30. júlí 2008
Það hefur verið mjög hlýtt í dag og fór hitinn hér upp í 23,7° eins og sjá má á myndinni. Það var nánast heiðskírt, en það var nokkurð sérstætt að það skyldi verða svona hlýtt í dag, vegna þess að það var nokkuð stíf norðan gola í allan dag. Norðangolunni má svo þakka það að hægt var að vinna úti án þess að þjást af óbærilegum hita. Ég var að pússa og fúaverja svalirnar, veðrið mjög gott til þess starfa.
29. júlí 2008
Í dag er afmælisdagurinn hennar mömmu minnar (MJ), hún var fædd 1915 á Siglufirði. Dvöl hennar þar var nú stutt, aðeins nokkrar vikur, en foreldrar hennar voru þar á síldarvertíð þetta sumar þegar þeim fæddist frumburðurinn. Um haustið fóru þau svo til Akureyrar, en 1918 var flutt búferlum að Ytri Bægisá og þaðan í Miðhálsstaði 1920 og svo 1923 í Auðni þar sem mamma ólst upp uppfrá því. Árið 1936 fluttist svo mamma til pabba í Ásgerðarstaði þar sem þau byrjuðu sinn búskap og 1939 stofnuðu þau svo nýbýlið Staðarbakka, úr hálflendu Ásgerðarstaða og fluttu þau á nýbýlið sitt þann 12. desember það ár, þar sem þau áttu heima uppfrá því. Meðfylgjandi mynd er úr blómagarðinum, sem mamma átti ótaldar stundir í, við að fegra hann og bæta.
27. júlí 2008
Í þeirri einstöku veðurblíðu sem var í dag, sól og yfir 20 stiga hiti, ákváðum við að gera okkur nokkurn dagamun nú þegar fyrri slætti er lokið. Við tókum því daginn snemma og brunuðum til Akureyrar, þar sem við fórum í messu í Akureyrarkirkju. Okkur fannst það vel við hæfi að fara til messu eftir velheppnaðan heyskap. Prestur var séra Óskar Hafsteinn Óskarsson sóknarprestur á Akureyri, þetta var reyndar kveðjumessa hjá honum, áður en hann fer til Kananda í 9 mánaða námsleyfi. Þetta var einstaklega góð stund þarna í kirkjunni, enda séra Óskar mjög ljúfur og gefandi maður og flutti í dag framúrskarandi predikun blaða laust, sem er nú ekki öllum gefið. Um leið og við þökkum séra Óskari fyrir þessa stund og öll góð samskipti, óskum við honum og fjölskyldu hans góðs tíma í Kananda og góðrar heimkomu aftur í kirkjuna sína á Akureyri.
Við áttum svo ágætan dag í höfuðstað norðurlands til kvölds og enduðum hann á því að fara í kleinukaffi til vinkonu okkar Rögnu Kristjánsdóttur. Fínn dagur að baki.
Jónas bróðir Sigrúnar og kona hans Guðrún Kolbrún, sem búa í Keflavík, eru búin að vera fyrir norðan síðan 15. júlí, en fóru svo aftur suður í dag. Þau hafa dvalið í Ránargötu 2 og hafa þau systkinin verið að fara í gegnum eigur mömmu sinnar Guðlaugar Jóhönnu , sem lést þann 11. janúar síðastliðinn. Fleira hefur nú verið gert og meðfylgjandi mynd var tekin þegar við brugðum okkur í Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit.
26. júlí 2008
Það hefur verið siður okkar afkomenda mömmu (Margrétar Jósavinsdóttur) og maka þeirra, um nokkuð langt árabil að koma saman í tengslum við afmælið hennar, en hún var fædd 29. júlí 1915. Hún hafði sjálf þann sið að bjóða okkur eitthvað í kaffi meðan hennar naut við og vorum við búin að fara á marga staði og suma oftar en einu sinni, má þar nefna: Bakkaflöt, Illugastaði, Stórutjarnir, Kiðagil og Narfastaði, svo einhverjir séu nefndir. Þetta voru dagar sem hún hafði afskaplega gaman af, bæði að fólkið hennar kæmi saman og svo var gjarnan farið í skoðunarferðir um sveitir líka og ekki fannst henni það leiðinlegt að skoða landið sitt. Að þessu sinni fórum við í Engimýri og þáðum þar algjört veislukaffi hjá húsráðendum þar, sem gaman er að koma til því þar er allt smekklegt og vel um búið.
Hluti hópsins sem fór í Engimýri, fór fótgangandi héðan og yfir "Háls" eins og það var kallað fyrr á árum, þegar farið var hér á milli fram Hörgárdals og Öxnadals, rétt fyrir norðan Háafjallið. Þau komu niður að Hrauni þar sem bíll beið eftir þeim og ók þeim að Engimýri. Veður var einstaklega gott í dag, sól og yfir 20° hiti og smá gola sem gerði göngufólkinu auðveldara fyrir, því það er ekkert auðvelt að fara í fjallgöngu í steikjandi hita.
Fleiri myndir frá deginum má sjá undir: Myndaalbúm > Ýmis tilefni > Afmæliakaffi........
25. júlí 2008
Það er nú svo að fyrir nokkrum dögum sagði ég að fyrri slætti væri lokið, en allt er breytingum undirorpið.
Þannig er að við eigum eins konar varatún út í Flöguhólfum, sem við heyjum bara þegar þörf er á, annars eru þau bara beitt. Í gærmorgun var svo einstakt heyskaparveður að við stóðumt ekki mátið og fórum því og slógum nokkra hektara og þetta gekk ljómandi vel þannig að síðdegis í dag var þetta rúllað, nánast orðið full þurrt.
En eins og sjá má á myndinni mátti líklega ekki tæpara standa með það, orðið var svolítið rigningarlegt þegar búið var að rúlla það síðasta.
24. júlí 2008
Það sprettur allt nú þessa dagana og ágætt að kippa upp nokkrum rabbabaraleggjum á síðkvöldum og brytja þá fyrir sultugerðina.
Og svo er bara að slengja góssinu í pottana og frúin sýður hina gómsætustu rabbabarasultu.
Maður fær nú bara vatn í munninn af því einu að horfa á þessa mynd!
22. júlí 2008
Þá er fyrri slætti lokið og síðustu rúllunum var komið fyrir í stæðu laust fyrir kvöldmatinn. Heyskapurinn hefur gengið nokkuð vel það sem af er sumri og heyjið náðst óhrakið, sem er nú fyrir mestu. Sprettutíð hefur verið góð undanfarið, nokkuð hlýtt og sólríkt og í gær rigndi mikið og svo er spáð sól og 20° hita næstu daga, svo það ætti að líta vel út með háarsprettu.
21. júlí 2008
Í sumar stendur til að bera nýtt slitlag ofan á veginn hér í fram Hörgárdalnum. Undanfarið hefur Myllan, sem mun vera fyrirtæki með höfuðstöðvar á Egilsstöðum verið að vinna efnið í svonefndum Háamel, sem er skammt fyrir sunnan Flögu. Malarefnið í þessum mel er móhella sem er kjörin sem bindiefni í malarslitlag.
Fleiri vegaframkvæmdir eru í gangi hér í dalunum í sumar, því hafin er endurbygging Hörgárdalsvegar frá Björgum að Skriðu. Samið hefur verið við Árna Helgason ehf., Ólafsfirði um fyrri áfanga verksins, sem er frá Björgum að Hólkoti. Síðari áfanginn verður svo framkvæmdur næsta sumar þannig að haustið 2009 á þessi vegarkafli að vera fullfrá genginn með bundnu slitlagi.
13. júlí 2008
Við tókum okkur frí frá heyskapnum í dag og brugðum okkur á Húnavöku, sem haldin er á Blönduósi um þessa helgi. Okkar för var nú einkum heitið á opið hús hjá Sölufélagi Austur-Húnvetninga (SAH), sem fagnar aldarafmæli á þessu ári. Af því tilefni bauð það upp á grillað lambakjöt og pylsur, auk þess sem gestum gafst kostur á að skoða húsakynni og starfsaðstöðu félagsins undir leiðsögn starfsfólks. Þetta tókst með ágætum og trúlega hafa komið um 1000 manns á svæðið.
Viðskipti okkar við SAH hófust haustið 2000, þegar slátrun á sauðfé var hætt á Akureyri. Þá ákváðum við ásamt mörgum öðrum Eyfirðingum að fara með okkar sláturfé þangað. Óhætt er að fullyrða að enginn hefur séð eftir þeirri ákvörðun, enda hafa menn mætt þar frá fyrsta degi einstöku viðmóti starfsfólks, sem leggur sig í líma við að þjónusta bændur, sem og aðra viðskiptavini. Tengsl mín við félagið hafa þó væntanlega orðið nánari en annarra Eyfirðinga, þar sem ég hafði forgöngu um að stofnuð var eyfirsk deild í SAH þann 19. aprí 2004 og var svo kosinn í aðalstjórn félagsins vorið 2005 og hef setið þar síðan með úrvals húnversku bændafólki.
Í tilefni af aldarafmæli SAH skrifar Sigurður Jóhannesson framkvæmdastjóri félagsins pistil á heimasíðu félagsins og ætla ég að leyfa mér að birta hér kafla úr honum.
Um tilurð félagsins skrifar hann:
"Þann 26. febrúar 1908 var Sláturfélag Austur Húnvetninga svf. stofnað á Blönduósi. Tilgangur þess var að annast sölu sláturfénaðar á hagkvæman hátt. Árið áður hafði verið rætt um að hafa eitt félag fyrir Húnavatnssýslur og bygga tvö sláturhús, annað á Blönduósi en hitt á Hvammstanga, en samkomulag varð um að félögin yrðu tvö. Nafni sláturfélagsins var breytt árið 1960 í Sölufélags Austur Húnvetninga um leið og það tók við því síðasta af afurðasölunni sem var í höndum kaupfélagsins. Skammstöfun félagsins SAH var óbreytt áfram."
Og um breytingar á rekstrarformi segir:
"Í upphafi árs 2006 var stofnað nýtt félag, SAH Afurðir ehf., um slátrun og kjötvinnslu á Blönduósi. Var það gert af frumkvæði stjórnar Sölufélags Austur Húnvetninga svf. SAH Svf. á 51% í hinu nýja félagi, Kjarnafæði á 40% og starfsmenn og bændur þau 9% sem eftir standa. Markmið hins nýja félags eru hin sömu og markmið þess eldra, að annast sölu afurða bænda með hagkvæmum hætti."
Í niðurlagi pistilsins skrifar Sigurður:
"Sölufélag Austur Húnvetninga hefur verið samferða húnvetningum og landsmönnum öllum í heila öld. Með framsýni og dug að leiðarljósi hafa bændur sem eiga félagið að fullu, byggt upp traust og öflugt félag, sem nú er bakhjarl öflugs reksturs sem hefur það hlutverk að þjóna bændum og skila eigendum sínum arði. Ársverk SAH Afurða ehf. voru um 57 á síðasta ári og námu launagreiðslur ríflega 212 milljónum króna, en velta félagsins var rétt rúmlega einn milljarður króna."
Læt þetta duga og þakka starfsfólki SAH fyrir ánægjulegan dag, um leið og ég óska félaginu velfarnaðar um ókomin ár.
Fleiri myndir frá deginum má sjá undir: Myndaalbúm > Ýmis tilefni > Húnavaka...
11. júlí 2008
Nú þegar rúm vika er síðan sláttur hófst hér, má segja að hann hafi gengið nokkuð vel, þótt þokan hafi nú ekki verið til að flýta fyrir, hún hefur skollið yfir undanfarið um sólsetur og ekki létt almennilega til suma dagana fyrr en um hádegi. Búið er að slá og rúlla um 48 ha. og eins og sjá má eru túnin löðrandi í rúllum, þótt sprettan sé heldur í lakara lagi.
5. júlí 2008
Í dag lögðu Sólveig og Tómas land undir fót áleiðis til Kaupmannahafnar að heimsækja Auði og fjölskyldu í nokkra daga og fara svo til Gautaborgar. Aldeilis ferðalag fyrir lítinn mann sem á 10 mánaða afmæli í dag. Þau fóru með Lauren sem ætlaði að keyra þau á Akureyrarflugvöllinn.
Á myndinni er Tómas að fylgjast með Depli.
4. júlí 2008
Í dag kom í heimsókn vinkona Sólveigar, Lauren Hauser sem búsett er í Reykjavík og er skólastjóri Listdansskóla Íslands. Hún var stödd hér fyrir norðan til að fylgjast með syni sínum á fótboltamóti á Akureyri og ákvað að skella sér hingað. Hún var ekki ein á ferð því með henni var hundurinn Depill, mikið uppáhalds dýr, sem naut sveitafrelsisins út í ystu æsar og að hitta hundana á Staðarbakka. Á myndinni er hann kominn inn í búrið sitt fyrir svefninn, því þau ætla að gista í nótt.
3. júlí 2008
Byrjað var að slá í dag og er spretta þokkaleg. Það eru að vísu nokkrir dagar síðan ég las það í blaði að fyrri slætti væri nánast lokið á Norðurlandi. Hræddur er ég um að þar hafi verið hallað nokkuð réttu máli og það sanna sé að honum sé lokið hjá þeim sem búa við bestu skilyrðin, en annars staðar sé sláttur nýhafinn eða hefjist næstu daga. Hér eru ekki nema tæpar þrjár vikur síðan síðasta fénu var sleppt af túnunum, þannig að það má heita gott að geta hafið sláttinn núna.
1. júlí 2008
Í dag kom Lárus Birgisson, ráðunautur á Vesturlandi, ásamt sinni frú Hugrúnu Öldu. Þau voru að sækja tvo hrúta hingað sem falaðir hafa verið inn á sæðingastöð. Þetta eru hrúrarnir: Garður 05-254 og Krókur 05-150.
Ætla ég hér að gera stuttlega grein fyrir þeim fyrir þá sem kynnu að hafa áhuga á að vita ögn um þá.
Garður 05-254, er undan sæðingahrútnum Gára 02-904 og Purku 02-256, en faðir hennar er Stapi 98-866. Lambhrútshaustið stigaðist Garður upp á 84 stig.
Krókur 05-150, er undan Tuma 04-141 og Dröfn 03-331. Ff: Grímur 01-928. Mf: Flotti 98-850. Mmf: Prúður 94-834. Krókur fékk 84,5 stig lambshaustið.
Nánar um stigun hrútanna og BLUP mat, má sjá hér á heimasíðunni undir: Sauðfjárbúskapurinn > Hrútaskrá Staðarbakka
Í kvöld kom svo Guðmundur á Þúfnavöllum í heimsókn. Ræddum við að vanda um landsins gagn og nauðsynjar og deildum smávegis um pólítík. Hann var líka að tilkynna mér að þeir Þúfnavallafeðgar væru mjög ósáttir við þá ákvörðun fjallskilanefndar að flýta göngum um viku í haust og þeir væru ákveðnir í því að hlýta því ekki.