Velkomin á heimasíðu Guðmundar og Sigrúnar Staðarbakka Hörgársveit

Fréttir júlí 2007

    29. júlí 2007

  Í dag var bjart og fagurt veður fram eftir degi, en það gerði smá skúr undir kvöld. Eins og fram kom hér á síðunni á gær er þetta afmælisdagurinn hennar mömmu minnar og núna er þetta líka orðinn afmælisdagur þess atburðar sem gerðist hér í dag, sem var bæði merkur og ánægjulegur. Myndir frá deginum má sjá hér.


    28. júlí 2007

  Á morgun þann 29. júlí hefði mamma mín blessunin orðið 92 ára, ef henni hefði enst aldur til. Við börnin hennar og aðrir afkomendur og makar komum saman í Engimýri og fengum okkur þar seinnipartskaffi til að heiðra minningu hennar. Um árabil var það fastur siður hennar, að bjóða okkur eitthvað í kaffi þegar hún átti afmæli og gjarnan var þá  farið í skoðunarferð um sveitir eða á söfn í leiðinni.


Stórfjölskyldan á veröndinni í Engimýri


    25. júlí 2007




Klárað var að taka síðustu rúllurna af túninu í dag og allt orðið hreint eins og sjá má.

   
Hér er rúllustæðan við Flögu-fjárhúsin frágengin. Komið net og dekk yfir til að verja rúllurnar fyrir hrafninum, eitur undir handa músunum og girðing umhverfis til að verjast ágangi búsmalans.
  
    21. júlí 2007


Í kvöld kom Guðmundur á Þúfnavöllum í heimsókn og ræddum við landsins gagn og nauðsynjar fram á nótt. Annar hallur undir hægri frjálshyggju en hinn vinstri sinnaður sósíalisti. þannig að umræðan spannaði nær allt litróf hugmyndafræðinnar. Ekki verður hér skýrt frekar frá þessum vangaveltum okkar, en víst er að við gætum í sameiningu leyst ýmis pólitísk vandamál sem steðja að þjóðfélaginu um þessar mundir.
    





     20. júlí 2007

  Í dag byrjuðum við að setja rúllur inn í hlöðurnar. Það var sól annað slagið og hlý sunnan gola, hiti um 18°.


Keflvíkingarnir: Gísli, Ragnheiður, Ása og Garðar Franz komu í heimsókn í dag, þau voru kát og hress og var gaman að þau litu aðeins við þótt þau stoppuðu nú ekki lengi.

    18. júlí 2007

Mikil veðurblíða hefur verið undanfarna daga sól og hlýtt á daginn, en það hefur verið mikill hitamunur dags og nætur, þannig að hiti hefur farið niður undir frostmark á næturna og stundum verið þoka líka. Heyskapurinn hefur gengið vel, þannig að klukkan hálf tólf í kvöld var klárað að koma síðasta heyinu í plast á Staðarbakka og kannski ekki seinna vænna því eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru veðrabrigði í aðsigi, því hann er farinn að draga upp á sig í suðrinu. 







   14. júlí 2007

Byrjað var að flytja rúllur í dag og stafla þeim til vetursetu.

Verið að lesta gamla Benz (árgerð 1961)

Og svo affermt þegar komið er heim á melinn þar sem stæðan á að vera

Byrjað að hlaða stæðuna

Og það var komin myndarleg stæða að kveldi 123 rúllur


    13. júlí 2007  Hundadagar byrja

  Það hefur verið mikið að gera í heyskapnum undanfarna daga og því ekki gefist tími til að setja nýtt efni inn á heimasíðuna. Síðustu dagar eru búnir að vera ágætir, sól og hæfilegur vindur til heyþerris. Það hefur reyndar verið þoka á nóttunni og stundum ögn fram á morguninn. Eins og áður hefur komið fram var byrjað að slá hér heima þann 3. júlí. Fór þetta heldur rólega af stað, bæði vegna lélegs þurrks og vandræða með rúllu- samstæðuna. Það tókst samt að ná af um 17 ha. á fyrstu vikunni. Þann 9. júlí var svo byrjað á að slá í Flögu og má segja að heyskapurinn þar hafi gengið mjög vel, það síðasta var rúllað þar í gærkveldi. Þannig að það tók ekki nema 4 daga að heyja þessa 25 ha. og náðust af þeim 247 rúllur af vel verkuðu heyi. Sprettan var misjöfn, léleg á túnum sem eru viðkvæm fyrir þurrki, en all góð á mýrartúnum. Rúllusamstæðan er nú komin í þokkalegt lag og þegar hún virkar eðlilega gengur mjög hratt að rúlla með henni. Í dag er svo þoka og súld, þannig að maður er sæll og glaður að vera búinn að koma öllu í plast, sem búið er að slá. Þótt enn sé eftir að slá um 20 ha. hér sunnan við bæ.


     7. júlí 2007

Í dag fórum við öll á bænum í brúðkaupsveislu sem haldin var á eyðibýlinu Svaðastöðum í Skagafirði. Brúðhjónin eru  Hlíf Sumarrós Hreinsdóttir frænka mín frá Auðnum og Friðrik S Pálmason ættaður frá Svaðastöðum. Þetta var frábær veisla, þar sem ekkert var til sparað hvorki í mat né drykk.
Myndir úr brúðkaupsveislunni má sjá hér.

   







     5. júlí 2007

    Jæja þá er nú loksins farið að rigna eftir mjög langvarandi þurrkatíð. Það fór að dropa um nónbilið og svo fór að helli rigna. Við náðum að rúlla nokkrar rúllur, en það ringdi svo í hey á einum 5 ha. Það hefur verið hálfgert vesen með rúllusamstæðuna það sem af er heyskapnum. Hrafn hjá Þór kom því í dag að líta á hana, en hann fann ekki út hvað að er,  það er annað hvort tölvan eða vökvaflæðið. Hann á eftir að kanna það nánar.


     Rigningin streymir úr loftinu í dag 


    4. júlí 2007

  Jónas Ragnar og Guðrún Kolbrún komu í dag, þau voru að koma keyrandi frá Reykjavík og komu hér við í kvöldverðarboð sem Sigrún var búin að dekka upp, hina ljúffengustu framhryggjarsteik og var hún að sjálfsögðu af lambi úr fjárræktinni okkar.  Í kvöld héldu þau svo áfram til Akureyrar og ætla að dvelja í Ránargötu 2 nokkra daga. 


    3. júlí 2007

    Sláttur hafinn með nýju Fella sláttuvélinni.


  Í dag var byrjað að slá. Sprettan er fremur léleg eftir langvarandi þurrk undanfarnar vikur og eru tún að byrja að brenna. Grösin eru farin að skríða þannig að það verður að slá þótt blaðvöxturinn mætti vera meiri og svo verður bara að treysta á góða háar sprettu. Slegnir voru rúmir 7 ha. og það var svo rúllað allt í kvöld og fram á nótt 71 rúlla. Það er spáð rigningu á morgun, en ætli að hún komi nokkuð fremur en undanfarið þegar henni hefur verið spáð.

    2. júlí 2007

  Í dag kom Guðmundur Hallgrímsson á Hvanneyri. Hann var að sækja 3 hrúta hér norður í land sem eiga að fara á sauðfjársæðingastöð. Einn er frá Skútustöðum í Mývatnssveit, annar Gullbrekku í Eyjafjarðarsveit og svo er það Þróttur hér á bæ.
 
Nokkrir fróðleiksmolar um Þrótt 04-240.
 
Foreldrar Þróttar eru: F. Spakur 00-909 sæðingahrútur frá Arnarvatni í Mývatnssveit (frekari upplýsingar um hann má finna í hrútaskrá sæðingastöðvanna). M. Féleg 00-058, vel gerð og ágæt afurðaær, sem hefur átt 10 lömb á 6 árum (gemlingsárið meðtalið), að meðaltali hafa þau komið þannig út: Þungi á fæti 43,5 kg. fallþungi 18,4 kg. vöðvaflokkun 13,3 og fituflokkun 7,5. Sjálfur er Þróttur með góðar BLUP tölur 120 f. fitu og 130 f. vöðva. Í fjárræktarfélagsuppgjörinu fyrir 2006 er hann með 99 í eink. fyrir lömb og 101 fyrir dætur. Undan Þrótti báru 7 tvævetlur í vor og áttu þær að meðaltali 2 lömb, þá báru 8 veturgamlar að meðaltali 1,4 lömbum. Hvoru tveggja er yfir búsmeðaltali. 
  Í hátt er Þróttur frískleg kind, sem getur átt það til að renna í mann, ef maður varar sig ekki á honum. Hann er prýðis vel gerður, var hæst stigaði lambhrúturinn á svæði BSE 2004 með 86,5 stig.
 
Læt þetta duga að sinni um Þrótt minn og vona að hann reynist eins vel á landsvísu og hann hefur reynst okkur hér á Staðarbakka.


  Þessar myndir voru teknar þegar ég sótti hrútana fram í hólf í morgun. Á fremri myndinni eru jafnaldrarnir 3; Hlutur sem sér í afturendann á, Baggalútur og Þróttur næst á myndinni. Á hinni myndinni eru Baggalútur og Þróttur, en Lappi fylgist með af áhuga.

 

 

Flettingar í dag: 114
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 403
Gestir í gær: 132
Samtals flettingar: 108224
Samtals gestir: 24359
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 10:49:24
clockhere

Staðarbakki

Nafn:

Guðmundur Skúlason & Sigrún Franzdóttir

Farsími:

846 1589/615 1949

Afmælisdagur:

21. okt. og 6. febr.

Heimilisfang:

Staðarbakki

Staðsetning:

Hörgársveit

Heimasími:

462 6756

Um:

Við erum bændur á Staðarbakka og búum þar með sauðfé.

Kennitala:

211051-4509

Bankanúmer:

1187-26-10528

Tenglar