Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir des. 2007

    29. des. 2007

Guðmundur, Hjalti og Guðm.
  Í kvöld kom Guðmundur á Þúfnavöllum í jólaboð.















Kristjana og Jósavin
  Við fengum jólagesti í dag. Kristjana og Jósavin (Brói) notuðu góða veðrið og færið og komu í heimsókn. Það var mjög gaman að þau skyldu koma og áttum við góða stund með þeim yfir kaffibolla og jólabakkelsi.



 

 






    28. des. 2007


Baggalútur og aðdáendur    
  Nú er fengitíminn kominn í algleyming. Við Hjalti slepptum hrútunum í krærnar í dag þannig að þar verða nokkuð frjálsar ástir næstu dagana. Hjá hverjum hrút eru þetta frá um 20 ær og upp í um 40 hjá bestu hrútunum. Á myndinni má sjá Baggalút, sem er auðsjáanlega strax búinn að sanna sitt hrútslega sexapíl fyrir þessum þremur ástsjúku ám. 



  Í dag sæddi ég síðustu ærnar, sem sæddar verða á þessari fengitíð. Alls sæddi ég 26 ær, allar með frystu sæði. Það verður fróðlegt að sjá hver árangurinn verður, því maður er  að prófa sig áfram með þetta frysta sæði. Ég notaði því aðeins mismunandi aðferðir, bæði varðandi tíma og magn sæðis. Á myndinni er ég að sæða ána Farsæl 05-040 með sæði úr úrvalshrútnum Papa 04-964, frá Bjarnastöðum í Öxarfirði.
  Fleiri myndir frá deginum má sjá hér og hér.


    24. des. 2007


  Í dag, aðfangadag, fórum við hjónin og Hjalti til Guðlaugar, móður Sigrúnar. Við vorum komin til hennar kl. 17:15 og vorum til að verða níu. Þar snæddum við svínakjöt og í eftirrétt var sérrýfrómas. Við opnuðum síðan jólakort og gjafir fyrir Guðlaugu.


   

 







     23. des. 2007

Sólveig Elín og Gríma
  Þá er enn einu sinni upprunnin messa heilags Þorláks. Það var á þessum drottins degi fyrir örfáum árum sem þessi fagra snót var í heim þennan borin á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.  Hún á nú hamingjusama daga í henni Gautaborg, með sínu mannsefni og jólabarninu þeirra. 
  Við sendum henni okkar innilegustu afmæliskveðjur í tilefni dagsins.
  Á myndinni er hún með hana Grímu sína, sem á síðustu jólum var týnd í höfuðborginni, en dvelur nú í góðu yfirlæti hjá okkur hér í sveitinni. 
 



    18. des. 2007

 Það var nóg að gera í dag. Það byrjaði á því snemma í morgun að við Hjalti fórum út í Flögu að taka svampa úr ánum og taka þær ær frá sem á að sæða þar. Svo gáfum við fénu hérna heima. Að því búnu voru ærnar sóttar upp á Berg og settir svampar í þær. Eftir hádegi fór ég svo til Akureyrar að sækja frosið hrútasæði og sæddi bæði á Ytri Bægisá II og á Þúfnavöllum, tvisvar á hvorum stað, fyrst um kl. 15 og svo aftur um kl. 19. Í millitíðinni fór ég hér heim til að gefa seinni gjöfina. Þannig að sjá má að þetta er búinn að vera nokkuð snúningasamur dagur.

Guðm. og Sigrún
  Og að loknum erli dagsins er gott að setjast niður með frúnni og skrifa á nokkur jólakort.






 


  




  17. des. 2007

  Það hefur verið nokkur belgingur undanfarna daga og sæmilegur hiti annað slagið. Í kvöld var ansi hvasst og fór hitinn hærra en verið hefur undanfarið þegar hann sló í 12°. Það er allt að verða autt og vegurinn orðinn svellalaus, en það voru komin á hann mikil svell fyrir þessa hlákudaga.
  Í dag kom Stefán Lárus á Ytri Bægisá með 8 ær til að fá að halda þeim undir hrúta hér; fimm var haldið undir Krók og þremur undir Baggalút. Vonandi að hann fái eitthvað gott út úr þessu.


    16. des. 2007


Hjalti og Sigrún
  Í dag kom Hjalti heim í heiðardalinn, að austan yfir fjöllin á gamla FORD Eddie Bauer og gekk það bara ágætlega enda enginn snjór á vegum, en smávegis hálka. Það er mjög gaman fyrir okkur gömlu hjónin að hafa hann hjá okkur yfir jólin.












     

 

 

 






   


    9. des. 2007

Jólasveinninn kemur framan Hörgárdalinn
  Jólasveinninn er kominn til byggða allavega hér á Staðarbakka, það tókst að ná nokkrum myndum af honum, þegar hann var að koma og leit í fjárhúsin, kíkti á gluggana, hugaði að hangikjötinu og heilsaði upp á hundana. Þessar myndir má sjá hér


     6. des. 2007

Nýjar slæðihlífar
  Í gær fórum við til Akureyrar að útrétta ýmislegt og fara í Hlíð að heimsækja tengdamömmu.  Ég tók hjá Vélsmiðju Steindórs hlíf, sem ég lét smíða þar fyrir mig á gjafagrind sem ég keypti hjá ÞÓR HF í fyrra haust. Mér finnst ærnar slæða alltof miklu úr grindinni þannig að ég ætla að prófa þessa slæðihlíf, er reyndar alveg viss að hún er til bóta en hvort það er nóg, það er spurningin.
  Fleiri myndir má sjá hér.    






     3. des. 2007

Hjalti við ána í Hvergili.
  Hann Hjalti okkar á afmæli í dag. Snemma á jólaföstu árið 1985 leit hann fyrst þennan heim í höfuðborginni henni Reykjavík. Ekki dvaldi hann nú lengur þar en nauðsyn krafði, en hefur alið manninn síðan á Akureyri, hér á Staðarbakka og á Egilsstöðum, þar sem hann dvelur nú við nám og störf. Við sendum honum okkar bestu afmæliskveðjur, með von um að hann beri aldurinn vel. 


Gestur og Birgir  Í dag var rúningsdagurinn mikli hér á bæ. Birgir frændi minn í Gullbrekku rúði og ég fékk Gest í Þríhyrningi til að leggja féð fyrir mig, sjálfur var ég í því að reka féð að og frá þeim og ganga frá ullinni í pokana.
Við byrjuðum rétt um 9:30 og búið var að svipta af síðustu kindinni laust fyrir kl. 20 í kvöld. Þá var Birgir búinn að rýja 217 kindur á þessum degi og mun það vera mesti fjöldi sem hann hefur rúið á einum degi í haustrúningi, ótrúlegt úthald það og full ástæða til að óska honum til hamingju með þetta persónulega met sitt. Þeir félagar og jafnaldrar Birgir og Gestur voru bara hressir og kátir eftir þennan stranga dag og ég himinlifandi yfir að þessum rúningi skuli vera lokið.
  Á myndinni eru Gestur og Birgir.
  Fleiri myndir frá rúningsdeginum má sjá hér.

    1. des. 2007

  Skaplegt veður var í dag, þannig að við gátum sótt ærnar í Flögu og komið þeim ám, sem eiga að vera upp á Bergi í vetur þangað. Er þá allt féð komið á hús, það er kannski vafasamt að segja að ærnar í Flögu og á Berginu séu komnar á hús, því þær liggja við opið allan veturinn.
 

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108224
Samtals gestir: 24359
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar