Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit |
|
Fréttir febr. 2008 26. febr. 2008 Í dag fór ég á stjórnarfund í Félagi sauðfjárbænda við Eyjafjörð, sem haldinn var svo sem venja er í Búgarði. Við vorum að ræða verðlagsmál í ljósi gríðarlegra hækkana bæði á rekstrarliðum til búrekstrarins og einnig hjá sláturleyfishöfum. Einnig ræddum við um nýja reglugerð um gæðastýringu í sauðfjárrækt. Og um árangur sæðinga með djúpfrystu sæði nú í vetur. Þá var nokkuð rætt um söfnun á ull og stöðu ullarvinnslu fyrirtækisins Ístex. Að lokum var ákveðið að halda aðalfund félagsins í Hlíðarbæ þann 26. mars kl 20:30. 24. febr. 2008 ![]() 23. febr. 2008 ![]() Amma og afi geta því ekki heimsótt þig Ívar Franz okkar núna, en sendum þér okkar bestu afmæliskveðjur og óskum þér alls hins besta og Guðs blessunar. Myndin var tekin í júní síðast liðinn. Þess má geta að litli fallegi lambhrúturinn sem Ívar Franz er að skoða, var seldur í haust og er nú orðin kynbótahrútur í nýju fjárræktarbúi á Neðri-Rauðalæk á Þelamörk. ![]() 22. febr. 2008 ![]() Ekki er slakt mitt embætti. Á mér lyftist brúnin. Sem aðalrúlluritari, rölti um Flögutúnin. 21. febr. 2008 ![]() Það er svo að sjá, að sjálfur Himnafaðirinn heimsæki þessa síðu stöku sinnum. Allavega hefur hann nú bætt úr því umkvörtunarefni sem ég var að væla hér um í gær. Í dag strax við sólarupprás, það er að segja þegar sólin gat lyft sér yfir fjöllin há, sem var nú reyndar ekki fyrr en laust fyrir kl.15, helltist geislaflóð hennar hér ofan í dimman dal, en eins og fram kom hér í gær hefur þeirra ekki notið hér síðan í byrjun nóvember. Eins og sjá má á myndinni hefur aðeins kastað éli síðan í gær. Magga er búin að gera pönnukökur og bjóða okkur í sólarkaffi þegar við komum inn úr fjárhúsunum. Nokkrar fleiri myndir sem teknar voru í gær og dag má sjá hér. 20. febr. 2008 ![]() Nokkur hlýindi hafa verið undanfarna daga og hefur hitinn komist upp undir 10°. Eins og sést á myndinni hér að ofan hefur snjó að mestu tekið upp, þótt en séu skaflar hér og hvar, enda voru þeir orðnir nokkuð stórir eftir vestan rosann um daginn. Þorri vetrarkonungur er nú ennþá við völd, en það er heldur góðs viti fyrir komandi útmánuði að hann skili ekki af sé miklum snjóalögum. Þessi vetur er um margt nokkuð óvenjulegur t.d. ótrúlega vindasamur og það er nokkuð sérstakt að þótt sé liðinn hálfur mánuður síðan sól átti á sjá hér á bæ eftir skammdegis dimmuna, hefur hún enn ekki fundið leið í gegnum skýin, vonandi að henni fari að takast það, enda biðin orðin nokkuð löng, allar götur síðan í byrjun nóvember hefur geisla hennar ekki notið hér. 18. febr. 2008 ![]() Í kvöld fengum við ágæta gesti lengst framan úr Eyjafjarðarsveit, þar voru á ferð hjónakornin í Gullbrekku. Þetta var hið ágætasta kvöld þar sem margt orðið af tungu hraut. Við Biggi ræddum talsvert um fjallskilamál. Hann var að kynna sér framkvæmd þeirra hér í sveit, þar sem til stendur uppstokkun þeirra mála í Eyjafjarðarsveit, en hann er fjallskilastjóri þar. 16. febr. 2008 ![]() 14. febr. 2008 ![]() Eins og fram hefur komið hér í gestabók heimasíðunnar er kvartað undan því að afmælisdags frúarinnar skyldi í engu getið og þaðan af síður birt af henni ný mynd. Úr þessu skal nú bætt og þess getið að hún náði ágætum aldri þann 6. febrúar síðastliðinn. Á myndinni sem tekin er í dag er hún norðan undir vegg eða snjóstáli, sem er góðir 3 metrar þegar búið var að moka planið. Undanfarna daga er búið að vera versta illviðri, mikil hvassviðri dag eftir dag og moldviðri annað slagið, þannig að safnast hefur mikill snjór í kringum hús og annars staðar þar sem eitthvert skjól er, þótt heilt yfir sé alls ekki mikill snjór. Færð á vegum er t.d. nánast eins og á sumardegi. ![]() Hér er hún Brussa litla að spóka sig á hjarninu sunnan við bæinn og eins og sjá má er grindverkið í kringum blómagarðinn komið þar í kaf. ![]() Hér er gríðarlegt snjófjall sem búið er að moka frá húsunum. ![]() En eins og sjá má á þessari mynd er alls ekki mikill snjór heilt yfir í sveitinni. 12. febr. 2008 ![]() 7. febr. 2008 ![]() ![]() ![]() 4. febr. 2008 ![]() Í gærkveldi helltist einhver árans pest yfir húsbóndann með miklum hita, þannig að hann þótti ekki líklegur til verka í dag. Var því haft samband við Gest frá Þríhyrningi til að annast gegningar í dag með húsmóðurinni. Hann brást okkur ekki frekar en fyrri daginn og mætti hér í dag og gaf báðar gjafirnar. Hann er reyndar núna í lausamennsku og gefur sig út í afleysingar hvort heldur er vegna veikinda, eða þá ef bændafólk vill taka sér smá frí frá amstri dagsins. Hann t.d. var hjá okkur í 3 daga í janúar þegar við vorum að undirbúa útförina hennar mömmu og tengdamömmu. Það er einstaklega gott að vita af honum Gesti og eiga hann að ef eitthvað kemur uppá, þökk sé honum fyrir það. 2. febr. 2008 Þorrinn þokast áfram og það er sannkölluð þorratíð, norðanátt og éljagangur. Frostið fór niður í 14° hér í nótt sem leið. Mun meira frost var þó víða annars staðar á landinu t.d. 19° frost í höfuðborginni, en mesta frost í byggð voru 24° á Hjarðarfelli. Í kvöld á að blóta þorrann á Melum og verður það vonandi menningarsamkoma. Við hjónakornin ætlum að sitja þetta þorrablót af okkur, svona er það þegar aldurinn færist yfir. Læt hér fylgja þorramyndir sem teknar voru í dag. ![]() ![]() ![]() ![]() Flettingar í dag: 10 Gestir í dag: 3 Flettingar í gær: 56 Gestir í gær: 9 Samtals flettingar: 128560 Samtals gestir: 27678 Tölur uppfærðar: 3.4.2025 06:12:58 |
clockhere Staðarbakki Nafn: Guðmundur Skúlason & Sigrún FranzdóttirFarsími: 846 1589/615 1949Tölvupóstfang: drangi@simnet.isAfmælisdagur: 21. okt. og 6. febr.Heimilisfang: StaðarbakkiStaðsetning: HörgársveitHeimasími: 462 6756Um: Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.Bankanúmer: 1187-26-10528Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is