Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir nóv. 2007

     30. nóv. 2007


  Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd  er bölvað illviðri úti. Í nótt var mjög hvöss austan eða norðaustan átt, en það dró ögn úr veðurhæð í dag, með þessu hefur verið talsverður éljagangur og rennings kóf, þannig að það eru komnir skaflar en snjó lítið á milli. 
  Vegna veðurs treystum við okkur ekki til að ná í ærnar í Flögu í dag eins og til stóð.


    


 


    29. nóv. 2007

  Ágætt veður var í dag en slæm spá fyrir nóttina og morgundaginn, þannig að við smöluðum saman ánum sem enn eru útí Flögu og settum þær inn þar. Á morgun ætlum við svo að ná í ærnar, sem eiga að vera hér heima og upp á Bergi í vetur, eru það um 240 ær.

Halldóra Lísbet
  Í kvöld var Halldóra Lísbet með krem kynningu hérna í stofunni.   Á myndinni má sjá vöru úrvalið og Halldóru tilbúna að hefja kynninguna.







 





    24. nóv. 2007

Máninn
  Í kvöld skein máninn glatt í vetrarstillunni, þótt skýjaslæður væru ögn að stríða honum. Við þetta ljómandi aftanskin brugðum við hjónakornin okkur til Akureyrar og skunduðum þar á jólahlaðborð á Bautanum ásamt heiðurshjónunum Ernu Maríu og Tómasi. Var þetta hið ánægjulegasta kvöld, ágætur matur og að loknu jólahlaðborðinu buðu þau Maja og Tommi upp á kaffi og jólasmákökur eftir matinn heima í Eyrarvegi 15. 

 

 



    17. nóv. 2007

Sigrún við Hraunsbæinn
  Í dag fórum við að Hrauni í Öxnadal. Þar var opið hús til að sýna þær endurbætur, sem gerðar hafa verið á íbúðarhúsinu. Þar hefur nú verið komið upp minningarstofu Jónasar Hallgrímssonar skálds, sem forsetinn hr. Ólafur Ragnar Grímsson opnaði formlega í gær á fæðingardegi skáldsins. Það var mjög gaman að skoða staðinn undir mjög traustri leiðsögn Tryggva Gíslasonar fyrrverandi skólameistara MA. Hann er í forsvari fyrir Menningarfélagið Hraun í Öxnadal, sem hefur staðið fyrir kaupum á jörðinni og endurbótum á húsum ásamt fleiru.Þess má geta að nú er í húsinu auk minningarstofunnar íbúð, sem ætlunin er að fræði- og listamenn geti dvalið í um lengri eða skemmri tíma í senn.
  Nokkrar myndir frá heimsókninni má sjá undir: Myndaalbúm > Ýmis tilefni.

  Á heimleiðinni fórum við í heimsókn til Hreins og Grétu á Auðnum og þáðum þar kaffi og meðlæti ásamt skemmtilegu spjalli.

   
     16. nóv. 2007

  Á 200 ára afmæli Jónasar Hallgrímssonar ætla ég að setja hér inn myndir af náttúrufyrirbæri nokkru, sem okkur hefur báðum verið mjög kært. Það ber reyndar ekki sama nafn í dölunum okkar. Í Öxnadalnum heitir það Hraundrangi og undir því nafni er þessi náttúrusmíð víðast þekkt, en hérna megin fjallsins hefur nafnið alltaf verið nokkru tilkomu minna og staðið eitt og sér án þess að taka með sér viðtengingu í annað. Hann heitir sem sé einfaldlega Drangi hérna megin Háafjalls. En það er eins með fjallið, að dalabúarnir sinn hvoru megin hafa ekki getað komið sér saman um heiti þess, því í Öxnadalnum kallast það Drangafjall.
  Jónas gerði Hraundrangann ódauðlegan með ljóði sínu Ferðalok, þökk sé honum fyrir það.  Minn hlutur er allt annars eðlis, ég á Dranga (Hörgárdals megin) og er mjög stoltur af. Þess má og geta að hann er eftirsóttur til fjallaklifurs og árlega er hann klifinn af nokkrum hópi fólks og þá alltaf  héðan frá Staðarbakka.
  Því set ég hér inn tvær myndir af Dranga, frá nánast sama sjónarhorni, að síðsumars eða í haust vann tímans tönn á þessu stolti mínu, þegar hrundi stór drangur úr honum þannig að hann stendur ekki samur eftir og ásýndin hefur breyst. Það venst væntanlega með tímanum, en það er gott að eiga myndir af Dranga eins og hann leit út fyrir hrunið.


    Drangi myndin var tekin 14. júlí 2007 eða nokkru fyrir hrunið.


        Drangi myndin var tekin 27. okt. 2007, eins og sjá má er hér hrunið úr honum.


Sigrún að baka til jólanna
  Þá er nú blessuð konan farin að baka til jólanna og eins og sjá má er hún sæl og sátt með fyrstu sortina, getur að vísu orðið þyngri þrautin að verja hana fyrir húsbóndanum, enda eru kókoskökur með rúsínum í sérlegu uppáhaldi hjá honum. En það má finna ráð við öllum vanda og hér gildir það eitt að innsigla kökubaukana fram undir jól !






    

    14. nóv. 2007

Sigrún að ganga frá bjúgunum
  Þá er nú búið að reykja bjúgun og hér er frúsa að ganga frá þeim til vetursetu í frystikistunni.







 






Arnar Heimir 
  Aldurinn færist yfir þennan unga mann. Í dag varð hann sem sagt árinu eldri. Hann ber nú aldurinn þokkalega vel og hér er hann með sín helstu hjálpartæki í lífinu, símann og kaffikrúsina. Við sendum honum okkar bestu kveðjur til Danaveldis í tilefni dagsins.   







 

 







    

    13. nóv. 2007

Þórarinn Ingi Pétursson
  Í dag fór ég á stjórnarfund hjá Félagi sauðfjárbænda við Eyjafjörð(FSE),  sem haldinn var í Búgarði. Við vorum meðal annars að ræða um komandi vertíð í sauðfjársæðingum. Ákveðið var að halda áfram að prófa notkun á djúpfrystu sæði, en það var aðeins reynt á örfáum bæjum í fyrra, víðast með sæmilegum árangri. En nú eins og í fyrra  verður aðeins boðið upp á þessar sæðingar á fáum bæjum, en annars staðar verður sætt með fersku sæði. Ýmis fleiri mál voru rædd en þau verða ekki tíunduð hér.
Á myndinni má sjá formann félagsins Þórarin Pétursson bónda í Laufási.



    11. nóv. 2007

Steingrímur Hannesson
  Í dag tók þessi ungi maður allt í einu upp á því að verða fertugur, sem er nú ekki svo slæmt, samanber allt er fertugum fært. Í tilefni dagsins tók hann sér smá pásu frá steypuvinnunni og bauð stórfjölskyldunni í kaffi og bakkelsi. Þetta var hið ánægjulegasta afmælissamsæti. Að því loknu stakk svo afmælisbarnið af í vinnuferð til Lundúnaborgar (ekki að steypa).
  Myndir úr afmælinu má sjá hér.


 

 




    10. nóv. 2007


 

  Í dag var móðursystir mín Steingerður Júlíana Jósavinsdóttir í Brakanda, jarðsungin frá sinni sóknarkirkju, Möðruvöllum í Hörgárdal og jarðsett í kirkjugarðinum þar. Að lokinni athöfninni á Möðruvöllum bauð fjölskyldan til erfidrykkju í Hlíðarbæ.
  Veður var stillt, en fremur svalt og smá snjógrámi á jörðu.
  Athöfnin var látlaus með fallegum blæ, sem var einmitt í anda hennar frænku minnar. Hún var ekki mikið fyrir það á sinni lífsleið að láta á sér bera eða trana sér fram, enda þurfti hún þess ekki. Verkin hennar og alúð töluðu sínu máli, hvort heldur að litið væri til fjölskyldunnar, heimilisins eða bústarfanna. Hún ann sinni stóru fjölskyldu og var vakin og sofin í umhyggju sinni fyrir henni. Og heimilið hvað það var alltaf fallegt, sérstaklega minnist ég þess hvað mér fannst stofan hennar alltaf flott. En hún var nú samt alltaf fyrst og fremst afburða búkona, hvort heldur sem var að sinna sínum skepnum, sem hún hafði ómælda ánægju að gera sem best við og hlúa að þeim, eða gera mat úr sínum búsafurðum. Myndbrot kemur upp í hugann er ég átti leið hjá Brakanda í sláturtíðinni og sá Steingerði vera að svíða utan undir vegg. Þannig var hún, vildi hafa sem mest af sínum mat heimagerðan.
  Oft var ég búinn að fara með móður mína blessunina í Brakanda til systur sinnar. Þá stríddi ég henni stundum á því að ég væri að fara með hana í pössun til Steingerðar. Þetta gerðist gjarnan, þegar aðrir hér á heimilinu voru að fara eitthvað og hún hafði ekki löngun til að fara með og þá sagði hún stundum, ég fer bara til hennar Steingerðar á meðan og það var ágæt ráðstöfun, því þær systur nutu báðar þessara samverustunda. Ég minnist þess þegar við Sigrún heimsóttum Steingerði í síðasta sinn í Brakanda. Þá var hún orðin nokkuð þrotin af kröftum og hafði miklar áhyggjur af því að þær góðgerðir, sem hún bar fyrir okkur væru ekki nógu myndarlegar. Og satt var það, þær voru líkt og kraftarnir hennar ekki eins og áður var, en báru þess þó glöggt vitni, að þar bar á borð ein af þessum stóru húsmæðrum fyrri tíma, þegar húsmóðir var húsmóðir og var stolt af því hlutverki sínu.
  Já kraftarnir þrutu, en það var staðið meðan stætt var. Og óskaplega var það sárt og erfitt fyrir hana frænku mína, þegar hún varð að yfirgefa heimilið sitt í Brakanda og flytjast á Dvalarheimilið Hlíð, fyrir um tveimur árum síðan og vera þar upp á aðra komin. Hún þessi harðduglega kona, sem unni sínu sjálfstæði og frelsi til allra sinna athafna og ætíð hafði verið fremur veitandi en þiggjandi. En þannig er nú lífsins gangur ófyrirséður og á stundum óviðráðanlegur.
  Ég kveð þig kæra frænka mín með söknuði og þökk fyrir allt og allt.
  Sértu Guði falin og Guð blessi minningu þína.

    9. nóv. 2007

Auður María Þórhallsdóttir 
  Þessi gerðarlega stúlka fullorðnast alltaf heldur með hverju árinu sem hún eldist og í dag náði hún einum áfanga á þeirri leið. Hún átti sem sagt afmæli, en það er víst ekki háttvísi að geta þess hversu margra vetra hið fegurra kyn er og því skal sleppa því hér. Henni eru hins vegar sendar hjartkærar afmæliskveðjur alla leið til Danaveldis hennar hátignar Margrétar Þórhildar. Glæsipían býr þar núna ásamt sínum sambýlingi og þremur mannvænlegum börnum.












    8. nóv. 2007

  Í kvöld var hér fjallskilanefndarfundur. Við vorum að fara yfir hvernig fjallskil haustsins hafa gengið fyrir sig. Almennt gengu þau að því best er vitað vel, þótt veðrið væri ögn að stríða gangnamönnum, eins og t.d. hérna þann 12. og 13. sept. þegar við lentum í vonsku veðri, slyddu og snjókomu til fjalla.


   7. nóv. 2007

Guðmundur að smíðaSigrún að smíða
Hjónakornin (fyrrum sambýlingar) að smíða í fjárhúsunum aldeilis dugnaður það !

    5. nóv. 2007

Sólveig Elín og Tómas Leonard
  Hér er hann Tómas Leonard með henni mömmu sinni og orðinn bara mannalegur. Og hann á tveggja mánaða afmæli í dag. Skyldi hann hafa haldið upp á afmælið með viðhöfn, ekki gott að segja um það. Allavega senda amma og afi honum afmæliskveðju til Svíþjóðar og vona að hann haldi áfram að dafna vel, kúturinn sá.
  PS: 6. nóv. 
  Í dag fór hann Tómas Leonard í reglubundna skoðun og fékk þá umsögn að hann væri bæði stór og sterkur miðað við aldur. Hann er orðin 5.260 gr. að þyngd og langur sem áll eða 58 cm.
  
  



   

 

 

 






    3. nóv. 2007

Sér norður Hörgárdalinn  Félagar í Framfara sóttu í dag graðhestana sína, sem verið hafa hér í hagagöngu í hólfinu á Nýjabæ frá því í júní í sumar. Myndin var tekin þegar verið var að koma með hestana og þeir strolluðu sig fallega. Eins og sjá má er nokkur snjór og það er mikil hálka á veginum. 
  

    
  

  



  
    Ég hef verið að setja inn nýjar upplýsingar varðandi sauðféð hér á heimasíðuna, bæði tölur og súlurit.

    1. nóv. 2007

Hjónakornin að úrbeina Í dag var unnið af kappi við að úrbeina hrútana,sem við fengum senda frá Blönduósi í gær og okkur tókst að klára það.
 Í morgun var bjart veður, stilla og 10 stiga frost. En í kvöld fór að hvessa og hríða.
 Gimbrarnar voru settar inn aftur í kvöld.
 Það er orðið illt á jörð, snjór svona að meðaltali vel í ökla og nokkuð hörð skel, þannig að það er erfitt fyrir féð að krafsa.

 

 

 

 

 

Flettingar í dag: 37
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108147
Samtals gestir: 24309
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:28:21
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar