarð til að sjá legstein sem starfsmenn þar settu upp föstudaginn 7. nóv. sl. á leiði þeirra Franz og Guðlaugar. Legsteinninn er frá steinsmiðjunni Mosaik ehf og er eins og sjá má ljómandi snotur og vel unninn. Öll samskipti við steinsmiðjuna gengu mjög vel og þar stóðst allt eins og stafur á bók sem sagt var. Eftir er að koma fyrir á legsteininum ljóskeri og blómavasa.
Í kvöld fórum við svo í Samkomuhúsið að sjá Músagildruna ásamt Sólveigu Elínu. Það var hin ágætasta upplyfting í skammdeginu
Enn fullorðnast hann Arnar Heimir. Hann á sem sé afmæli í dag og sendum við honum okkar bestu afmæliskveðjur alla leið til konungsríkis Margrétar Þórhildar. Á myndinni nýtur hann hinnar íslensku sólar með sinni sambýliskvinnu rétt áður en þau yfirgáfu föður- og eða móðurlandið í júní 2007. Hann stundar nú garðyrkjustörf í danskri mold með bjórblautum Dönum. Hlýtur að vera gott að hafa þar einn þurran Íslending til að vinna verkin.
9. nóv. 2008
Í dag hefur þessi þessi fyrrverandi gelgja og núverandi frú Auður María Þórhallsdóttir, náð hinum þokkalegasta aldri. Hún hefur nú búið talsvert á annað ár í henni kóngsins Kaupmannahöfn, ásamt sínum sambýlingi Arnari Heimi Jónssyni og börnum þeirra þremur þeim: Katríni Valdísi, Gauta Heimi og Ívari Franz. Þau una hag sínum vel á danskri grundu, enda kreppa á fósturjörðinni og ágætt að vera víðs fjarri henni.
Í því smbandi skal á það minnt að danskir sérfræðingar voru ósjaldan búnir að benda á hvert óstjórn og græðgi íslenskra fjárglæframanna myndi leiða okkur, en það vakti lítinn fögnuð ráðamanna hér og því var flotið beinustu leið að feigðarósi!
En við sendum okkar bestu afmælisóskir til aðalgellunnar í Kaupmannahöfn og vitum að hún verður útrásarvíkingur til sóma, en ekki eins og hinir sem nú eru bæði búnir að verða þjóðinni til ævarandi tjóns og mannorðsskaða.
7. nóv. 2008
Þá er hann Kolur litli farinn á framtíðar heimilið sitt. Í kvöld komu þeir Þúfnavallabræður Guðmundur og Unnar að sækja hann. Vonandi að hann reynist þeim farsæll og góður fjárhundur. Þess má til gamans geta að fyrir 8 árum fór móðursystir Kols héðan í Þúfnavelli, þannig að hann hittir þar fyrir frænku sína.
5. nóv. 2008
Ég fór á stjórnarfund í Ferðafélaginu Hörg, sem haldinn var á heimili Bjarna E Guðleifssonar formanns og Pálínu konu hans á Möðruvöllum.
Við voru aðeins að fara yfir stöðuna og framtíðarplön. Minna var um viðburði á vegum félagsins í sumar en til stóð af ýmsum ástæðum. En við ákváðum að blása til sóknar á næsta ári og meðal annars hafa "Gönguviku" í byrjun ágúst þar sem boðið verður upp á stuttar göngurferðir á hverjum degi í heila viku. Áformað er að þetta verði "Giljaferðir" þar sem skoðuð verði eitt eða tvö falleg gil hér í Tröllaskaganum í hverri ferð. Hefðbundnir viðburðir veða svo á sínum stað eins og: Sólstöðuganga á Staðarhnjúk, Jónsmessunæturvaka í Baugaseli, Pílagrímsganga og haustlitaferð um Hraunsland í Öxnadal. Einnig kom til tals að hafa spilakvöld í Baugaseli í vetur og eða kvöldvöku en endanleg ákvörðun ekki tekin um það.
4. nóv. 2008
Í dag komu hér ráðunautarnir Ólafur G Vagnsson og Sigurður Þór Guðmundsson. Þeir voru á yfirferð um svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar í dag, til að bera saman hæst stiguðu lambhrúta haustsins. Að kveldi kom svo endanlega í ljós að við Sigrún ættum tvo þá hrúta sem komu best út úr dómum haustsins, annar með 88,5 stig, en hinn 88 stig. Hér fylgir með mynd af besta lambhrút héraðsins haustið 2008, sem nú hefur fengið nafnið Sómi og er númer 08-280. Nánar má sjá um lambhrútana okkar í frétt frá 9. okt. hér á heimasíðunni.
2. nóv. 2008
Í dag var haldið upp á 150 ára afmæli núverandi Bægisárkirkju, en kirkja mun hafa verið á Bægisá lengst af frá kristnitöku. Afmælið hófst með því að séra Solveig Lára Guðmundsdóttir sóknarprestur messaði í kirkjunni kl.14. Kirkjukór Möðruvallaklaustursprestakalls söng við athöfnina undir stjórn Helgu Bryndísar Magnúsdóttur. Fjölmenni lagði leið sína að Bægisá í dag og var kirkjan þéttsetin bæði af núverandi og fyrrverandi sóknarbörnum, auk allmargra annarra gesta. Að aflokinni messunni var haldið að félagsheimilinu Melum þar sem boðið var upp á veglegt afmæliskaffi, sem kirkjukórinn hafði veg og vanda af. Þar flutti og séra Solveig Lára erindi um sögu kirkjunnar og gat einnig um merka kennimenn sem þar sátu fyrr á tíð. Má þar helsta nefna : Sr. Jón Þorláksson skáld, sem var prestur á Bægisá frá 1788 - 1819 og Arnljót Ólafsson , sem var prestur þar frá 1863 - 1890, en hann var einnig alþingismaður. Síðasti prestur sem sat á Bægisá var sr. Theódór Jónsson, en hann þjónaði þar frá árinu 1890 - 1941, eða í 51 ár og mun það vera með lengsta prestskap, sem sögur fara af allavega við sömu kirkjuna. Þegar sr. Theódór hætti prestsþjónustu, varð Bægisá annexía frá Möðruvöllum og hafa Möðruvallaprestar þjónað þar síðan. Hér má sjá fleiri myndir frá deginum: http://album.123.is/?aid=123350