Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júní 2008

     30. júní 2008

Kristín Lára 3ja ára   Í dag varð hún Kristín Lára Pells 3ja ára. Hún var með smá afmælisveislu og bauð okkur í afmælið sitt.
  Hún er hér á myndinni ásamt Önnu sem er háskólanemi frá Kaliforníu og dvelur heima hjá Kristínu Láru og fjölskyldu hennar í nokkrar vikur.
























Sólveig Lilja, Sólveig Elín og Tómas Leonard  Tómas Leonard brá sér til Reykjavíkur hér á dögunum ásamt henni mömmu sinni, þau komu svo þaðan aftur í dag og komu með okkur í afmælið og svo í sveitina á eftir.








 


     29. júní 2008

  Hvað er nú, ætli ég hafi nú loksins sofið ærlega yfir mig og það sé komið haust, eða kannski vetur??? Á ég ekki annars eftir að heyja???

Sumarhret  Þetta var sjónin sem blasti við mér þegar ég opnaði bæjardyrnar í morgun og úrhellið streymdi úr loftinu. Lái mér hver sem vill þótt það hvarflaði að mér að ég hefði eitthvað ruglast í tímatalinu.










Er kominn vetur í afréttinni  Enn ruglaðri varð ég svo, þegar ég leit fram til afréttarinnar, alhvít jörð. Eru ekki nýumliðnar sumarsólstöður? Eða voru það kannski vetrarsólhvörf, ha?











Sóleyjarkrap  En út á túni eru þó sóleyjar í blóma þótt þar megi líka sjá krapvelling.
  Hverslags er þetta! Er það náttúran eða ég sem er að missa glóruna?    












     28. júní 2008 

Melar í Svarfaðardal og Stóllinn í baksýn

 Eins og alkunna er, þá er mikið um ættarmót á Íslandi, svo mikið að sumir geta valið um fleira en eitt og fleiri en tvö sömu helgina, það er nú gott þá getur fólk frekar sniðgengið leiðinlega ættingja og valið fremur það ættarmót sem þeim finnst skemmtilegri ættmenni vera á.
  Nú er það svo að við öll hér á Staðarbakka eigum kost á því að vera á ættarmóti um þessa helgi, ekki þó á sama ættarmótinu. Magga og systkini hennar, makar og afkomendur koma saman austur á Langanesi og skoða þar æskustöðvarnar yfir helgina.
  Við Sigrún skruppum hins vegar í dag á ættarmót Melaættarinnar í Svarfaðardal. Við tengjumst þessari ætt nú ekki beint, en Guðlaug Jóhanna, móðir Sigrúnar var frá 8 ára aldri uppeldisdóttir Halldórs Hallgrímssonar og Soffíu Baldvinsdóttur, sem bjuggu á Melum 1901 til 1937.  Halldór var af Melaættinni, en Soffía kona hans var föðursystir Guðlaugar Jóhönnu, þau tóku hana í fóstur fljótlega eftir að móðir henna Jónína Stefanía Ingvarsdóttir lést úr berklum 1918. 

 Tilefni þessa ættarmóts á Melum nú var meðal annars að minnast þess að í ár er orðin 200 ára samfelld búseta sömu ættarinnar þar. Af því tilefni var þar í dag afhjúpaður minnisvarði stutt frá   íbúðarhúsinu á Melum. Hann er eins og sjá má á meðfylgjandi mynd stór steinn (tekinn í Melalandi) með áletruðum skildi.
  Halldóra Jónsdóttir fædd 1769, sem eins og fram kemur á skildinum, hóf búskap á Melum 1808, ásamt 6 börnum sínum á aldrinum tveggja til fjórtán ára. Hún hafði verið gift Gísla Magnússyni presti á Tjörn, en hann lést 1807. Maddama Halldóra þurfti því að víkja fyrir nýjum presti af prestsetrinu Tjörn og flutti í Mela, sem þá voru í eigu Hólastóls, eins og ekki var ótítt um jarðir á þeim tíma.
Af Halldóru tóku við búi, dóttir hennar Guðleif og maður hennar Hallgrímur Sigurðsson frá Þverá í Skíðadal,  sonur þeirra Halldór ásamt konu sinni Sigríði Stefánsdóttur frá Þorsteinsstöðum tóku við búi af þeim. Næst í röð ábúanda var þeirra sonur Hallgrímur og kona hans Soffía Baldvinsdóttir frá Böggvisstöðum, Halldór sonur þeirra tók við búi af þeim, hans kona var Birna Friðriksdóttir. Næst síðust í röð ábúanda í þessari 200 ára samfelldu sögu ættarinnar á Melum, er svo Svana Halldórsdóttir, fyrri maður hennar var Sverrir Gunnlaugsson, en núverandi maður er Arngrímur Baldursson og eiga þau enn heima á Melum, en hafa látið af búskap. Núverandi bóndi á Melum er Sveinn Kjartan sonur Svönu og Sverris, hann er sjötti ættliðurinn frá formóðurinni Halldóru Jónsdóttur. Hann býr nú góðu búi á Melum ásamt konu sinni Steinunni Elfu Úlfarsdóttur og þremur börnum þeirra. Jörðin er löngu orðin eign ábúenda á Melum, þannig að Hólastóll hefur ekkert um hana að segja lengur.

    23. júní 2008

Brúðargjöfin frá Tomma vígð

 Í gær og dag rúðum við Flögu-ærnar. Þá gafst fyrst tækifæri til að prófa kindamúlinn, sem Tommi og Maja gáfu okkur í brúðargjöf í fyrra og eins og sjá má á myndinni reyndist hann vel einkum á þær kollóttu. Flögu-ærnar liggja við opið yfir veturinn og eru því ekki vetrarrúnar eins og algengast er nú til dags. Það er nú bara ágætt að halda aðeins í þennan gamla sveitasið sem allsstaðar var stundaður fyrir ekki svo mörgum árum og þó það eru nú líklega um þrír til fjórir áratugir síðan það lagðist víðast hvar af að sumarrýja. Þessum sumarrúningi fylgdi reyndar þá vorsamanrekstur þar sem þurfti að smala fénu heim aftur eftir að því hafði verið sleppt til fjalla eftir sauðburðinn,  fór þá gjarnan sólarhringurinn allur í þetta. Farið var að morgni að smala og komið heim einhverntímann síðdegis,  var þá hafist handa við rúninginn og rúið fram á nótt, að því búnu var eftir að lembga, oft var það ekki búið hér á bæ fyrr en fyrstu geislar morgunsólarinnar höfðu hellt sér yfir döggvotan dalinn.

 Þótt sumarsólstöður séu nú að baki og Jónsmessan handan við næstu nótt, er ekki svo ýkja langt í leifarnar af hjarnfönn síðasta vetrar. Meðfylgjandi mynd tók ég í morgun hérna suður og niður í árgilinu um 150 m. frá bænum. Eins og sjá má nýtur sólar heldur illa þarna ofan í gilinu og því tekur skaflinn seint úr því.
  Þess má til gamans geta að eftir snjóaveturinn mikla 1995 og vorið það sama ár, þegar vorhlýindin gleymdu sér alveg og komu aldrei, þá tók skaflinn ekki endanlega úr þessu sama árgili fyrr en 4. september, enda mátti heita að það væri sneisafullt eftir veturinn þann.

Bjarni Guðleifsson formaður stjórnar Jósep segir

 Við Sigrún enduðum svo daginn með því að fara upp í Baugasel í Barkárdal á hina árlegu Jónsmessunæturvöku Ferðafélagsins Hörgs. Félagið var stofnað í Baugaseli á Jónsmessunótt árið 1981, þar mættu á stofnfundinn um 70 manns. Síðan hafa félagar og gestir árlega komið þarna saman og skemmt sér við leiki, upplestur og söng. Fjöldinn hefur nú farið nokkuð eftir veðri og hvort er virkur dagur að morgni, að þessu sinni komu um 50 manns, en flest hefur verið vel á þriðja hundrað samankomið á þessu eyðibýli, sem hefur verið án íbúa síðan á vordögum 1965 og raunar Barkárdalurinn allur. 

     20. júní 2008

Guðrún og Kjartan á Dunki

 Góða gesti bar hér að garði í dag.  Það voru hjónin á Dunki í Dalasýslu, þau Guðrún og Kjartan, sem voru á ferð austur um norðurland og tóku krókinn hingað fram í dalinn. Það var mjög gaman að þau skyldu koma og áttum við ágætt spjall yfir kaffibolla, um búskapinn og landsins gagn og nauðsynjar. Héðan stefndu þau svo lengra austur og ætluðu m.a. að fara í Daðastaði að líta á hunda hjá Gunnari bónda þar, sem er með ræktun á skoskum fjárhundum.

  
     18. júní 2008

Inga, Andrea, Gerða, Sævar Þór og Sævar

 Þá erum við komin heim aftur, við fórum að heiman að kvöldi þess 16. og gistum tvær nætur í Ránargötu 2 svona aðeins til tilbreytingar.
  Í gær á þjóðhátíðardaginn fórum við í útskriftarveislu til fjölskyldunnar í Mánahlíð 6, en sonurinn á bænum Sævar Þór Sævarsson útskrifaðist frá MA. Þetta var rosa fín veisla og áður en við fórum var þessari fínu mynd smellt af fjölskyldunni. Það var heldur kalt á Akureyri, norðan nepja þannig að við fórum ekkert á útihátíðarhöldin.

    15. júní 2008

Stjórn Ferðafélagsins Hörgs: Gestur, Bjarni og Guðmundur

 Stjórn Ferðafélagsins Hörgs kom saman til fundar hér í kvöld. Í henni eru auk mín Gestur frá Þríhyrningi og Bjarni á Möðruvöllum. Við vorum að leggja drög að viðburðum sumarsins, sem verða nokkuð hefðbundnir, má þar helst nefna að núna 21. júní verður sólstöðuganga á Staðarhnjúk og þann 23. verður svo hin árlega Jónsmessuhátíð í Baugaseli, fleira mætti nefna en ég læt þetta duga núna. 



Graðhestar fluttir í sumarhólf

 Í kvöld komu félagar í hestamannafélaginu Framfara með graðhesta sína hingað í hólf til dvalar fram á haust. Við höfum tekið af þeim graðhesta nú í allnokkur sumur og haft í hólfi hér austan Hörgár í Nýjabæjarlandi. Eins og sjá má á myndinni eru farartækin ekki af verri endanum og trúlegt er þá að hestarnir séu ekki síður miklir kostagripir. Alls var komið með 18 fola.



    13. júní 2008

Fjallskilanefndin ásamt oddvitanum  Í kvöld kom fjallskilanefndin saman hér á Staðarbakka, í nefndinni eru auk mín Aðalsteinn H Hreinsson á Auðnum og Stefán Lárus Karlsson á Ytri-Bægisá, einnig sat oddvitinn Helgi Steinsson á Syðri-Bægisá fundinn. Við ræddum ýmiss atriði er fjallskil varða hér í sveitarfélaginu, en það verður ekki tíundað hér að öðru leyti en því, að við ákváðum tímasetningu gangna á komandi hausti í Hörgárbyggð. Um það var eftirfarandi bókað á fundinum: "Tímasetning gangna haustið 2008 rædd. Ákveðið var að höfðu samráði við nágrannasveitarfélög að flýta göngum í Hörgárbyggð um eina viku. Fyrstu göngur verða því í Hörgárbyggð, frá miðvikudeginum 10. september til sunnudagsins 14. september. Aðrar göngur verða svo viku síðar".

     11. júní 2008


Rannveig Erna Rögnvaldsdóttir  Í dag fórum við að útför Rannveigar Ernu Rögnvaldsdóttur, sem gerð var frá Akureyrarkirkju kl. 13:30.  
  Rannveig eða Rannsý eins og hún vildi láta kalla sig, var fyrri kona Ívars fósturbróður Sigrúnar.
  Þau Rannsý og Ívar bjuggu saman í um 40 ár og eignuðust 4 dætur, en fyrir fáum árum slitu þau samvistum.
   Rannsý var myndar kona og áttu þau Ívar fallegt heimili, sem gaman var að koma á.
  Rannsý átti við erfið andleg veikindi að stríða hin síðari ár, sem settu mikið mark sitt á hennar líf. Nú hefur hún fengið lausn frá þeim erfiðleikum og flutt sig um set á æðra og betra tilverustig. 
  Við Sigrún þökkum Rannsý fyrir allt sem hún var okkur og blessuð sé minning hennar. 




    8. júní 2008

Farið að þrengjast í hreiðrinu  Eins og kom fram hér á síðunni seint í maí er skógarþrastarhreiður í fjárhúsunum og að sjálfsögðu fylgist maður með þróun mála á því heimili. Nú er svo komið að þar er orðið mjög þröngt um ungahópinn þar, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.








Ætli sé ekki rétt að fara að yfirgefa hreiðrið  Fyrsti unginn farinn að líta á veröldina (fjárhúsin) og í þann mund að taka þá afdrifaríku ákvörðun um að yfirgefa hreiðrið, eða með öðrum orðum að hleypa heimdraganum!










Þessi fjárhúskró er nú miklu rúmbetri en hreiðrið  Hér er hann farinn að spóka sig í fjárhúskrónni, eins gott að ferfætlingarnir eru brottfluttir úr henni og komnir út í vorblíðuna að gæða sér á nýgræðingnum.












    7. júní 2008

Sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju í heimsókn  Í dag komu hér í heimsókn sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju í fylgd Solveigar Láru okkar sóknarprests, en hún var áður prestur á Seltjarnarnesinu. Í hópnum var Hildigunnur Hlíðar, en þær Sigrún eru systradætur. Það var gaman að fá þennan hressa hóp í heimsókn. Meðfylgjandi mynd er af hópnum auk Sirgúnar, Sólveigar og Tómasar Leonards.

Gaukur, Edda og Tómas Leonard  Þegar sóknarnefndin var að fara úr hlaði bar að garði Eddu Garðarsdóttur og kærasta hennar Gauk. Edda er dóttir Önnu sóprönu og Garðars arkitekts, en þau ásamt Sólveigu Elínu sungu einmitt í kirkjukór Seltjarnarneskirkju á árum áður. Þau fengu að halda á Tómasi litla, svona til að máta sig í foreldrahlutverkið. Gaman að þau skildu kíkka aðeins, en þau eru í helgarferð til Akureyrar.






Jósavin og Kristjana  Og ekki var ungaparið fyrr farið en næstu gestir óku í hlað. Það voru þau Jósavin (Brói) og Kristjana. Það lá ljómandi vel á þeim, enda upplýstu þau að von væri á erfingja um gangnaleytið í haust. Ástæða er til að óska þeim hjartanlega til lukku með þetta. Brói varð nýverið fyrir þeirri sérkennilegu lífsreynslu fyrir svo ungan mann, að þurfa að fara í hjartaþræðingu og blástur þar sem ein slagæðin að hjartanu var nánast stífluð. (Svona er að reykja og drekka, eða þannig. Brói hefur reyndar aldrei stundað slíka iðju). Aðgerðin tókst ágætlega og er hann því við hestaheilsu núna.


    6. júní 2008

Sigurður Jóhannesson flytur skýrslu sína á aðalfundi SAH 2008  Í morgun fór ég vestur á Blönduós, fyrst á sameiginlegan stjórnarfund í Sölufélagi Austur-Húnvetninga svf. og SAH Afurða ehf. kl. 10. Eftir hádegi voru svo aðalfundir sömu félaga. Afkoma beggja félaganna var viðunandi á síðasta ári. SAH svf. skilaði hagnaði upp á rúmlega 1,2 milljónir og SAH Afurðir ehf, var rekið með tæplega 21 milljónar hagnaði. Þetta verður að heita bærilegt miðað við núverandi rekstrarskilyrði, þar sem t.d. er óviðunandi fjármagnskostnaður við allan rekstur. Myndin er af Sigurði Jóhannessyni að flytja skýrslu framkvæmdarstjóra og Elínu Jónsdóttur ritara.

    4. júní 2008

Hestasteinn frá Framlandi fluttur í Staðarbakka 1. júní 2008  Þau hjónin héna í norðurendanum Sigurður og Margrét eru búin að koma sér upp hestasteini. Hestasteinn þessi var áður á bæjarhlaðinu á Framlandi og var þar nú að leggjast útaf og hefur ekki þjónað sínum tilgangi í marga áratugi. En nú hefur hann gengið í endurnýjun sinna lífdaga og munu  nú hestar bundnir við hann á bæjarhlaðinu á Starðarbakka. Og þegar að því kemur er aldrei að vita nema ég setji hér inn mynd þar sem búið er að hnýta gæðingana við hann.
  Um Framland segir Eiður Guðmundsson á Þúfnavöllum  í bók sinni Búskaparsaga í Skriðuhreppi forna. 
  
" Framland var byggt úr Nýjabæjarlandi árið 1815. Frumbyggi þar var Jón Björnsson frá Hillum. Fluttist hann þetta vor frá Nýjabæ og reisti yfir sig kofa og tók að rækta tún þar umhverfis. Aldrei varð túnið svo stórt, að  taðan af því nægði einni kú til fóðurs. Þó að nærlendið allt væri grasi vafið, var það svo grýtt að engjaheyskapur reyndist mjög seintekinn, en heyið var gott. Landgæði eru þar mikil og talið ágætt undir bú. Bærinn á Framlandi var fremsti bær í dalnum austan ár og var drjúg bæjarleið þangað frá Nýjabæ." Ennfremur segir Eiður í bók sinni að Framland hafi farið í eyði 1919 og síðustu ábúendur þar hafi verið Kristján Þorsteinsson og Bergrós Erlendsdóttir.


    2. júní 2008

Sigurður að hefja áburðardreifinguna  Vorverkin taka við hvert af öðru. Í dag kom Tommi með áburðinn og var þá þegar hafist handa við dreifinguna. Hefði gjarnan mátt vera búið að byrja á henni fyrr, en annirnar við sauðburðinn leyfa lítið annað en honum sé sinnt og þá verður bara allt annað að sitja á hakanum. Útlit með gróður er með allra besta móti í byrjun júní. Og það er af sem áður var, þegar það var nánast árvisst að hér væru verulegar kalskemmdir í túninu, allt upp í 60 - 70%  þegar verst var, nú sést hér hvergi kalinn blettur.


    1. júní 2008

Sigrún amma og Tómas Leonard á Akureyrarflugvelli  Í dag fórum við í sól og blíðu til Akureyrar, að taka á móti Sólveigu Elínu og Tómasi Leonard, sem voru að koma frá Kaupmannahöfn í beinu flugi. Það var afskaplega gaman að sjá þau svona fljótt aftur, en það er réttur mánuður síðan þau fóru frá okkur.  Tómas þekkti ömmu og afa strax aftur og urðu því miklir fagnaðarfundir á báða bóga. Við drifum okkur svo á Greifann og fengum okkur pitzur að snæða.



Við Pollinum á Akureyri   Til heiðurs sjómönnum á þeirra degi tók ég þessa mynd við Pollinn á Akureyri í dag. Þar voru hátíðarhöld á Torfunefsbryggju í tilefni af sjómannadeginum.



Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar